Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Verkalok þessa þings sem er nú að renna sitt skeið væntanlega á morgun verða sjálfsagt lengi í minnum höfð. Það er rétt eins og ríkisstjórnin hafi vaknað upp við þann vonda draum að eiga ýmislegt ógert þegar þingi lyki. Þar hafa menn reynt þær leiðir að berja í brestina og láta sem svo að miklar ákvarðanir væri nú verið að taka. Á engum stað gætir þessa þó eins áþreifanlega og í verkum hæstv. iðnrh. Ég hygg að það þurfi að leita víða og lengi til þess að finna þess hliðstæðu að ráðherra skilaði málum inn á Alþingi á síðustu dögum þess með sama hætti og hæstv. iðnrh. hefur látið sig hafa. Hér á ég m.a. við áltillöguna frægu upp á fjórar línur ef allt er talið með og sem á að marka tímamót varðandi það stóra mál.
    Og hér liggur fyrir þáltill. um lækkun húshitunar sem er raunar upp á þrjár og hálfa línu og ekkert efni felst í. Það sem vekur t.d. eftirtekt, svo að rétt dæmi séu nú nefnd, er síðasti liður þessarar tillögu, 6. liðurinn af þessum sex áhersluatriðum. Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Því fé sem Landsvirkjun kann í framtíðinni að verða gert að greiða ríkinu fyrir virkjunarréttindi verði að hluta varið til aukinnar verðjöfnunar á innlendri orku.``
    Hvað er þetta mikið fé? Það er svo sem ekki að furða þótt hæstv. iðnrh. vilji snúa sér undan þegar verið er að ræða þessa tillögu. En ég var að spyrja hvað væri áætlað að mikið fjármagn fælist í þessum 6. lið þáltill. Hvað eru þetta stórir póstar sem Landsvirkjun hefur verið gert að greiða ríkinu fyrir virkjunarréttinn? Hvað má ætla að það fáist mikið fjármagn til ráðstöfunar vegna þessa 6. liðar? Auðvitað er þetta út í bláinn. Mér er svo sem alveg sama þó að ég fái engin svör því að aðallega er ég að benda á þetta til þess að sýna fram á það fánýti sem hér er lagt fram.
    Það hefur komið hér fram hjá öðrum hv. þm. hvern hug þeir bera til þessarar tillögu. Það er auðvitað alveg ólíðanlegur kostur, jafnþýðingarmikið mál og hér er til meðferðar, að það skuli farið með það af jafnmiklu tillitsleysi gagnvart fólkinu í landinu og hér er gert því að auðvitað er það hreint tillitsleysi að leggja fram tillögu af þessum toga í jafnstóru máli og þessu.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en legg áherslu á, eins og hér hefur komið fram hjá öðrum hv. ræðumönnum, að hér er sá málatilbúningur á ferðinni sem lengi mun í minnum verða hafður.