Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Friðrik Sophusson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég má til með að vekja athygli hæstv. forseta á því að hæstv. iðnrh. hefur tekið til máls tvisvar í þessari umræðu. Í fyrra skiptið til að fylgja úr hlaði þessum tillögum sínum og í síðara skiptið til þess að svara ákveðnum atriðum sem til hans var beint. Ég óskaði eftir því við hæstv. ráðherra að hann yrði hér viðstaddur því að hann gerði að umtalsefni mína ræðu og mér finnst ekki hægt, virðulegi forseti, að halda þessari umræðu hér áfram án þess að virðulegur ráðherra fái tækifæri til þess að fylgjast með þessu máli. Það verður að segja sem er að það lýsir ekki miklum áhuga á málinu ef hæstv. ráðherra getur ekki séð sér fært að vera hérna við í þessari umræðu svo að ég mun að sjálfsögðu bíða með það að taka til máls þar til hæstv. ráðherra kemur. En ef einhverjir aðrir vilja ræða þetta mál á meðan, þá er það hægt mér að meinalausu.