Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég fagna góðum vilja þeirra nefndarmanna sem sátu í þeirri nefnd sem leggur þetta til. Nú hefur það komið fram að varaformaður Sjálfstfl. telur að annað atriði þessarar þáltill. fái ekki staðist. ( FrS: Sé afar óvenjulegt.) Og sé afar óvenjulegt. Mér fannst að á bak við lægi: Ráðinn er ég í að hafa það að engu. Þess vegna er það nú upp komið, sem ég hafði grun um, að Sjálfstfl. er ákveðinn í að koma þessu fyrir kattarnef og segir það þó nokkuð mikið um stöðu málsins.
    Ég vil vekja á því athygli að það er talið grundvallaratriði í stjórnkerfi Vesturlanda að þar sé skipt í framkvæmdarvald, dómsvald og löggjafarvald. Og með þeirri skipan að Alþingi kjósi fulltrúa til setu í Landsvirkjun er þessi regla brotin. Þetta er ekki verkefni löggjafarþingsins. Svo einfalt er það mál. Þetta er verkefni framkvæmdarvaldsins, ef við viljum vera sjálfum okkur samkvæmir. Og auðvitað ætti framkvæmdarvald hvers tíma að fara að fullu og öllu með atkvæðisréttinn í Landsvirkjun. Ef við einfaldlega viljum virða þrígreiningu valdsins.
    Hvernig ætli ráðhúsið við Tjörnina liti út ef þannig hefði verið staðið að verki að Sjálfstfl. hefði fengið að ráða svona rúmlega helmingnum af húsinu og minni hlutinn hinum hlutanum? (Gripið fram í.) Það hefði verið hlutfall sem hefði ráðið þessu. Ætli það hefði þótt góð latína í þeirri uppbyggingu? Ég verð nú að segja eins og er að mér finnst húsið vera á röngum stað, en mér finnst þetta falleg bygging, þori að verja það hvar sem er að byggingin sjálf er hin glæsilegasta þó hún hafi kostað mikið og, hæstv. forseti, ég veit ekki til að nokkur borgarstjóri hafi byggt jafnmyndarlega yfir endurnar og sá sem lét byggja þetta hús, en það er að vísu yfir hlustendur aðallega. En ég ætla að bæta við: Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. sé ljóst eftir að varaformaður Sjálfstfl. hefur gefið þá yfirlýsingu sem hér hefur verið gefin að hugmyndin sem liggur á bak við þáltill. kemst ekki í höfn nema breytingar verði gerðar á stjórnarfyrirkomulagi Landsvirkjunar.
    Varðandi ágæta ræðu sem Ásgeir Hannes hélt hér og vakti athygli á því að ekki verður öllu jafnað eins og menn helst vilja, þá vil ég segja það að vissulega er það rétt hjá honum að höfuðborgarbúar þurfa að kosta miklu meiru til að komast til vinnu og eitt og annað er þeim mótdrægt miðað við þá aðstöðu sem er á landsbyggðinni. Samt er það svo að straumur fólks til þessa svæðis hefur verið það mikill að ef við gerum ráð fyrir því að menn hafa haft vitsmuni til að velja á milli betri kosts og verri kosts og að menn hafi þá valið betri kostinn, þá fari það ekki milli mála að þannig hefur íslenskt samfélag að sínum þegnum búið að betri kosturinn í fleiri málum hefur verið hafður hér.
    En ég vil bæta því við að það eru full mannréttindi viðhöfð á Íslandi og sé honum kosningarrétturinn meira virði en upphitunarkostnaðurinn, þá er einfalt mál að bjarga því strax og flytja til Vestfjarða.