Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Virðulegi forseti. Till. þessi til þál. um lækkun húshitunarkostnaðar er sjálfsagt góðra gjalda verð út af fyrir sig og vel og vandlega unnin undir forustu hv. 3. þm. Vesturl. Og ekki dreg ég í efa að þetta mál er erfitt viðureignar eins og hann komst að orði. En hún tekur aðeins á hluta af þessu mikla byggðavandamáli í landinu, sem er ójafn orkukostnaður. Till. er seint fram komin og vísar öllum vandanum áfram til framtíðar og næstu ríkisstjórnar, hver sem hún kann að verða.
    Hv. 3. þm. Vesturl. veit eins vel og ég að íbúar Vesturlands hafa á undanförnum árum lagt mjög ríka áherslu á jöfnun orkukostnaðar, borið saman heit og köld svæði og talið þetta geta haft úrslitaáhrif um búsetu manna. Hafi ég talið þennan kostnaðarmismun of háan í mínu máli hér áðan er sjálfsagt að leiðrétta það þó að ég muni ekki nákvæmlega hvernig dæmið stendur um þessar mundir. En væntanlega heldur hv. 3. þm. Vesturl. áfram baráttu sinni í þessu mikla réttlætismáli þó að við, hv. 1. þm. Vesturl. og ég, hverfum af þingi.