Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég skil það vel að skeleggir talsmenn landsbyggðarinnar, hinna köldu svæða, teldu að hér væri kannski ekki nógu langt gengið, nógu stórt skref stigið, en hitt kom mér á óvart að svo margir þingmenn vilji leggja stein í götu þessa máls. Það má vel vera að hér hefði mátt stíga stærra skref, taka ákveðnar á, en að menn sem telja sig talsmenn og málsvara fólksins á þessum köldu svæðum, eins og stundum er nefnt, skuli leyfa sér að gera lítið úr því sem hér er fram lagt, það skil ég ekki. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar, virðulegi forseti, víkja aðeins að því sem hér hefur komið fram og er mjög athyglisvert.
    Hv. 1. þm. Reykv. andmælir því að Alþingi marki almenna stefnu í málefnum lækkunar á húshitunarkostnaði. Ég er alveg sannfærður um það að hv. þm. hefur átt hlut að því með þingmönnum í sínum flokki að gera almennar tillögur um stefnu hvað varðar ákvörðun vaxta og verðtryggingar þótt það sé að sjálfsögðu í sérstökum greinum á valdsviði bankaráðanna að útfæra slíka hluti. Þetta eru sömu málin, virðulegi þingmaður. Þarna er spurningin um skilsmun hins almenna og hins sérstaka.
    Annar heimspekilegur punktur hefur reyndar líka komið hér fram frá hv. 2. þm. Vestf. þar sem hann bendir réttilega á að óskýr valdmörk geti stundum valdið óstjórn eða mistökum í stjórn. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. og færi vel að menn hygðu vel að því. En þetta er samt ekki, eins og hv. 1. þm. Reykv. virðist halda, eitthvað sem gangi þvert á rétta stjórnarhætti.