Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 18. mars 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Mér finnst stundum að nokkurs hugtakaruglings gæti þegar menn setja fram mál sitt. Ég vek athygli á markmiði nr. 1 þar sem svo stendur: ,,Tilgangur heilbrigðisþjónustunnar er að skapa heilsufarslegt jafnrétti.`` Heilsufarslegt jafnrétti. Hvað þýðir þetta? Ef við tölum um jafnrétti gagnvart beinbrotum, þýðir þetta þá það að verði einum það á að fótbrjóta sig þá beri að fótbrjóta hina sem eftir eru svo að jafnrétti ríki? Ekki trúi ég því nú að það sé tillaga hæstv. heilbrrh. í þessu máli. ( Forseti: Leyfist forseta að spyrja hv. þm. hvar hann getur lesið þetta? Því þetta er ekki að finna í þeim gögnum sem forseti hefur.) ( Heilbr.- og trmrh.: Þetta var í upphaflegu áætluninni, en það er búið að leiðrétta þetta. Það er búið að gera ýmsar góðar lagfæringar á þessu sem ræðumanni hefur yfirsést.) Ég tek nú gleði mína á ný þegar það kemur fram. Því þó þessi athugasemd hafi kannski verið dálítið alvarleg þá var hin sýnu alvarlegri, ef það hefði verið hugsunin með tillöguflutningnum að þurrka algjörlega út þann aldursmun kynjanna sem verið hefur.