Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 18. mars 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með að þessi íslenska heilbrigðisáætlun skuli vera komin frá félmn. hér til síðari umr. og vil þakka nefndinni fyrir mikla elju sem hún hefur lagt í þetta nefndarstarf og sérstaklega þó formanni nefndarinnar sem ég veit að hefur lagt mikla vinnu í að fara yfir allar umsagnir sem bárust um tillöguna og að endurskoða hana bæði með tilliti til orðalags og efnisatriða. Þetta vil ég að komi skýrt fram og ítreka þakkir mínar til nefndarinnar, einstakra nefndarmanna og formannsins.
    Ég held að það sem er nú lagt fram í brtt. á þskj. 951 sé allt til bóta. Það eru skýrari ákvæði en voru í tillögunni eins og hún var í upphafi lögð fram. Hún er stytt nokkuð og þar eru tekin inn atriði sem hefðu gjarnan mátt vera inni í tillögunni í upphafi.
    Ég vil hins vegar vegna nál. minni hl. segja að ég tel ekki ástæðu til að vísa málinu aftur til ríkisstjórnar. Það er eins og hefur komið fram í umræðum búið að fá ítarlega umfjöllun bæði þar og ítrekað í heilbrrn. og af þeim aðilum sem þar hafa fjallað um málið. Ótal einstaklingar sem hafa áhuga á þessum málum og eru sérfróðir á einstökum sviðum hafa komið að áætluninni í undirbúningi og í vinnslu og ég tel þess vegna að hún sé búin að fá mjög ítarlega umfjöllun. Og síðast en ekki síst í þessu ítarlega starfi í þinginu sjálfu sem hefur verið mjög mikilvægt og mjög vel unnið þannig að ég tel að það sé ástæðulaust og nú eigi þingið að samþykkja þessa ályktun.
    Varðandi nokkur efnisatriði nefndarálits á þskj. 952 vil ég segja að þar er reyndar tekið undir markmiðin sem hér eru sett fram að verulegu leyti. Auðvitað getur verið einhver áherslumunur í einstökum atriðum. Þó held ég að hann sé ekki djúpstæður. Mér finnst dálítið einkennilega til orða tekið þar að tala um varhugaverða stefnu í sambandi við áherslu á rekstur heilsugæslustöðva. Þó svo að auðvitað kunni að vera einhver áherslumunur finnst mér þetta undarlegt orðalag en geri að öðru leyti ekki meira úr því. Ég held að hér sé einmitt lögð áhersla á undirstöðuna, á forvarnastarfið og það er sérstaklega tekið fram í þessu nefndaráliti að minni hl. vilji stuðla að heilbrigðum lífsháttum með auknu forvarnastarfi. Það er m.a. hlutverk heilsugæslunnar, kannski ekki verið nægjanleg áhersla lögð á það í starfi heilsugæslunnar en þyrfti að undirstrika það enn betur og þess vegna þarf að byggja upp öfluga heilsugæslu.
    Það er líka lögð áhersla á það í þessari áætlun og reyndar er það nú svo í lögum um heilbrigðisþjónustu að fólk geti valið sér þá þjónustu sem það telur sér henta best. Ekki eru lagðar neinar hömlur á það að fólki sæki þjónustu til sérfræðinga eða beint til sjúkrahúsanna eins og mér virðist koma fram í nefndarálitinu og ég átta mig ekki á hvaðan það getur verið komið eða hvaðan sú tilfinning er komin sem hér er sett fram í nefndaráliti.
    Ég vil svo taka undir þá brtt. sem hv. félmn. hefur bætt við á þessum þingfundi þar sem lagt er til að inn í 2. tölul. sé bætt orðinu ,,einstaklinga`` vegna þess að það er bæði eðlilegt og reyndar nauðsynlegt því að heilbrigðisþjónustan gerir samninga við einstaklinga nú þegar í miklum mæli. Við semjum við alla sérfræðinga sem einstaklinga sem reka sjálfstætt starfandi stofur eða þjónustu og við höfum einnig samið við aðrar heilbrigðisstéttir, ekki bara lækna heldur ýmsar aðrar heilbrigðisstéttir og þá við þá sem einstaklinga, svo að þessi brtt. er eðlileg og sjálfsögð.
    Vafalaust má finna nokkur dæmi þess að heilsugæslan sé kostnaðarsöm. Við höfum byggt upp mjög öfluga heilsugæsluþjónustu um allt land, byggt upp myndarlegar stöðvar í litlum byggðarlögum þar sem það er afar mikilvægt að reka góða heilbrigðisþjónustu og getur í sumum tilfellum verið verulegt áhersluatriði varðandi þróun byggðar. Ég tel að það sé nauðsynlegt og það er eins og margt, margt fleira í okkar þjóðfélagi þar sem við þurfum að leggja í kostnaðarsama uppbyggingu þrátt fyrir fámenni, en þannig höfum við nú viljað reyna að mæta þeim sjónarmiðum eða óskum einstaklinganna um opinbera þjónustu.
    Ég held að þótt að þessari vinnu hafi komið ráðherrar með mismunandi stjórnmálaskoðanir, þá sé mismunurinn ekki mikill hvað varðar heilbrigðisþjónustuna og áhersluatriðin á heilbrigt líferni og bætta heilbrigðisþjónustu séu mjög keimlík. Reyndar hefur það nú verið svo í gegnum tíðina að það hafa ekki orðið miklar breytingar á viðhorfi stjórnmálamanna til heilbrigðisþjónustunnar þó ýmsar ríkisstjórnir hafi komið að. Og það er rétt sem kom fram í máli hv. 2. þm. Reykv. að upphafið að þessu er sú vinna sem lögð var í þetta í tíð hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur þegar hún var heilbrrh. og kom hér fyrst fyrir þing í skýrsluformi, hefur síðan verið endurskoðað, unnið og útfært nánar en ekki með byltingarkenndum breytingum.
    Auðvitað má sjálfsagt lengi fara yfir orðalag og gera athugasemdir við það sem hér er sagt. Og aðeins út af þessum atriðum sem eru í tveimur liðum sem hv. 2. þm. Reykv. gerði sérstaklega að umræðuefni, það var í lið 24, þar sem fjallað er m.a. um geðheilbrigðisþjónustuna, þá er aðalatriðið sem þar kemur fram að mínu áliti það að í dag eru aðeins þrjú sjúkrahús sem reka geðdeildir. Það hefði kannski verið réttara að orða það þannig en ekki segja geðspítalar, en það má auðvitað skiljast eins og það er sett fram að það eru geðdeildir þessara spítala. Það er Landspítalinn í Reykjavík eða ríkisspítalar, það er Borgarspítalinn og það er Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Það sem hér er átt við er fyrst og fremst það í mínum huga að þessum þremur sjúkrahúsum og geðdeildum þeirra sé ætlað að sinna geðheilbrigðisþjónustu í landinu, en ekki að farið verði að koma upp sérhæfðri þjónustu á þessu sviði á hinum smærri sjúkrahúsum.
    Varðandi vistun sjúklinga með langvarandi geðsjúkdóma er fyrst og fremst átt við það að þeim sé komið fyrir á sambýlum eða öðrum sjúkrastofnunum með öðrum sjúklingum, en ekki hafðir inni á sérstökum deildum fyrir geðsjúka, enda hafa geðdeildir þessara spítala lagt áherslu á það að þar ætti ekki að vista einstaklingana til langframa heldur ættu þeir að vera þar til lækninga og síðan að fara á ný út í þjóðfélagið, en þá auðvitað að búa þeim þær félagslegu aðstæður sem þeim henta, annaðhvort á sambýli eða á öðrum vistunarstofnunum. Þetta finnst mér því geta staðið eins og það er sett fram þó ég hafi ekki á móti því ef nefnd treystir sér til þess að gera hér orðalagsbreytingar.
    Varðandi síðan athugasemdir við lið nr. 30 þar sem talað er um rannsóknir, þá vil ég líka segja það sem mína skoðun á því sem hér er sagt: ,,Heilbrigðisrannsóknir skulu efldar og í því skyni gerð sérstök rannsóknaráætlun fyrir árið 1993 til að styðja framkvæmd þessarar heilbrigðisáætlunar,`` þá sé hér verið að tala um áætlun hvað varðar rannsóknirnar sérstaklega. Auðvitað er heilbrigðisáætlunin öll í eðli sínu hugsun um það hvernig heilbrigðisþjónustan eigi að vera framkvæmd á þessum áratug sem eftir lifir til aldamótanna og hér er aðeins verið að leggja sérstaka áherslu á rannsóknirnar og setja fram sérstaka áætlun um hvernig að þeim skuli staðið. Það kemur frá einstaklingum, frá læknum sem starfa á því sviði. Gæti ég nafngreint tvo sem hafa sett fram hugmyndir sínar hvað þetta áhrærir, en út af fyrir sig er það ástæðulaust því að ýmsir hafa að málinu komið og ég álít að þetta orðalag sé reyndar valið að verulegu leyti af þeirra hálfu.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa fleiri orð um þetta. Ég vil aftur ítreka þakkir mínar til nefndarmanna og til formanns nefndarinnar sérstaklega fyrir hans mikla starf við að koma þessu hér inn í þingið á ný í þeim búningi sem það er nú. Ég vænti þess að þingmenn flestir, vonandi allir, treysti sér til að ljá málinu lið í þeim búningi sem það er nú og við getum eftir mikla vinnu á þremur þingum samþykkt þessa tillögu sem þál. og verð því að mæla gegn þeirri hugmynd að vísa málinu einu sinni enn til ríkisstjórnar.