Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 18. mars 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Frú forseti. Ég hafði í raun og veru lesið þessar brtt. nú rétt áðan, en þær voru ekki á einu og sama blaðinu þannig að ég taldi ófært fyrir hæstv. forseta að ráða í þær rúnir sem á blaðinu voru, en brtt. eru þessar:
    1. Við 24. gr. Í stað orðsins ,,geðspítalar`` komi: geðdeildir.
    Ég gerði grein fyrir því áðan að geðspítalar hafa ekki verið til í landinu sl. 20 ár þannig að það er eðlilegt að þarna standi geðdeildir.
    2. brtt. við sömu gr., 6. mgr.: Við fyrri málslið bætist: og njóti þar geðlæknisþjónustu, þ.e. þeir sem eru á sambýlum með öðrum sjúklingum.
    3. brtt. er við 30. gr. um orðalag síðari málsgreinar þeirrar greinar, en það verði svona: ,,Heilbrigðisrannsóknir skulu efldar. Gerð skal sérstök áætlun fyrir árið 1993 til þess að styðja framkvæmd þessarar heilbrigðisáætlunar. Sérstaklega skal gefa gaum að rannsóknum á sambandi lífshátta og umhverfis á heilsufar. Vinna skal að því að gera allar upplýsingar aðgengilegar almenningi.``
    Loks 4. brtt. Við tillöguna bætist nýr töluliður svohljóðandi: ,,Áætlun þessa skal endurskoða að þremur árum liðnum.``
    Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir tillögunni þar sem hún er of seint fram komin.