Samningar um álver
Mánudaginn 18. mars 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Til mín var beint nokkrum spurningum frá þeim hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Að vísu sýnist mér nú einn þeirra, sem hvað lengst og mest talaði um þetta mál, ekki vera í salnum en ég mun engu að síður reyna að svara þeim spurningum sem hann beindi til mín, þ.e. hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson.
Ef ég fer yfir það sem kom fram í máli hv. þm., þá get ég byrjað að nefna það sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur.
    Það var að vísu ekki mikið sem hún spurði um. Hins vegar kom hún með órökstuddar fullyrðingar um það að ekki hefði verið haldið nógu vel á álmálinu, þ.e. mengunarvörnum þar, án þess að þingmaðurinn virtist hafa kynnt sér nokkuð hverju raunverulega væri verið að vinna að í tengslum við það mál. Hún nefndi það svo að það væri stöðugt undanhald í málinu. Satt best að segja botna ég ekkert í hvað þingmaðurinn á við þar því að ég hef ekki orðið var við neitt slíkt undanhald. Það er búið að vinna mjög faglega og vísindalega vinnu í tengslum við undirbúning að útgáfu starfsleyfis. Það var skipuð ráðgjafarnefnd á vegum umhvrn. snemma sl. sumar og í þá ráðgjafarnefnd voru skipaðir færustu sérfræðingar sem við eigum á þessu sviði til þess að fjalla á faglegan og vísindalegan hátt um alla þætti umhverfisáhrifa af völdum álbræðslu þeirrar sem talað er um að verði reist á Keilisnesi og safnað saman upplýsingum alls staðar að úr heiminum um það nýjasta sem vitað er um bæði umhverfisáhrif og mengunarvarnir og aðra tæknilega þróun sem hefur átt sér stað í tengslum við mengunarvarnir í álbræðslum á undanförnum árum.
    Mér er mjög til efs að mörg mál hér á þingi eða í tengslum við byggingu nýrra verksmiðja á Íslandi hafi verið jafn vel unnin og þetta mál, þ.e. undirbúningur að útgáfu starfsleyfis, og að tala um eitthvert undanhald í þeim efnum eða að ekki hafi verið nógu vel haldið á málinu eru bara órökstuddar fullyrðingar og hreinar dylgjur og sæmir ekki hv. þm. að viðhafa slík orð.
    Ég þarf kannski ekki að fjalla mikið meira um það sem kom fram hjá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur. Ég get þó getið þess að þegar er verið að undirbúa útgáfu starfsleyfis ber samkvæmt skilmálum mengunarvarnareglugerðar að hafa samráð og samvinnu við þann aðila sem sækir um starfsleyfið ef um meiri háttar mál er að ræða. Með svipuðum hætti hefur t.d. átt sér stað verulegt samráð og samvinna við umsækjendur um starfsleyfi fyrir sorpböggunarstöð og móttökustöð fyrir sorp í Gufunesi og sorpböggun og urðun í Álfsnesi. Þar er ekki verið að semja um mengun, eins og hv. þm. talaði um, heldur er verið að fara yfir málið og kanna með hvaða hætti aðilar geta orðið sammála um að koma í veg fyrir að umhverfisspjöll verði og treysta allar mengunarvarnir. Þetta á ekkert skylt við að það sé verið að semja um mengun. Það er hins vegar nauðsynlegt að sá sem gefur út starfsleyfi og sá sem hefur lagt inn umsókn um starfsleyfi fari yfir það saman hvaða aðferðum verði beitt og hvaða tækni er tiltæk til þess að starfsleyfi getið verið gefið út á þeim grundvelli.
    Síðan kom það fram að í öllum nýjum álverum í Evrópu væri gerð krafa um hreinsun brennisteinstvíildis. Þetta er á misskilningi byggt. Mér vitanlega er hvergi í heiminum í dag gerð krafa um hreinsun á brennisteinstvíildi frá álverum. Við höfum farið mjög ítarlega yfir þetta mál, við höfum safnað upplýsingum alls staðar að úr heiminum. Við höfum leitað eftir upplýsingum bæði frá Bandaríkjunum, Japan, Ástralíu og Evrópulöndunum og við leituðum enn fremur til umhverfismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna og spurðum sérstaklega eftir því hvað hún ráðlegði í þessum efnum og það ber allt að sama brunni. Hvergi í heiminum er gerð krafa um það að brennisteinstvíildi sé hreinsað í álverum.
    Mengunarvarnastofnun Noregs, sem mikið hefur verið nefnd í þessu sambandi, sendi okkur erindi eftir að við höfðum beint fyrirspurn til hennar þar sem hún tekur skýrt fram að það sé ekki gerð krafa um brennisteinstvíildishreinsun í norskum álverum. Hins vegar hafa bæði sænskir og norskir sérfræðingar á þessu sviði sagt að til greina geti komið ef aðstæður eru mjög sérstæðar að í einstökum starfsleyfum kunni að verða gerð krafa um brennisteinstvíildishreinsun en það er ekki almenn krafa og er hvergi lögfest að það sé aðalkrafan heldur geti það í undantekningartilvikum komið fram í einstökum starfsleyfum, án þess að það hafi komið til þessa hvorki í Svíþjóð né Noregi.
    Það var fjallað um grein sem ég skrifaði í Dagblaðið. Ég get út af fyrir sig staðið við hvert orð sem ég sagði þar. Ég hef aldrei verið neinn sérstakur stóriðjuaðdáandi svo að það komi bara hreint fram. Ég hef talið skynsamlegra að leysa atvinnumál á Íslandi með öðrum hætti. Hins vegar hef ég ávallt lýst því yfir að gefist tækifæri til þess að fá hingað stóriðjufyrirtæki, þá beri að líta á það sem búhnykk fyrir íslenskt atvinnulíf og væri fráleitt að hafna slíkum kosti ef hann gæfist. En ég tel að samhliða því, og hef reyndar oft bent á það, beri að leggja miklu, miklu meiri áherslu á alhliða uppbyggingu lítilla framleiðslufyrirtækja sem kynnu hugsanlega að henta betur fyrir íslenskt atvinnulíf heldur en eintóm stóriðjufyrirtæki. Þess vegna væri kannski skynsamlegast að þetta væri meira í bland. Þó að hingað komi eitt og eitt stóriðjufyrirtæki, þá leysir það ekki atvinnuvandamál á Íslandi. Samhliða þeirri uppbyggingu þarf að koma, eins og ég segi, almenn iðnaðaruppbygging með smáum atvinnufyrirtækjum.
    Ég get farið hratt yfir sögu. Hv. þm. Stefán Valgeirsson minntist á sjónvarpsspólu sem hann hefði komist yfir sem sýndi mikla mengun í álverum í Noregi. Ég býst við að hér sé um að ræða eldri gerð álvera og mér kemur í raun og veru ekkert á óvart að það sé hægt að sýna myndir sem sýni óhugnanlega mengun í álverum. Ég hef sjálfur skoðað gamalt álver í Sundsvall í Svíþjóð þar sem elsti hluti þess álvers er með þeim hætti að mann hryllir við þegar maður kemur inn í kerskálann. Þar er reykmökkur

þannig að ekki sést á milli enda í húsinu. Ég mundi ekki vilja ætla neinum að vinna inni við þær aðstæður sem þar eru. En hér er um að ræða gamaldags aðferð, sem er löngu orðin úrelt, í gömlu álveri sem var reist fyrir og um síðasta stríð þannig að það er á engan hátt sambærilegt við það sem við erum að tala um sem yrði reist á Keilisnesi.
    Ég get kannski komið betur að öðrum álverum sem við höfum kannað og skoðað í sambandi við svör við þeim spurningum sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson beindi til mín. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði enn fremur hvernig væri háttað samstarfi milli iðnrn. og umhvrn. í sambandi við útgáfu starfsleyfis og umhverfisáhrif væntanlegs álvers á Keilisnesi. Ég get svarað því til að sérfræðingar iðnrn. og sérfræðingar umhvrn. hafa átt mjög gott samstarf, enda væri náttúrlega óðs manns æði ef ekki væri reynt að hjálpast að við að safna þeim tæknilegu upplýsingum sem þarf að fá til þess að geta lagt mat á umhverfisáhrifin og þær aðgerðir sem eru nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir að umhverfisspjöll verði af álverinu eða alla vega að þeim verði haldið í algeru lágmarki.
    Við skulum fara svolítið ítarlega yfir brennisteinstvíildismálið og reyna að sjá hvað það segir í raun og veru. Brennisteinstvíildi sem myndast í álveri stafar af því að þau kol sem eru notuð í rafskautin, þ.e. í anóðurnar, eru kol sem hafa náttúrlegt innihald af brennisteini gjarnan á bilinu frá 0,5% og upp í 3%. Við bruna á rafskautunum í kerunum myndast brennisteinstvíildi sem berst með reyknum frá kerunum út í andrúmsloftið. Því minna brennisteinsinnihald sem eru í kolunum í rafskautunum þeim mun minni verður losun brennisteinstvíildis út í andrúmsloftið.
    Það eru ýmsar aðferðir við það að reyna að draga úr brennisteinstvíildismenguninni. Virkasta aðferðin væri að sjálfsögðu sú að hreinsa hreinlega brennisteininn úr kolunum áður en framleiðsla rafskautanna fer fram. Það er einu sinni svo að það eru allir sérfræðingar í mengunarvörnum sammála um eitt, að það sem skilar lélegustum árangri og er um leið kostnaðarsamast í sambandi við alla mengandi iðnaðarframleiðslu er að byggja dýran og flókinn hreinsibúnað við enda framleiðslunnar, þ.e. að setja annaðhvort hreinsitæki á frárennsli frá iðnaðarfyrirtækjum eða á reykháf iðnaðarfyrirtækja, en aðhafast ekkert að öðru leyti. Allir sérfræðingar á þessu sviði eru sammála um að langvirkasta aðferðin og um leið hagkvæmasta er að fara vandlega yfir allan ferilinn og reyna að grípa inn í í miðjum ferli og draga með þeim hætti úr mengun sem kemur út um endann frá verksmiðjunni.
    Þess vegna ber mönnum saman um það að miklu betra væri að reyna að losa sig við brennisteinstvíildið með þeim hætti að reyna að gera annað tveggja. Í fyrsta lagi að hreinsa hreinlega brennisteininn úr kolunum áður en rafskautin eru framleidd. Það er verið að gera tilraun með slíka hreinsun víða í heiminum og hún virðist ætla að skila góðum árangri þar sem það liggur nú fyrir að verð á kolum sem eru óhreinsuð til framleiðslu á rafskautum er í kringum 115 Bandaríkjadalir á tonn, en í þeim tilraunaverkefnum sem

hafa átt sér stað í heiminum, þá hefur verð á hreinsuðum kolum verið eilítið hærra, eða 140 dollarar á tonn. Það er að vísu enn þá of dýrt til þess að það sé talið hagkvæmt að nota algerlega hreinsuð kol, enda hefur framleiðslutækni ekki enn þá verið komið á það stig að það sé talið hagkvæmt, en allir spá fyrir um það að ekki muni líða nema nokkur ár þangað til eingöngu verði farið að nota hreinsuð kol í rafskaut og þá er í raun og veru brennisteinstvíildismálið úr sögunni.
    Líka er í gangi tækniþróun sem lofar góðu, sem byggir á því að nota alls ekki kol í rafskautin heldur svokallaða sjaldgæfa jarðmálma þannig að rafskautin eyðist ekki, þau verði óeyðanleg. Í slíkum rafskautum yrði einfaldlega enginn brennisteinn og þar með mundi ekkert brennisteinstvíildi myndast. Þar af leiðandi eru allar líkur á því að innan tiltölulega fárra ára verði ekki talað neitt frekar um brennisteinsmengun frá álverum vegna þess að það mál verði einfaldlega úr sögunni. Því höfum við valið að krefjast ekki vothreinsibúnaðar í hinu nýja álveri í Straumsvík einfaldlega á þeim forsendum að það eru hvergi kröfur um slíkt í nýjum álverum og frekar sett fram þá kröfu að kol í rafskautum skuli vera með hámarks brennisteinsinnihaldi í kringum 2% til þess að halda brennisteinstvíildismenguninni í skefjum þangað til það mál hefur verið leyst endanlega þannig að ekki þurfi frekar að hafa áhyggjur af brennisteinstvíildismengun. Ég tel að það sé um að ræða nokkurra ára bið eftir því að það mál verði endanlega leyst.
    Vothreinsibúnaðurinn er þar að auki ekki sérlega fullkomin aðferð við að hreinsa brennisteinstvíildi. Hann nær að hreinsa kannski um 80 -- 90% af brennisteinstvíildinu úr reyknum en í staðinn setur hann brennisteinstvíildið í sjó fram. Að vísu telja líffræðingar að það geri sjónum ekki mikið til þó að í hann sé dælt miklu magni af brennisteinstvíildi. Hins vegar er enginn vafi á því að t.d. þeir andstæðingar okkar sem hafa oft viljað halda fram þeim áróðri að Ísland sé nú ekki eins hreint land og við viljum sjálfir vera láta og hafa þar með kannski viljað kasta rýrð á okkar framleiðsluvörur og okkar fiskafurðir gætu vel nýtt sér það að við værum að dæla út brennisteinstvíildi í einhver bestu fiskimið þjóðarinnar hérna út af Reykjanesi. Ég er því ekkert viss um að það væri sérlega hagkvæmt að farið væri að flytja fréttir af því að við dældum brennisteinstvíildinu beint í sjóinn við hliðina á okkar fiskimiðum. Menn þurfa því líka að hugsa um þá hlið málsins, hvort það er í raun skynsamlegt að færa brennisteinstvíildið úr útblæstri út í loftið og yfir í sjóinn í staðinn.
    Það er líka annað sem er vandamál og það er að eftir því sem meiri brennisteinn er í kolunum, og reyndar fylgir það sjálfkrafa auknu brennisteinsinnihaldi í kolum, þá verður meira um þungmálma í kolunum og alls konar eiturefni sem við vothreinsunina fara öll í sjó fram þannig að við fáum þá mengun sjávar í nágrenni við álverið af völdum þungmálma og annarra eiturefna. Vothreinsibúnaður er því mjög varhugaverður í þessu sambandi einmitt vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem hér eru. Ég tel þess vegna miklu skynsamlegra að ná fram samkomulagi um að brennisteinstvíildismálið verði leyst með öðrum hætti og þar bind ég miklar vonir við það að innan fárra ára verði farið að hreinsa brennisteininn úr kolunum áður en skautin eru framleidd. Síðan er talið að um aldamótin verði farið að nota þessi óeyðanlegu rafskaut úr sjaldgæfum jarðmálum þannig að þá þarf ekki að tala neitt meira um brennisteininn.
    Flúorhreinsunin byggir á fullkomnustu tækni við hreinsun á flúor úr reyknum úr kerum sem völ er á í heiminum í dag. Reyndar talaði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson um það að Pechineytæknin sem hefur verið valin til notkunar í hinu nýja álveri, sem á að rísa á Keilisnesi, sé verri en í Straumsvík, þ.e. sú tækni sem er notuð í Straumsvík. Þetta hlýtur nú að vera á misskilningi byggt því að af öllum sérfræðingum sem fjalla um álver og álbræðslur er talið að einmitt Pechineytæknin við hreinsun á flúor úr loftinu frá kerunum sé sú fullkomnasta sem völ er á í heiminum í dag. Það er ekki talið að nein tiltæk tækni sé eins fullkomin og Pechineytæknin. Með Pechineytækni er hægt að ná því fram að flúormengun sem berst með útblæstri út í andrúmsloftið sé minni en 1 / 2 kg miðað við framleitt tonn af áli. Þegar starfsemi álbræðslunnar í Straumsvík hófst fyrir um 20 árum var flúormengunin sem barst út í andrúmsloftið frá álverinu í Straumsvík á bilinu 15 -- 17 kg af flúor miðað við hvert framleitt tonn af áli. Með þeim breytingum sem lagt hefur verið til að verði gerðar á gamla samningnum um álverið í Straumsvík er stefnt að því að hægt verði að ná þessu niður í rúmlega kg miðað við hvert framleitt tonn af áli. Lengra er ekki hægt að komast í álverinu í Straumsvík miðað við þá tækni sem það byggir á og var tiltæk í heiminum þegar það var reist. Í hinu nýja álveri er gert ráð fyrir því að langtímum saman þurfi flúormengunin ekki að fara yfir 1 / 2 kg miðað við framleitt tonn á ári. Ég fæ því ekki séð að það sé hægt að gera öllu betur en gert er ráð fyrir í álverinu sem á að byggja á Keilisnesi hvað varðar flúorhreinsunina, enda er það nú svo að því betur sem flúorið er hreinsað úr loftinu frá kerunum og síðan dælt inn í kerin aftur, þeim mun hagkvæmari er reksturinn því að því meira flúor sem sleppur út, þeim mun dýrari og óhagkvæmari verður rekstur álversins.
Það er því í raun og veru nauðsynlegt fyrir rekstraraðilana að halda flúormenguninni eins mikið niðri og nokkur kostur er.
    Einnig var fjallað um koltvíildismengun og minnst á að á annarri loftslagsráðstefnu sem hin alþjóðlega veðurfarsstofnun Sameinuðu þjóðanna gekkst fyrir í nóvembermánuði sl., þar sem voru mættir allir umhverfisráðherrar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna til að fjalla um þær loftslagsbreytingar sem eru yfirvofandi vegna aukinnar koltvíildismengunar í andrúmsloftinu, skrifuðu Evrópuþjóðirnar undir yfirlýsingu, þ.e. allar Evrópubandalagsþjóðirnar og EFTA-ríkin, þar með talið Ísland, svo og nokkur önnur ríki, svo sem Kanada, Ástralía, Nýja - Sjáland og Japan, þess efnis að

löndin lofa að draga svo úr koltvíildismengun að hún verði ekki meiri árið 2000 en árið 1990.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði hvernig við hygðumst standa við þessa yfirlýsingu. Á vegum umhvrn. er starfandi starfshópur sérfræðinga sem er að fara yfir kolsýrumengun hér á landi og ætlar að semja framkvæmdaáætlun um það hvernig megi ná þessu markmiði, að draga svo úr losun koltvíildis út í andrúmsloftið frá Íslandi að það verði ekki meiri kolsýrumengun árið 2000 en hún var árið 1990. Skömmu eftir að hópurinn hafði hafið störf við þessa athugun var samþykkt að víkka umboð hópsins þannig að hópurinn mundi enn fremur skoða brennisteinstvíildismengun á Íslandi og rannsaka þær uppsprettur brennisteinstvíildismengunar sem hér eru og með hvaða hætti væri hægt að hugsa sér að draga úr brennisteinstvíildismengun.
    Það er margt mjög athyglisvert sem hópurinn hefur þegar komist að raun um. M.a. er greinilega miklu meiri brennisteinstvíildismengun og sömuleiðis kolsýrumengun á Íslandi en við höfum hingað til talið að væri. Ég hefði gjarnan viljað lesa hér upp nokkrar tölur sem fjalla t.d. um kolsýrumengun sem kemur frá virkjuðum háhitasvæðum. Það er einkennandi fyrir háhitasvæðin að meðan þau eru látin í friði, meðan ekkert er hreyft við þeim, berst töluverð kolsýrumengun frá háhitasvæðum af eðlilegum og náttúrulegum orsökum út í andrúmsloftið. En um leið og farið er að virkja þessi svæði þá eykst sú mengun allverulega. Þannig fara samanlagt um 50.000 tonn af kolsýru á ári hverju út í andrúmsloftið vegna virkjaðra háhitasvæða. Þar ber hæst Kröflu sem sendir 25.000 tonn út í andrúmsloftið og næst Svartsengi sem sendir 16.700 tonn út í andrúmsloftið og Nesjavellir senda 8.600 tonn út í andrúmsloftið. En heildarkolsýrumengun á Íslandi er um 680.000 tonn sem fara út í andrúmsloftið á ári hverju. Álverið mun skila inn um 77.000 tonnum. Þegar allt er tínt til sýnist okkur því að aukningin sem verður við að byggja álbræðslu á Keilisnesi sé í kringum 10%.
    Þá er að sjálfsögðu spurt: Hvernig á að koma í veg fyrir að árið 2000 verði jafnmikil kolsýrumengun frá Íslandi og hún var árið 1990? Svarið við því er að það er hægt að leysa það með ýmsum leiðum. Besta leiðin, sem kemur fram í viðamikilli skýrslu sem hefur verið samin um koltvíildismengun á Íslandi og tillögur að lausnum til að draga úr slíkri mengun og var unnin fyrir umhvrn., er eftirfarandi. Mig langar til að lesa upp úr skýrslunni samantekt, með leyfi virðulegs forseta, þar sem fjallað er um hvernig á að minnka losun koltvíildis. Það er fyrst fjallað um að umhverfisstofnun Bandaríkjanna leggi til eftirtaldar leiðir til að draga úr koltvíildismengun: ,,Mengunargjald verði sett á mengandi starfsemi, hert lög og reglur, hugað verði að umhverfisáhrifum við stofnun og ákvarðanir, breyta þarf daglegum háttum almennings og rannsóknir á nýrri mengunarlausri tækni verði efldar.`` Þetta eru almennar athugasemdir. Það er bent á að samgöngur og fiskveiðar valda um 2 / 3 hlutum af þeirri kolsýrumengun sem verður á Íslandi, þessum rúmlega 700.000

tonnum sem við sendum út í andrúmsloftið af kolsýru á hverju ári.
    Enn þá er ekki til mengunarlaus tækni sem getur komið í stað olíu á þessu sviði. Ég er jafnmikill áhugamaður um það og hv. þm. Kvennalistans að það verði gerðar tilraunir með að nota vetni sem orkugjafa, sem eldsneyti, bæði í fiskiskipum og í öðrum vélknúnum farartækjum. Það er hins vegar ansi langt í land með að það sé hægt og ég vil benda hv. þm. Kvennalistans á það, ef það hefur farið fram hjá þeim, að það hefur verið vetnisframleiðsla á Íslandi, þ.e. það má hvort sem er tala um það sem tilraunaframleiðslu eða hefðbundna framleiðslu á vetni sem hér hefur átt sér stað í Áburðarverksmiðjunni síðan um miðbik sjötta áratugarins. Við höfum þess vegna allgóða reynslu af að framleiða vetni með rafgreiningu hér á Íslandi og höfum gert það um langt árabil. Og í sjálfu sér er engin ný tækni komin til sögunnar um það hvernig eigi að framleiða vetni. Það er hægt að gera það á nákvæmlega sama hátt og það er gert í Áburðarverksmiðjunni. Það yrði bara hreinlega stærri og meiri verksmiðja ef við ætluðum að framleiða meira af vetni. Hins vegar er von til þess að kannski á næstu 10 -- 15 árum verði þróaðar vélar sem ganga fyrir vetni og ekki verði kannski langt að bíða eftir því að bæði fiskiskip og farmskip gangi fyrir vetni. En það er ekki alveg á næstu grösum, svo mikið er víst.
    Langraunhæfasta og eðlilegasta leiðin til að losa okkur við koltvíildismengunina, það er ekki nokkur vandi fyrir Íslendinga að standa við þá yfirlýsingu sem gefin var í Genf í nóvember sl., er einfaldlega sú að planta meiri skógi og græða landið upp. Landgræðsla og skógrækt eru nefnilega einu raunhæfu leiðirnar þegar til skamms tíma er litið sem við höfum tiltækar til að draga úr koltvíildismengun hér á landi. Binding koltvíildis í gróðri og jarðvegi landsins getur veitt okkur nokkurra áratuga frest til að leysa svo mengunarvandann. Því við getum hreinlega hirt upp alla kolsýrumengunina með því að auka trjárækt og græða upp landið. Enda er þetta sú tillaga sem vísindamennirnir, sem komu saman í Genf í nóvember sl. á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, lögðu til. Það var mjög athyglisvert og fróðlegt að hlýða á fyrirlestra sem þar voru haldnir um þessi mál. Þar kom fram sú niðurstaða vísindamannanna að langauðveldasta og besta leiðin væri sú að planta nýjum skógi og auka gróður á jörðu. Vísindamennirnir sögðu að ef hvert mannsbarn á jörðinni mundi planta út fjórum trjám árlega þá væri hægt að koma í veg fyrir að sú hitastigsaukning sem allir óttast eigi sér stað og þar með væri hægt að losa heiminn við kolsýruvandamál í eitt skipti fyrir öll ef þessu markmiði væri náð.
    Það er mjög athyglisvert að þetta er nákvæmlega það sama sem Íslendingar gerðu árið 1990. Þá var plantað hér u.þ.b. fjórum trjám fyrir hvern íbúa landsins. Við stóðum því við okkar hluta af þessari tillögu. Ef heimurinn fylgdi því eftir þá væri um það að ræða að árlega væri plantað út skógi á svæði sem væri aðeins stærra en nemur flatarmáli Íslands. Við getum leyst kolsýruvandamálið með því að veita hér

auknum fjármunum til landgræðslu og skógræktar.
    Varðandi aftur brennisteinstvíildið þá er brennisteinstvíildislosun frá Íslandi á hverju ári í kringum 15.000 tonn sem er umtalsvert meira en hingað til hefur verið talið. Þetta eru þær niðurstöður sem sérfræðingahópurinn hefur komist að við grófa samantekt á þeim uppsprettum brennisteinstvíildislosunar sem hér er að finna. Af völdum gasolíu eru losuð 1.000 tonn rúmlega út í andrúmsloftið á ári hverju. Vegna svartolíunotkunar á Íslandi eru losuð 2.700 tonn árlega af brennisteinstvíildi. Kolanotkun í iðnaði leggur til um 500 tonn. Álverið í Straumsvík leggur til í kringum 1.000 tonn og Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga leggur til tæplega 2.000 tonn af brennisteinstvíildi á ári hverju sem fer út í andrúmsloftið. Síðan kemur langstærsti skaðvaldurinn, sem gerir álbræðslu á Keilisnesi hálfgerðan dverg við hliðina á því sem þar er að gerast, en það eru virkjuðu háhitasvæðin.
    Það er einu sinni svo að frá háhitasvæðunum kemur mikið magn af brennisteinsvetni. Hingað til hafa sérfræðingar deilt um hvað verði um þetta brennisteinsvetni, en eftir viðamiklar athuganir á því hafa færustu sérfræðingar þessa lands, sem eru í svokölluðu kolsýrunefndinni, komist að raun um og eru sammála um að brennisteinsvetnið oxast tiltölulega fljótt yfir í brennisteinstvíildi. Losun á brennisteinsvetni frá háhitasvæðunum þýðir þess vegna nákvæmlega það sama og að losa brennisteinstvíildi frá verksmiðjum þar sem er að finna uppsprettu brennisteinstvíildis.
    Mig langar til að grípa hér aðeins niður í skýrslu, sem sérfræðingahópurinn hefur látið mér í té, og fjallar einmitt um þetta vandamál, með leyfi virðulegs forseta. Þar segir svo: ,,Brennisteinsvetni myndast við niðurbrot ýmissa lífrænna efna og á jarðhitasvæðum. Hér á landi beinast augu manna einkum að jarðhitasvæðum, en umtalsvert magn brennisteinsvetnis fer út í loftið á þeim svæðum. Sem dæmi má nefna að frá Nesjavöllum er gert ráð fyrir að um 7.000 tonn af brennisteinsvetni fari út í loftið á ári þegar virkjunin er komin í fulla stærð. Brennisteinsvetni er ekki stöðugt efni og oxast það tiltölulega fljótt í brennisteinstvíildi. Meðallíftími þess er talinn vera um einn sólarhringur. Því má líta á brennisteinsvetni að stórum hluta sem viðbót við brennisteinstvíildi í lofti. Við sérstakar aðstæður á sér stað oxun á brennisteinsvetni í brennistein sem fellur þá út og er stöðugt efni. Þetta sjá menn m.a. í þéttivatni á hverasvæðum þar sem brennisteinn fellur út. Brennisteinsoxíðin, brennisteinstvíildi, SO 2 , og brennisteinsþríildi, SO 3 , eru gastegundir í andrúmsloftinu. Brennisteinsþríildi er búið til í miklu magni til iðnaðarframleiðslu ýmiss konar. Mestur hluti þess er notaður til framleiðslu brennisteinssýru. Það er einnig notað til sótthreinsunar í framleiðslu sápuefnis, til bleikingar og svo mætti lengi telja. Af þessu má vera ljóst að hluti brennisteinstvíildisins kemur frá iðnaði þar sem það er notað sem hráefni. Langstærsti hluti þess myndast þó við bruna á jarðefnaeldsneyti sem inniheldur brennistein. Um 70% alls brennisteinstvíildis í lofti myndast við

brennslu kola en þau innihalda yfirleitt á bilinu 1 -- 4% af brennisteini bundinn í mismunandi efnasamböndum.
    Mjög erfitt er að leggja mat á hversu stór hluti af heildarmagni brennisteinstvíildis fer út í andrúmsloftið við eldgos og á jarðhitasvæðum en menn giska á að það magn sé um 1 -- 10%. Árið 1970 er reiknað með því að um 34,6 millj. tonna af brennisteinsoxíðum hafi farið út í loftið í Bandaríkjunum einum saman.``
    Hér má svo við bæta að það er talið að heildarlosun á brennisteinstvíildi í öllum heiminum af mannavöldum sé á hverju ári um 96 millj. tonna. Þar af losa öll álver sem eru í rekstri í heiminum í dag um 200.000 tonn eða 0,2%. Langstærstur hlutinn kemur, eins og hér hefur verið sagt, vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti og þá fyrst og fremst í kola- og olíuorkuverum. Dagsskammturinn frá meðalorkuveri er eins og ársskammtur frá venjulegu álveri. Þetta er kannski ástæðan fyrir því að iðnaðarríkin hafa ekki horft svo mjög til brennisteinstvíildismengunar frá álverum því að þau eru hreinir dvergar í samanburði við flestan annan sambærilegan iðnað, t.d. kolaorkuverin.
    Það hefur verið metið að brennisteinstvíildismengun frá Nesjavöllum í fullum rekstri sé í kringum 11.600 tonn meðan aftur brennisteinstvíildismengunin sem yrði frá álveri á Keilisnesi, miðað við u.þ.b. hámark 2% brennisteinsinnihald í rafskautum, yrði um 4.800 tonn á hverju ári. Brennisteinstvíildismengunin frá Nesjavöllum er þar með rúmlega tvöfalt meiri, langleiðina í þrefalt meiri, en hún verður frá álverinu á Keilisnesi og þá er ekki búið að reikna út, því miður hefur sérfræðingahópurinn ekki enn þá lokið þeirri vinnu, brennisteinstvíildismengun frá öðrum háhitasvæðum. ( HG: Hver er krafan um brennistein í rafskautum?) Hún er í kringum 2%.
    Með því að taka saman allar þær uppsprettur sem við höfum nú þegar fundið þar sem brennisteinstvíildi er losað út í andrúmsloftið á Íslandi má búast við að aukningin sem verður vegna reksturs álbræðslu á Keilisnesi verði í kringum 20% en ekki 60 -- 70% sem áður var talið. Það stafar einfaldlega af því að lengi vel hefur verið talið að brennisteinstvíildismengun á Íslandi sé miklu minni en hún er í raun og veru. Mér þykir leitt að sjá það að í þeirri áætlun um varnir gegn loftmengun sem Norðurlandasamstarfið hefur látið gera, þ.e. ráðherranefndin hefur látið vinna sérstaka framkvæmdaáætlun um varnir gegn loftmengun, er heildarbrennisteinstvíildismengun frá Íslandi talin vera um 3.000 tonn en hún er miklu, miklu, miklu meiri.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og reyndar fleiri spurðu hvort við hefðum kynnt okkur álver og farið í skoðunarferðir í öðrum löndum. Því get ég svarað játandi. Eins og ég segi fór ég sjálfur ásamt starfsmanni ráðuneytisins í skoðunarferð til álversins í Sundsvall í Svíþjóð þar sem okkur gafst tækifæri til að skoða einmitt fortíðina og nútíðina vegna þess að þar getur að sjá gamalt álver í rekstri sem er mjög mengandi, sérstaklega innan húss, því að með sérstakri

hreinsun sem þar fer fram tekst að halda losun út í andrúmsloftið í skefjum. Að hluta til hefur þar verið reist alveg nýtt álver með nýrri tækni og þar sér maður tvo mismunandi heima. Annars vegar gömlu tæknina þar sem ekki sér á milli veggja í kerskálanum fyrir dökkum reykmekki frá bræðslunni en í nýja hlutanum, þar sem fór fram gagnger endurbygging á þeim hluta fyrir nokkrum árum, líklega upp úr 1980, hefur verið beitt nýjustu og fullkomnustu tækni til mengunarvarna, enda er allt annað að labba þar um. Það er hægt að labba um í kerskálanum án þess að það fyrirfinnist vottur af reyk eða neinum óhreinindum að því er sést.
    Í gamla álverinu eru vothreinsiturnar en vothreinsiturnar og vothreinsibúnaður fyrirfinnst mjög víða, bæði í Noregi og í Svíþjóð. Það var sú tækni sem var notuð þegar gömlu álverin voru byggð áður en kom til þurrhreinsibúnaðar í sambandi við flúorhreinsunina. Vothreinsibúnaðurinn var fyrst og fremst settur upp til að hreinsa flúorið úr reyknum sem var settur út í andrúmsloftið og sömuleiðis tjöruna úr kolunum, vegna þess að gömlu álverin notuðu öll svokallaða Söderberg - tækni þar sem kolin eru sett ofan í stórt stálker og síðan bráðna þau neðst og þá síga kolakögglarnir niður og fæða eldinn hægt og sígandi. Í nýjum álverum eru kolin steypt í klossa á enda stálstanga og síðan fer fram svokölluð bökun á kolunum þannig að tjaran er hreinsuð úr þeim við háan hita í ofni. Því er til hugtakið forbökuð skaut, þar sem búið er að hreinsa tjöruna úr kolunum. En í gömlu álverunum er þetta ekki gert og þar af leiðandi var nauðsynlegt að hreinsa tjöruna sem barst með reyknum út í andrúmsloftið. Það var gert með vothreinsibúnaði.
Vothreinsibúnaðurinn var fyrst og fremst settur upp til þess að gera tvennt, hreinsa flúorið og hreinsa tjöruna. Það að hann hreinsar ágætlega brennisteinstvíildi kom svona sem aukabúgrein sem var ekki megintilgangurinn með vothreinsibúnaðinum. Honum var ætlað að hreinsa tjöruna úr reyknum og flúorið en að sjálfsögðu kom það til góða að hann hreinsar ágætlega brennisteinstvíildið en setur það í sjó fram í staðinn eins og ég gat um áðan.
    Ég get farið að stytta mál mitt, virðulegur forseti. Ég held að ég hafi farið allítarlega yfir málið og eftir er að fjalla aðeins um sjálft starfsleyfið. Við höfum samið drög að starfsleyfi og ég er hér með uppkast að starfsleyfinu. Ég held að ég geti fullvissað hv. þm. um það að í þessu starfsleyfi eru gerðar mjög strangar og miklar kröfur um allar mengunarvarnir og það er gerð krafa um það að fullkomnustu tækni sem völ er á verði beitt til mengunarvarna. Það er annað sem ég tel að sé mjög mikilvægt sem náðist fram í sambandi við forsendur fyrir þessu starfsleyfi, en það eru umfangsmeiri mælingar og eftirlit með öllum mengunarþáttum og í raun og veru öllu því sem er að gerast í álverinu hvað varðar áhrif þess á umhverfið en þekkist í nokkru álveri í rekstri í heiminum í dag.
    Þetta var einmitt niðurstaða þeirrar samvinnu sem þeir sérfræðingar sem störfuðu fyrir umhvrn. náðu á fundum með fulltrúum fyrirtækjanna sem fyrirhuga að

byggja álver á Keilisnesi og hefði ekki náðst fram nema einmitt með þeim hætti að hafa samráð og hafa svolitla samvinnu um það hvaða forsendur væru í gildi fyrir rekstrinum og með hvaða hætti mengunarvörnum yrði við komið.
    Ég held að allir sem hafa komið nálægt þessu máli séu mjög ánægðir með þessa niðurstöðu því að með þessum viðamiklu mælingum og með því eftirliti sem þarna er gert ráð fyrir ætti að vera hægt að vaka betur yfir öllu sem þarna er að gerast og með þeim hætti er kannski tryggt að mengunarvarnir verði sem fullkomnastar og bestar. Einmitt þetta eftirlit, þessar sífelldu mælingar, sem fara fram þarna á öllum þeim atriðum sem varða áhrif álversins á umhverfið, er besta tryggingin fyrir því að fullkomnum mengunarvörnum verði komið við í álverinu.
    Það er ekki búið að ljúka endanlega gerð starfsleyfisins og ég get lýst því að það hefur legið niðri um nokkurt skeið vinna í sambandi við undirbúning að útgáfu starfsleyfis, af ýmsum orsökum, þannig að við erum hér með síðustu útgáfu sem var gefin út í lok janúar sl. Sú útgáfa er að okkar dómi mjög ásættanleg og fullnægir vel hagsmunum okkar Íslendinga þannig að þar er mjög tryggt að ekki verði um að ræða nein óþarfa umhverfisspjöll af völdum álvers á Keilisnesi. Ég tel eftir atvikum að við getum vel sætt okkur við þá niðurstöðu sem hér er komin fram. Hvort hún á eftir að taka einhverjum breytingum eða ekki skal ég ekki segja um. Það eru enn þá nokkur ágreiningsmál sem á eftir að fara betur yfir, en þau eru ekki stórvægileg.
    Hv. þm. minnir mig hér á að í fréttum í Dagblaðinu 8. febr. sl. kom fram að eitt lítið ,,og`` í stað ,,eða`` gæti breytt merkingu í sambandi við endurskoðunarákvæði sem höfðu þá komið fram í uppkasti og reyndar í þeirri yfirlýsingu sem var undirrituð 4. okt. sl. Ég hef óskað eftir því að þessi ákvæði verði orðuð með öðrum hætti og ég tel, og hef haft mjög náið og gott samstarf við iðnrh. um það mál, að samkomulag muni nást um það að endurskoðunarákvæðin verði orðuð með þeim hætti að við getum verið ásáttir. Ég hef séð tillögur að slíkum texta sem ég tel að sé mjög ásættanlegur fyrir okkur og hef þess vegna ekki neinar verulegar áhyggjur af þessu efni. ( HG: Tillögur frá hverjum?) Bæði frá fulltrúum Íslendinga í samningaviðræðunum og svo hugmyndir hinna erlendu aðila þannig að þetta mál á eftir að ræða til þrautar og komast að niðurstöðu í því. Hún liggur ekki fyrir á þessari stundu. En það er auðvitað alveg ljóst að meginniðurstaðan hlýtur að verða sú að endurskoðunarákvæðin verði með þeim hætti að ef fram komi ný tækni sem verði almennt tekin upp í OECD - ríkjum, þá muni hún einnig verða tekin upp í álverinu á Keilisnesi. Það er meginatriðið og um það held ég að menn séu sammála. En það er rétt að það er ekki búið að ganga frá orðalagi á texta þannig að það komi skýrt fram.
    En aðalatriðið er að menn verði sammála um þetta meginatriði að álverið á Keilisnesi muni ávallt vera með fullkomnasta megnunarvarnabúnaði sem völ er á

hverju sinni. Um það eru aðilar sammála og það er besta trygging sem við höfum fyrir því að mengunarvarnir verði ávallt eins fullkomnar og hægt er að hafa þær.
    Það hefur ekki farið fram hjá neinum að umhverfismálin og reyndar málið í heild sinni hefur verið í nokkurri biðstöðu um nokkurra vikna skeið en ég geri ráð fyrir því, og veit reyndar, að samningafundir eru nú að hefjast af fullum krafti á nýjan leik og þá mun væntanlega verða gengið frá þessum málum öllum í heild sinni. Sú niðurstaða kemur væntanlega til með að liggja fyrir eftir rúman mánuð eða svo og þá fyrst verður hægt að auglýsa starfsleyfi og fara með það í þann formlega feril sem ber, en starfsleyfið þarf að auglýsa. Síðan hafa allir aðilar sem telja sér málið skylt tækifæri til að gera athugasemdir við starfsleyfið á sex vikna tíma. Reyndar er hægt að lengja hann í 12 vikur og að sjálfsögðu munum við kynna starfsleyfið mjög rækilega, bæði fyrir íbúum í Vatnsleysustrandarhreppi og sömuleiðis fyrir heilbrigðisnefndum og Náttúruverndarráði. Það má auk þess benda á að fulltrúi Náttúruverndarráðs, reyndar framkvæmdastjóri ráðsins, átti sæti í þeirri ráðgjafarnefnd sem vann að undirbúningi að útgáfu starfsleyfisins þannig að hann hefur sem slíkur, sem einn nefndarmanna, fylgst mjög náið og vel með því hvaða forsendur við höfum gefið okkur í sambandi við útgáfu á starfsleyfinu og hvaða tæknilegan og vísindalegan undirbúning við höfum látið fara fram til þess að starfsleyfið megi vera eins fullkomið og nokkur kostur er.
    Þetta er í stórum dráttum það sem ég vildi segja um þessi mál. Ég hlýddi hér áðan á ræðu hv. 6. þm. Vesturl. Danfríðar Skarphéðinsdóttur. Þar kom enn fram sú skoðun þeirra þingkvenna Kvennalistans að mengunarvarnir í Straumsvík séu ófullnægjandi og í álverum yfirleitt. Ég get út af fyrir sig tekið undir með hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur að mengunarvarnir í Straumsvík eru ófullnægjandi. Það er alveg hárrétt. Hins vegar hefur náðst samkomulag um það að bæta þær verulega og miðað við þá tækni sem framleiðslan í Straumsvík byggir á og það mark sem aðilar hafa orðið sammála um að stefna að á næstu árum held ég að þær verði fullnægjandi miðað við þær forsendur sem eru fyrir mengunarvörnum í Straumsvík. En það verður aldrei hægt að ná jafngóðum mengunarvörnum í Straumsvík eins og í nýju álveri á Keilisnesi. Það er alveg ljóst. Það er bara samkvæmt eðli málsins.
    En ég hef svarað því til hvað líði gerð starfsleyfis. Ég reikna með því að þegar búið er að ganga frá nokkrum smáatriðum í starfsleyfinu, sem verður væntanlega fjallað um á samningafundum og reyndar í samráði við bæði umsækjanda og þá aðila sem koma að málinu hér heima, þá verði hægt að auglýsa starfsleyfið innan tíðar og þá fer það í þann formlega feril sem útgáfa starfsleyfa á að fara í.
    Ég þarf varla að fara að lýsa skoðun minni hér á öðrum atvinnumöguleikum frekar en að byggja hér álbræðslu. Mig langar þó aðeins að lokum að fjalla örlítið um ferðaþjónustu af því að ég heyri það oft að

í staðinn fyrir að byggja hér mengandi álbræðslu eigum við að auka ferðamannaþjónustu.
    Mig langar bara til þess að minna á að umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur beint þeim tilmælum til allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að draga úr ferðamannaþjónustu og minnka straum ferðamanna til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna vegna þess að ferðamannaþjónusta er einhver mest mengandi atvinnugrein sem fyrirfinnst á jörðinni. Ferðamannaþjónusta, t.d. eins og hún er er rekin á Spáni, hefur valdið meiri umhverfisspjöllum á Spáni heldur en öll álver í Evrópu samanlagt. Ferðamannaiðnaður og ferðamannaþjónusta t.d. í Miðjarðarhafslöndunum hefur valdið svo rosalegum umhverfisspjöllum að það er núna yfirlýst stefna umhverfismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna að beina þeim tilmælum eindregið til allra aðildarríkja: Dragið úr ferðamannaþjónustu, reynið að minnka straum ferðamanna til landanna til þess að koma í veg fyrir þau umhverfisspjöll sem ferðamenn valda.