Samningar um álver
Mánudaginn 18. mars 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ein mikilvægasta spurningin á sviði íslenskra þjóðmála er hvernig við verndum og nýtum best íslenskar auðlindir og umhverfi. Þessi þáltill. fjallar einmitt um það. Það er því að vonum að um hana hafi spunnist nokkrar umræður því að spurningin er vissulega mikilvæg.
    Það er mitt álit að Atlantsálsverkefnið sé einmitt mjög heppilegt til þess að nýta og vernda íslenskt umhverfi og auðlindir til þess að tryggja hér atvinnu og framfarir í landinu. Með þessu er það ekki sagt að stóriðja sé einhver allsherjarlausn á okkar atvinnumálum. Því fer fjarri. En við megum ekki sitja af okkur þetta tækifæri til þess að nýta orkulindir landsins á hagkvæman hátt og hátt sem hér mun skapa gott starfsumhverfi því að það er því miður allt of útbreidd skoðun að álver, nútímaálver séu umhverfisspillandi vinnustaðir og, eins og hv. 6. þm. Vesturl. sagði, heilsuspillandi. Þetta er röng mynd af þeim nýju aðstæðum sem eru í nútímaálverum.
    Ég mun ekki lengja þessa umræðu með löngu máli að þessu sinni. Ályktunarorð till. sem hér er til umræðu bera það glöggt með sér að málið verður lagt fyrir Alþingi að nýju þegar endanlegir samningar hafa tekist og þá gefst tækifæri til þess að fjalla nánar um einstök atriði þeirra og áhrif þeirra. Ég ætla hér eingöngu að svara nokkrum mikilvægustu spurningunum sem til mín hefur verið beint og víkja í stuttu máli að veigamiklum efnisatriðum.
    Mig langar áður en ég vík að því að minna á að þetta mál, Atlantsálsverkefnið, nýtur mjög mikils stuðnings meðal almennings í þessu landi. Það hafa skoðanakannanir sýnt mjög glöggt og það sýna líka tugir, hundruð orðsendinga, skeyta og annarra forma á þeim orðsendingum sem ég hef fengið hvaðanæva af landinu síðustu tvo sólarhringa.
    Hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson gerði mat á áhrifum álvers á landsframleiðsluna á framkvæmdatímanum sérstaklega að umtalsefni. Hann gerði mikið úr samanburði talna milli þess sem segir í greinargerð með skýrslunni sem hér liggur líka fyrir þinginu og viðauka við hana frá Þjóðhagsstofnun. Þar er fyrst og fremst um mun að ræða sem stafar af mismunandi tímasetningum í þessum áætlunum og að nokkru leyti af því sem heitir á góðu máli ,,afrúnningi`` en kjarninn er alveg óbreyttur. Aðalatriðið er óumdeilt, þ.e. að varanleg áhrif álvers og tengdra framkvæmda leiði til 4% aukningar landsframleiðslunnar varanlega. Þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur munu einnig aukast. Þetta er kjarni málsins. Við þurfum þessa viðbót við íslenskan þjóðarbúskap.
    Hv. 10. þm. Reykn. vék hér í alllöngu máli að hagstjórn á framkvæmdatímanum. Það er laukrétt hjá þingmanninum að þær almennu aðgerðir, sem bent er á í skýrslu sérfræðinganefndar iðnrn. um þjóðhagsleg áhrif stóriðju, eiga jafnan við, ekki eingöngu við þetta tiltekna mál. En þessar aðgerðir, slík hagstjórn er sérstaklega mikilvæg á framkvæmdatíma álversins og á það er einmitt lögð áhersla í þessari greinargerð.

    Hæstv. umhvrh. hefur fjallað hér í löngu máli um umhverfisþætti þessa máls. Mig langar þó að víkja nokkrum orðum að sumu af því sem til mín var beint í umræðunni og varðar umhverfisþættina. Ég nefni þar að hv. 6. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Norðurl. e. héldu því fram við umræðuna að ný álver byggi hvergi á raforku sem unnin er úr kolum. Þessi staðhæfing þeirra er ekki rétt. Ég nefni sem dæmi að eitt þeirra landa, Ástralía, sem veitir okkur mjög harða samkeppni sem staðarvalkostur á þessu sviði vinnur raforku til nýrra stóriðjuvera með kolum. Í Ástralíu fá fimm álver raforku frá kolaraforkuverum og það nýjasta af þessum fimm hóf bræðslu árið 1987. Samtals hafa þessi fimm álver, sem nota kolaraforku, rúmlega 1100 þús. tonna ársframleiðslu. Útblásturinn vegna þessara fimm álvera af koltvísýringi er 10 sinnum meiri en frá Atlantsáli miðað við núgildandi áætlanir á hvert tonn af áli.
    Við Persaflóann þar sem eru álver, og þar eru líka ráðgerð álver eða hafa verið, þar er orkan fengin frá orkuverum sem brenna jarðgasi. Norðmenn vinna nú að athugunum á notkun jarðgass til raforkuvinnslu fyrir álverin þannig að það þarf alls ekki að tala um það að álver á Íslandi komi í stað mengandi álvera í Evrópu sem nota kolakynt raforkuver sem orkugjafa. Þetta er í raun og veru á jaðrinum spurning um það hvort viðbótin í álframleiðslunni sem nauðsynleg er fæst með vatnsorku, tiltölulega hreinni og mengunarlausri, eða frá kolakyntum raforkuverum.
    Hv. 2. þm. Austurl. fjallaði í sínu máli eðlilega um útblástursmörk og innti eftir ákvæðum starfsleyfisins í því efni. Umhvrh. vék nokkuð að þessu í sínu máli og eins og fram kom hjá honum, þá liggur endanleg niðurstaða ekki fyrir um útblástursmörkin. En mig langar til að benda á mynd nr. 7 á bls. 45 í skýrslunni þar sem gefið er yfirlit um lofthreinsun í álveri af þeirri gerð sem áformað er að reisa hér á Keilisnesi. Þar eru líka sýndar viðmiðunartölur um efri mörk fyrir útblástur. Um tæknilega lýsingu er að ræða en hún gefur þó mjög glögga vísbendingu um útblástursmörkin sem þingmaðurinn hafði áhuga á.
    Hv. 2. þm. Austurl. lét sér líka nokkuð tíðrætt um orðalag 6. gr. aðalsamnings í þeim drögum sem fyrir liggja. Ég mun ekki hér fjalla í einstökum atriðum, orð fyrir orð, lið fyrir lið um greinina, en megininntak hennar er að við endurskoðun starfsleyfis verði reynt að tryggja að mengunarvarnir verði hér sambærilegar þeim sem eru í OECD - ríkjunum og að ný tækni við umhverfisvarnir sem tekin verður almennt í notkun í OECD - ríkjunum við svipaðar aðstæður verði innleidd hér. Ég vísa líka til þess sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. að það orðalag sem þarna er á blað fest er til umræðu og ég hef á því trú að við munum geta tryggt með mjög öruggum hætti að endurskoðun starfsleyfisins fullnægi ýtrustu kröfum okkar um mengunarvarnir.
    Sannleikurinn er sá að starfsmenn umhvrn. og þeirra tæknistofnana sem með þeim hafa unnið að gerð starfsleyfisins hafa unnið mjög gott starf og leitað víða fanga og ég hugsa að það sé rétt að þetta

verði eitthvert vandaðasta starfsleyfi sem nokkru sinni hefur verið gefið út fyrir álver, og þá er alveg sama í hvaða land væri leitað.
    Hv. 2. þm. Austurl. vék í sínu máli líka að skatttekjum og þeim áætlunum sem um þær hafa verið gerðar. Hann spurði sérstaklega eftir núvirði skattteknanna. Mig langar að benda á að skatttekjurnar sem fram koma á bls. 10 í skýrslunni eru, eins og þar er skýrt fram tekið, á föstu verðlagi. Ef við miðum við 5,5% raunvexti, eins og víða er gert í þessum áætlunum, þá yrði núvirði skattanna af álverinu á fyrstu 20 starfsárunum --- en auðvitað mun álverið starfa miklu lengur þannig að hér er verið að draga úr tölum en ekki bæta við þær --- í fyrsta lagi fasteignaskattarnir, um 600 millj. kr., í öðru lagi veltuskatturinn, 1 milljarður kr., í þriðja lagi eignarskattarnir, um 100 millj. kr., og í fjórða lagi stimpilgjöld, um 50 millj. kr. Það er erfiðara að áætla núvirði tekjuskattsgreiðslnanna af því að þær raðir eru óstöðugri en þær gætu legið á bilinu 5 -- 7 milljarðar kr. á núvirði eftir því hvernig álverðið þróast.
    Eins og marka má af þeim tölum sem ég hef rakið er hér um að tefla stórfé, en reyndar er það svo að hér dugar ei minna, eins og skáldið sagði. Við erum hér að tala um geysilega mikilvæga viðbót við fjárstofna hins opinbera eins og við fjárstofna almennings sem þó skiptir meira máli.
    Hv. 2. þm. Austurl. spurði hvað hefði breyst í drögum að orkusamningi frá því að yfirlýsingin, samkomulagið, var undirritað 4. okt. 1990. Mig langar til svars að minna á það að yfirlýsingin, samkomulagið, var staðfesting á nokkrum meginatriðum orkusölu til Atlantsáls. Flest þeirra meginatriða, öll reyndar ef maður lítur rétt á, standast. Það var hins vegar skýrt fram tekið þá að eftir stæði að ljúka nokkrum atriðum í samningagerðinni og smáatriðunum í textanum. Það hefur miðað mjög vel í samkomulagsátt í viðræðunum frá því í október sl., m.a. varðandi endurskoðunarákvæði orkusamningsins, og er að því vikið í nokkuð ítarlegu máli á bls. 61 í þessari skýrslu. Ég tel að þar sé brotið upp á nýjum leiðum í sambandi við endurskoðun sem tryggi jafnræði milli aðilanna og sanngirni í skiptum þeirra á milli, komi eitthvað það upp á í þróun orkuverðs og umhverfisskilyrða allra í efnahagslegum skilningi sem raski högum manna eða aðila umfram það sem fyrirsjáanlegt var.
    Mörg tæknileg ákvæði hafa líka verið til umræðu á þeim mánuðum sem liðnir eru og hafa tekið breytingum sem ekki er unnt að gera hér nánari skil. Ákvæði um ábyrgðir vegna þessara framkvæmda eru nú langt á veg komin en þau voru einmitt ekki mjög þroskuð þegar skrifað var undir samkomulagið í októberbyrjun.
    Hv. 2. þm. Austurl. spurði líka um endurmat á ýmsum forsendum, um mat á hagkvæmni orkusölunnar til álversins, m.a. um raunvexti, um álverð, um raungengi og fleira. Eins og kemur glöggt fram á bls. 22 í skýrslunni og reyndar í fskj. 3 er nú unnið að endurmati á öllum þessum stærðum en niðurstaðan liggur enn ekki fyrir.

    Samninganefnd á vegum stjórnar Landsvirkjunar sem skipuð var að nýju í október 1990 hefur unnið mikið
og gott starf. Þegar orkusölusamningurinn verður lagður fyrir Alþingi, sem fylgiskjal með heimildarlagafrv. í haust, mun ítarleg greinargerð um þróun og niðurstöður þeirra viðræðna fylgja. Mig langar þó að benda á að miðað við það sem stýrði hér umræðum um áramótin síðustu og í janúar, þá hefur gengi Bandaríkjadollars mjög styrkst í kjölfar Persaflóastríðsins, sem nú er sem betur fer á enda runnið. Vextir á Bandaríkjadollaramarkaði eru nú lágir og lækkandi. Ýmislegt hefur því á síðustu vikum hneigst til betri áttar frá því sem áður var.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. og reyndar fleiri hafa í þessum umræðum haldið uppi nokkurri gagnrýni á ákvörðunina um staðarvalið. Reyndar, þótt ég eigi erfitt með að skilja það, hefur það líka verið gagnrýnt að ítarlegar viðræður fóru fram við sveitarfélög þar sem helst þótti til greina koma að staðsetja álverið. Það er nú reyndar ofvaxið mínum skilningi hvernig staðarvalið gat farið fram án þess að slíkar viðræður ættu sér stað. Þeirri gagnrýni er ítarlega svarað í skýrslu sem ég gaf Alþingi í októberbyrjun 1990. Þeir sem vilja taka tíma til að lesa þá skýrslu og mjög ítarlegt fylgiskjal með henni um staðarval fyrir álverið hljóta að átta sig á því að þar var um sérlega vandaðan undirbúning að ræða. Reyndar vildi ég líka láta þess getið að þeir staðir sem höfðu lagt í kostnað vegna þessa staðarvals hafa fengið mjög ríflega þátttöku frá ríkinu í þeim kostnaði eftir að ljóst varð að hann nýttist þeim ekki þegar, þótt í mörgum tilfellum hafi þar verið um að ræða verkfræðilegar undirbúningsathuganir og mat á aðstæðum sem munu um langan aldur nýtast þessum stöðum þegar þeir eru að bjóða fram sína kosti sem staðsetning fyrir iðnað af öðru tagi. Forsendur staðarvalsins eru alveg ljósar. Niðurstaðan er skynsamleg, ekki síst frá sjónarmiði umhverfismála.
    Í umræðum var því nokkuð haldið fram að ætlunin væri að kaupa jörðina Flekkuvík fyrir 300 millj. kr. Þetta var staðhæft af nokkrum þeim sem hér töluðu. Þetta er rangt. Það hefur komið skýrt fram að heimildin til lántöku, sem eftir er sóst, er vegna kaupa á löndum úr jörðunum Minni - og Stóru - Vatnsleysu ásamt mannvirkjum og undirbúningskostnaði vegna lóðaöflunar auk Flekkuvíkur. Reyndar er það nú svo að í þeirri tillögu til lánsfjárheimildar sem liggur fyrir hv. Nd. er ekki lengur nein fjárhæð. Það var reyndar það upphaflega form sem ég hefði kosið að hafa á þessu og er nú aftur að því horfið. Kaupin á jarðnæðinu er mjög skynsamleg framtíðarfjárfesting, á einu besta landsvæði til stóriðju sem völ er á hér á landi.
    Hv. 6. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Norðurl. e. gerðu það að umtalsefni að ál væri einhvers konar sérstakur hergagnamálmur og væri þess vegna forkastanlegt að binda sitt trúss við slíka framleiðslu. Þetta er á miklum misskilningi byggt. Notkun áls í hergagnaframleiðslu er hverfandi, eins og kom reyndar fram

við umræðurnar um skýrsluna um stöðu samninga um nýtt álver í október sl. Svo að ég taki dæmi, þá held ég að það fari einungis 1 -- 2% af álframleiðslu heimsins til flugvélasmíða og til hernaðarnota fer þar mjög lítill hluti af þessum 1 -- 2%. Notkun áls er eins og kunnugt er mest í byggingariðnaði og umbúðaiðnaði og það er gert ráð fyrir verulegri aukningu í þessum greinum.
    Virðulegi forseti. Að loknum þessum löngu umræðum stendur meginniðurstaðan óhögguð. Bygging og rekstur álvers er þjóðhagslega hagkvæmur kostur og skynsamleg nýting orkulindanna til atvinnuuppbyggingar. Vegna ummæla hv. 6. þm. Vesturl. vil ég taka það fram að þegar að er gáð þá styður stóriðjan almennan iðnað og þjónustu, en er ekki andstæðingur þeirrar þróunar. Við þurfum svona kjarna. Við þurfum svona innspýtingu í okkar atvinnulíf einmitt til þess að nýta það afl sem býr í huga og höndum okkar þjóðar og sérstaklega uppvaxandi kynslóðar. Þannig komum við á fót vinnustöðum, verkefnum, fyrir okkar vel menntaða fólk.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég láta þá von í ljós að það takist að ljúka þessari umræðu og koma málinu til nefndar. Málið hefur þegar verið rætt í meira en 10 tíma. Margra klukkustunda ræður um þetta mál, sem sannarlega er mikilvægt, eru langt fyrir utan eðlileg mörk. Það má kannski sjá það best af leiðbeinandi ákvæðum þingskapanna um ræðutíma sem er nú yfirleitt tekinn fram í mínútum en ekki klukkutímum. Ég ætla að nefna sem dæmi að hæsta leiðbeinandi talan um ræðutíma í okkar þingskapalögum frá árinu 1985 er að sjálfsögðu um stefnuræðu forsrh. sem fær heilar 30 mínútur. Leiðbeinandi ákvæði 28. gr. þingskapanna um venjulegar þingsályktunartillögur eru hins vegar þær að frsm. hafi 15 og hver ræðumaður síðan 8 mínútur í hvert sinn. Þetta vildi ég minna á í lok þessarar löngu umræðu og þakka gott hljóð.