Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Það kom hér fram í ræðu eins hv. þm. að þetta væri síðasti dagur þingsins. Hér er verið að fjalla um mál sem hv. þm. virðist öllum bera saman um að sé þess eðlis að það snúi að þegnunum með þeim hætti að við erum öðrum þræði að fjalla hér um skattamál en hinum erum við að ræða um framkvæmd ákveðinnar tegundar refsingar. Það kann að vera að sumum hv. þm. finnist það ekki mikið mál hvort refsiákvæði í sambandi við það að aðilar telja ekki fram á réttum tíma séu á þá leið að álagningin sé 25%, 15% eða 10%. Það virðist hafa farið fram hjá mörgum hv. þm. að með staðgreiðslukerfinu var gjörbreytt um innheimtu á sköttum á Íslandi með þeim hætti að svona refsiákvæði er gjörsamlega út í hött og meira en það. Það getur haft það í för með sér, eins og það hefur núna, að jafnvel aðilar sem ætíð hafa talið fram í áratugi og greitt sína skatta og skyldur lendi í þeirri ógæfu, kannski vegna mistaka þess aðila sem á að skila inn skattskýrslu, þá lendir fólk í þessum refsiákvæðum.
    Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp atriði í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. sem snýr að þolendum. Þar segir orðrétt: ,,Þannig eru til að mynda hjón, sem eru samsköttuð og annað er ríkisstarfsmaður, krafin um álag af öllum tekjum ef þau skila ekki skattframtali, þrátt fyrir að annað hjóna hafi staðið skil á öllum sínum sköttum.``
    Það vill nú svo til að bæði hjónin geta hafa líka staðið skil á öllum sínum sköttum ætíð. Ef þið reiknið það, hv. þm., hver niðurstaðan er þá getur hún orðið sú að viðkomandi fólk fær ekki krónu greidda, ef báðir eru opinberir starfsmenn, svo það sé nú alveg pottþétt að ríkið nái þessu til sín. Það eru dæmi þess að það hefur komið fyrir.
    Þetta er, eins og hv. þm. Halldór Blöndal sagði áðan, refsiákvæði sem eru svo óeðlileg að ég vil segja að þetta sé ómanneskjuleg framkvæmd og algjörlega forkastanleg. Fólk sem lendir í þessu stendur uppi með það að það fær ekki krónu útborgaða. Ég kalla það ekki krónu. Ég get nefnt dæmi um það sem hefur komið fyrir hjón sem ég þekki þar sem það sem þetta fólk hafði til ráðstöfunar var innan við 10% af heildartekjum og var þá búið að draga frá staðgreiðsluprósentuna og að sjálfsögðu þá áætluðu skatta plús 25% refsiákvæði. ( HBl: Með dráttarvöxtum.) Með dráttarvöxtum. Þar við bætist það, sem er kannski sýnu alvarlegra, hvernig fara menn að leita réttar síns í þessu kerfi? Fær þetta fólk afgreiðslu fljótt eftir að skattframtal er lagt inn hafi orðið mistök í þeim efnum? Nei. Það eru dæmi þess að það hafi tekið allt upp undir ár fyrir einstaklinga að fá leiðréttingu sinna mála.
    Ég veit að það er alveg eins og að tala við steininn að ræða þetta hér á þessu stigi. Ég veit það að því miður er kerfishugsunarhátturinn svo sterkur í hv. þm., og ég vil segja steinhjartað í þeim mörgum, að þeir geta ekki manað sig upp í það, þrátt fyrir að raunverulega hafi þeir allir lýst yfir hér, jafnvel þeir

sem ætla að greiða því atkvæði að refsiákvæðið skuli vera 25% áfram. Það er ekki hægt að bakka með það og lækka þessa prósentu og ég segi raunverulega að afnema þetta refsiákvæði sem er ekki í samræmi við nokkur lög er varða refsingar í þessu landi.
    Þetta 25% álag mun hafa verið réttlætt á sínum tíma út frá því sjónarmiði að menn greiddu skatta eftir á. Því er ekki lengur til að dreifa. Það er alveg rétt sem kom einnig fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að það væri eðlilegra ef menn vilja viðhalda refsiákvæðum, sem getur verið rétt að einhverju marki, að hafa það í samræmi við ríkjandi verðbólgu.
    Stjórnarflokkar og hæstv. forsrh. hafa státað af því að nú sé verðbólgan innan við 10%, jafnvel komin niður í 6%. Það væri auðvitað eðlilegt að þetta ákvæði væri breytilegt. Ef menn vilja viðhafa refsingu gagnvart þeim sem ekki eiga hana skilda, ég er þá með í huga launafólk sem ætti auðvitað ekki að vera framtalsskylt, eins og fram hefur komið hér hjá einum hv. þm., því það er það vel séð um að ná sköttunum frá launafólki --- ætti auðvitað þessi álagning að vera hið mesta við ríkjandi aðstæður og í samræmi við þá stefnu sem þetta 25% álag byggðist á, tengt verðbólgu, 6 -- 8% álag.
    Ég skal ekki orðlengja þetta, virðulegi forseti. Það sem mér finnst einkennilegt og vil undirstrika er að hér hefur raunverulega hver einasti þingmaður, sem hefur fjallað um þetta mál, lýst því yfir að þetta 25% álag sé óeðlilegt. Þess vegna spyr ég, virðulegi forseti, hvers vegna í ósköpunum er ekki orðið við þeim tilmælum hv. þm. Halldórs Blöndals að þetta verði skoðað og þessari prósentu breytt?
    Ég spyr þá hv. þm. sem hafa raunverulega lýst því yfir að þeir vilji lækka þetta álag: Hvað er til fyrirstöðu nú? Ekkert. Auðvitað er það ekkert. Þess vegna vænti ég þess að hv. nefndarmenn í fjh.- og viðskn. taki þetta til meðferðar og endurskoðunar.
    Ég vil svo að lokum segja það, virðulegi forseti, að það hefði verið æskilegt í tengslum við þetta frv. að taka til meðferðar breytingu á skattleysismörkum. Það hefur ekki verið gert og ber að harma það, sérstaklega þegar það er haft í huga að þegar þessu þingi lýkur kemur ekki saman þing fyrr en væntanlega í október. Þá verða samningar lausir í landinu og þá mun hafa farið fram mikil umræða milli aðila vinnumarkaðarins um það hvernig standa eigi að kjaramálum. Ég hefði talið það mjög gott framlag inn í þá umræðu til þess að tryggja svokallaða þjóðarsátt, og þá á ég við þá sátt sem við viljum auðvitað stefna að burt séð frá því hverjir eru í stjórn, að verðbólgu sé haldið niðri með eðlilegum samningum en ekki verðbólgusamningum, að hið háa Alþingi hefði verið búið að ákveða það að hækka skattleysismörk.
    Að sjálfsögðu liggur það í augum uppi að það þarf að hækka laun þeirra lægst launuðu en það verður að gerast með þeim hætti að sú launahækkun fari ekki upp úr öllu, upp alla stigana. Þá sýnist mér það vera eitt besta ráð varðandi millitekjufólk að hækka skattleysismörkin samhliða því sem launahækkanir yrðu ekki sambærilegar við það sem verður að koma hjá

láglaunafólki. Því miður hefur ekki verið fjallað um það á þessu þingi. Jafnvel þó að hæstv. fjmrh. hafi lýst því yfir í eldhúsdagsumræðum að hann vildi hækka skattleysismörkin hefur ekki komið nein tillaga eða nein breyting á því frá hæstv. ríkisstjórn og ekki heldur hér við meðferð þessa máls. Ég hefði talið eðlilegt og æskilegt að það hefði komið inn tillaga til breytinga á þessu frv. varðandi skattleysismörk en það hefur því miður ekki orðið og ber að harma það.