Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Sem formaður fjh.- og viðskn. er ég tilbúinn til þess að kalla nefndina saman núna að lokinni þessari umræðu til þess að ræða það sem fram hefur komið, bæði hjá fjmrh., hv. 2. þm. Norðurl. e. o.fl. Þegar við ræddum þetta ákvæði í nefndinni kom það inn á síðasta stigi og kom óvænt upp þar sem fyrir nefndinni lá annað frv. frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur og því bætt þarna inn í þar sem allir voru sammála um að þetta 25% álag væri mjög ósanngjarnt með tilliti til minnkandi verðbólgu og þess að þarna væri um að ræða miskunnarlausan aukaskatt sem aðilar, sem hafa þegar borgað sinn skatt, þurfa að greiða fyrir það eitt að skila ekki skattframtali.
    Meiri hl., sem ég var fylgjandi, taldi að sú breyting sem lögð er til nægði að verulegu leyti sem millistig til þess ástands sem mundi skapast 1994 þegar skattframtöl verða óþörf eins og ríkisskattstjóri lýsti yfir í nefndinni. Að sjálfsögðu er ég tilbúinn til að lækka þetta enn frekar ef almennur vilji er til þess.
    Hins vegar vil ég einnig benda á að nú þegar, þar sem ég þykist þekkja töluvert inn á þessi mál og hef sinnt skattframtölum töluvert á undanförnum árum, er raunin sú að ef þeir aðilar sem vegna skilnaðar eða einhverra persónulegra ástæðna skila ekki framtali hafa bæði skattstjórar og sérstaklega ríkisskattanefnd fallist á það að fella niður þetta álag.
    Það sem er aðalatriðið með álaginu er að ná til þeirra sem láta stundum viljandi áætla á sig og skila ekki skattframtölum ár eftir ár. Mér finnst allt í lagi að þeir aðilar fái aukaálag og finnst ekkert óeðlilegt að það verði allt að 25% þegar menn eru að stunda það að skila ekki skattframtölum.