Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. um þetta fylgifrv. þess frv. sem mælt var fyrir hér áðan og við ræddum um. Ég legg þar til að skattafrádráttur vegna hlutabréfakaupa verði óbreyttur frá því sem nú er en verði ekki lækkaður um fjórðung eins og frv. og álit meiri hl. gera ráð fyrir. Ég skýrði áðan, þegar ég las upp nál., ástæðuna fyrir þessu og vísa til þess. En ég vil einnig taka það fram að ég tel afar mikilvægt að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækja og að hér myndist öflugur hlutabréfamarkaður. Ég tel að það fyrirkomulag sem nú er sé ein af forsendum fyrir því að hann geti þróast eðlilega og ekki sé tímabært núna að lækka hlutfallið í það horf sem frv. gerir ráð fyrir.
    Aðeins er komin eins árs reynsla á þetta. Ég tel að sú reynsla hafi verið góð að öðru leyti en því að í upphaflegu lögunum var ekki gert ráð fyrir binditíma. Nú er lagt til að binditíminn verði þrjú ár þannig að þeir aðilar sem fjárfesta í hlutabréfum eru bundnir í þrjú ár með þau. Það verður til þess að aðilar sem hug hafa á að styrkja eiginfjárstöðu og fyrirtæki sem hafa áhuga á að gerast aðilar að hlutabréfamarkaði sjái þetta sem góðan valkost í því að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins.