Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil láta það koma fram að ég tel að við séum ekki að hverfa frá grundvallarhugsjónum lýðræðisins með því að breyta skipan Alþingis þannig að það verði sameinað í eina málstofu. Það kom fram við 2. umr. málsins að ýmsir höfðu efasemdir um atriði sem fram kemur í drögum að nýjum þingskapalögum um ræðutíma og takmörkun á honum og minnist ég þess að hæstv. menntmrh. hvatti þingmenn til þess að láta í ljósi skoðanir sínar á því sem þar kemur fram. Ég ætla að taka þeirri hvatningu og taka undir orð hans um það að ég tel að þetta ákvæði, þ.e. 36. gr., þurfi að skoða aftur þegar þingskapalögin verða tekin til meðhöndlunar, hver sem þar kemur að verki. Ég tel nauðsynlegt og eðlilegt að þeir sem það gera lesi þá umræðu sem fram hefur farið um þetta mál og taki tillit til þeirra skoðana sem fram koma. Það segir í þessari nýju grein sem hér eru drög að, með leyfi forseta: ,, . . . þegar brýna nauðsyn ber til.``
    Allir hv. þm. þekkja sama orðalag úr 28. gr. stjórnarskrárinnar og öll vitum við hvernig það hefur verið túlkað á undanförnum áratugum. Ég held að það ætti að vera okkur víti til varnaðar að setja inn slíkt ákvæði og legg áherslu á að það er nauðsynlegt fyrir lýðræðið að skoðanir meiri og minni hluta fái að koma fram og sem flestar skoðanir í þeim málum sem til umræðu eru.
    Rökin með því að sameina Alþingi í eina málstofu eru að mínu áliti mörg. Þar vil ég t.d. nefna breytta skipan nefnda þingsins og sömuleiðis þá möguleika sem þingflokkar hafa þá til þess að koma sér upp meiri og greinilegri verkaskiptingu. En það er auðvitað ýmislegt annað sem mætti nefna og þyrfti að skoða í framhaldi af þessu. Ég tel eðlilegt þegar þessi nýja skipan tekur gildi að þá breytist t.d. árlegur starfstími þingsins, hann lengist, og sömuleiðis það að allar nefndir starfa allt árið þannig að nefndir starfa ekki eingöngu þegar þær fá mál til umfjöllunar. Ég tel mjög mikilvægt að nefndir sem starfa á vegum Alþingis hafi tækifæri til að kynna sér ýmis málefni sem undir þeirra svið heyra án þess að þær séu endilega að taka afstöðu til frv. eða tillagna, hvort sem þær koma frá ríkisstjórnum eða einstökum þingmönnum.
    Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram, virðulegi forseti. Ég lít ekki svo á að þetta fskj. um drög að fundarsköpum Alþingis sé plagg sem er ákveðið og búið að taka afstöðu til. Og vegna þess að ég hef minnst hér á 36. gr., um takmörkun á ræðutíma, sem ég tel nauðsynlegt að verði skoðað mjög vandlega og tel vafasamt ákvæði sem þar kemur fram, þá vil ég einnig benda á að það er áætlað að fjölga nefndum þingsins. Það er m.a. gert ráð fyrir umhverfismálanefnd, sem ég tel ástæðu til að fagna. Ég vil líka í þessari umræðu minna á að byggðanefnd sú sem starfaði á vegum forsrh. gerði tillögur um að í þinginu starfaði sérstök nefnd sem færi með byggðamál. Það er eitt af þeim atriðum sem skoða þarf þegar þingsköpin verða tekin til endurskoðunar og afgreiðslu þegar þing kemur saman á ný.