Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég fagna því að tveir síðustu ræðumenn hafa tekið til máls í þessu máli. En mér er nokkur vandi á höndum að svara þeim eins og vert væri og eðlilegt og raunar skylt
vegna þess að ég get ekki gert nema stutta athugasemd við það mál sem þessir hv. þm. komu með á elleftu stundu.
    Hæstv. menntmrh. vék áfram að spurningunni um málfrelsi, svo mikilvægt sem það er. Enn kom fram að hæstv. ráðherra, þó hann hafi góðan tilgang í þessu efni, blekkir sjálfan sig vegna þess að það er ekki hægt að komast hjá mikilli heftingu málfrelsis með því að breyta í eina málstofu. Til þess að gera kannski flókið mál einfalt, í tveim deildum geta tveir þingmenn tjáð sig í einu, en í einni málstofu aðeins einn.
    Hæstv. menntmrh. kom með aðrar ástæður fyrir því að hann fylgdi frv., nefndi að ein málstofa stefndi til skipulegri vinnubragða og að hægt væri að gera endurbætur á skipulagi nefndanna og nefndastarfa. Ég hef áður í þessum umræðum ítarlega farið út í þessi atriði og rætt rækilega og farið ofan í málið og bent á að hvort tveggja er á misskilningi byggt. Því hefur ekki verið mótmælt, en nú koma þessar athugasemdir á síðustu stundu. Ég get ekki svarað þeim. Ég vísa til þess sem ég hef áður sagt um þessi efni.
    Ég vísa líka í sambandi við það sem hv. 6. þm. Vesturl. sagði til þess sem ég hef áður sagt. Ég á ekki annars úrkosta nú. Þó að það sem þessi hv. þm. sagði væri mælt í góðum tilgangi, þá bar mál þessa þingmanns vott um það að það er gengið fram hjá kjarna málsins og gengið upp í sjálfsblekkingu.
    Að lokum. Ég minni á það, sem ég hef rækilega gert grein fyrir áður, að í öllum lýðræðisríkjum sem okkur standa næst stjórnskipulega og að þjóðháttum, öllum, er tvískipt þjóðþing, vegna þess að með þeim hætti er talið að þingið sé betur í stakk búið að sinna grundvallarhlutverkinu, lagasetningu, og að með þeim hætti sé betur séð fyrir að þingið sé góður vettvangur fyrir þjóðfélagslega umræðu. Það eru aðeins tvö dæmi sem vert er að nefna sem eru undantekning frá þessu. Fyrir 20 -- 30 árum hurfu Danir og Svíar frá tvískiptingu og ákváðu eina málstofu. Reynslan af því og sú staðreynd að allir aðrir hafa tvískipt þing bendir ekki til þess að við séum á réttri leið ef menn ætla að samþykkja afnám deildaskiptingarinnar.
    Herra forseti. Ég er búinn að ræða svo ítarlega um þetta mál án þess að aðrir þingmenn hafi tekið það málefnalega til umfjöllunar í deildinni fyrr en núna helst á elleftu stundu. Þess vegna vísa ég til þess sem ég hef áður sagt í þessu efni og ítreka aðvörun mína til hv. deildarmanna og ábendingum mínum um það að þeir firri sig ábyrgð af því tilræði við íslenskt þingræði sem fylgir þessu frv. með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og síðastra orða greiði atkvæði gegn frv.