Félagsþjónusta sveitarfélaga
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Við 1. umr. málsins kvaddi hæstv. félmrh. sér hljóðs undir þingsköpum til þess að koma mjög þýðingarmiklum athugasemdum á framfæri varðandi efnisatriði þessa frv. sem hér er til umræðu, sérstaklega varðandi það ákvæði sem meiri hl. félmn. hefur nú gert að umræðuefni. Ég óskaði þá eftir því að hæstv. félmrh. fengi tækifæri til að ljúka ræðu sinni hér við 3. umr. og óskaði eftir nærveru hæstv. félmrh. og vil nú beina því til hæstv. forseta að félmrh. geti lokið ræðunni þannig að mér gefist tækifæri til að gera athugasemdir við hið flókna mál félmrh. Ég fann að honum var mikið niðri fyrir og alveg óhjákvæmilegt að hann fái að láta ljós sitt skína smástund hér í deildinni.