Félagsþjónusta sveitarfélaga
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi leiðrétta það sem fram kom hjá hv. þm. að það sé mín skoðun að ákvæðin í þessu frv. um það að könnun eigi að fara fram á tveggja ára fresti eigi að vera efnislega ráðandi í þessu efni, eins og hv. þm. orðaði það. Hér er, eins og fram kemur í nál., um að ræða rammalöggjöf og ekkert sem mælir gegn því að í sérlögum, sem varða tiltekna þætti rammalöggjafar, séu þrengri ákvæði. Ég hygg að það sé þá á valdi hverrar sveitarstjórnar. Í þeim lögum sem búið er að samþykkja er talað um að það eigi að vera á eins árs fresti, en ég var að lýsa mínum viðhorfum í því . . . (Gripið fram í.) Ég var að segja að ég teldi ákvæðið um að þetta væri á tveggja ára fresti raunhæfara af því að þetta eru viðurhlutamiklar kannanir. En það er ekkert sem kemur í veg fyrir það, þó þetta frv. verði að lögum, að þessar kannanir fari fram á eins árs fresti.