Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég vil láta í ljósi sérstaka ánægju yfir því að samstaða hefur náðst um að lækka þetta hlutfall úr 25% niður í 15%, en tel að vísu að hlutfallstalan sé enn of há. Ég hefði kosið að fara með hana neðar og helst að koma þeirri skipan á hér, eins og er í sumum öðrum löndum, ekki veit maður hvernig það er í öllum öðrum löndum, að framtalsskylda hvíli ekki á launþegum í staðgreiðslukerfi. Það er auðvitað kjarni málsins og því þarf að ná fram. Vonir mínar standa til þess að sú breyting verði lögfest þegar á hausti komanda þannig að framtalsskyldan hvíli ekki eftirleiðis á launþegum, en þeir hafi á hinn bóginn heimild til þess að leggja fram framtöl ef þeir kjósa svo. Það á auðvitað við alla þá sem fá barnabætur eða húsnæðisbætur eða stendur sérstaklega á fyrir að einhverju leyti, eiga unglinga í skólum o.s.frv. Á hinn bóginn mundi það hlífa fólki sem hefur launatekjur eingöngu eða lífeyrissjóðstekjur eða tekjur frá almannatryggingum. Slíkt fólk getur þá látið það vera að telja fram þar sem það á ekki yfir höfði sér SS - sveitir fjmrh. sem málgagn forsrh. er svo smekklegt að kalla svo. Eftirlitsmenn með réttri skattheimtu kallar Tíminn SS - sveitir af einhverjum undarlegum ástæðum.