Frv. um fæðingarorlofsgreiðslur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Nú hefur verið nokkurt hlé á störfum deildarinnar og því skyldi maður ætla að tækifærið hefði verið gripið til þess að taka fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem flutt var í Nd. og hefur verið samþykkt þar og vísað til nefndar. Flm. eru Sólveig Pétursdóttir, Geir H. Haarde, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún Helgadóttir, Ingi Björn Albertsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson. Ég spyr hvort fyrir því séu einhverjar sérstakar ástæður að heilbr. - og trn. hefur ekki tekið þetta mál fyrir. Það er auðvitað ekki við því að segja ef meiri hl. heilbr. - og trn. snýst gegn þingmannafrv. En ég hygg á hinn bóginn að við hljótum að leggja á það áherslu að nefndarstörf dragi dám af þeim hraða sem hér er á þingstörfum og þess vegna sé hvert tækifæri gripið til þess að taka fyrir mál sem nefndinni berast. Ef marka má þau nöfn sem eru á þessu frv. má ætla að víðtækur stuðningur sé við málið hér í deildinni og rétt að vilji þingsins komi fram.