Frv. um fæðingarorlofsgreiðslur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Aðeins örstutt út af þessum ummælum. Ég vona að ég geti leiðrétt það nú ef það hefur misskilist eitthvað sem ég sagði áðan. Ég sagðist hafa verið á móti málinu og greitt atkvæði gegn því í Nd. og lýsti því sem er að gerast í Tryggingastofnuninni án þess að fjalla þó um málið efnislega nú frekar, því að ég heyrði að hv. 2. þm. Norðurl. e. gerði athugasemdir við það. En mér fannst ég verða að gera það áðan þó að umræðan væri um þingsköp, bara til þess að skýra af hverju svo hefði farið með málið.
    En ég lýsti líka áðan yfir í lok míns máls að auðvitað réði ráðherra ekki einn því sem hér færi fram. Það gera þingmenn auðvitað og þingið þó svo að reynt sé að hafa nokkurt samkomulag um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu hvernig mál ganga fram, ekki síst á síðustu dögum þings. Ég veit að vel hefur gengið að eiga samstarf við stjórnarandstöðuna þessa seinustu daga og ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram hjá öðrum varðandi það mál.