Grunnskóli
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Frsm. meiri hl. menntmn. (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Menntmn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til laga um grunnskóla. Játað skal að ekki hefur málið legið lengi hjá deildinni og það hefur heldur ekki verið fjallað um það á mörgum né löngum fundum í nefndinni en því meira hefur um málið verið fjallað utan fundar og milli manna til þess að leita þar samkomulags ef verða mætti til þess að samstaða gæti tekist um málið.
    Á fundi nefndarinnar fyrr í dag var málið afgreitt út úr nefndinni eins og Nd. afgreiddi það, þó með þeim fyrirvara að einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma. Þetta er nál. meiri hl. menntmn. á þskj. 1088. Fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni, hv. þm. Salome Þorkelsdóttir og Halldór Blöndal, lögðust ekki gegn því að frv. yrði afgreitt úr nefndinni, en þau munu gera grein fyrir afstöðu sinni nú við þessa umræðu málsins.
    Undir þetta nál. skrifa auk frsm. Valgerður Sverrisdóttir, Jón Helgason, Skúli Alexandersson og Guðrún J. Halldórsdóttir með fyrirvara.
    Skemmst er frá því að segja að hér hafði verið dreift á þskj. 1044 breytingartillöguhugmyndum frá hæstv. menntmrh. Kunnugt var að aðrar brtt. frá fulltrúum Sjálfstfl. voru einnig í smíðum og í nánd, ef svo má segja. Nú er það svo að samkomulag hefur tekist um að sameina þessar tillögur og bæta við þær. Það hefur tekist samkomulag um brtt. og hefur það orðið úr að menntmn. flytur tillögurnar en í ljósi þess hvern aðdraganda málið hefur haft, þá held ég sé réttara að þeir sem mest hafa fjallað þar um geri í smáatriðum efnislega grein fyrir brtt. við þessa umræðu, en um málið er samstaða í menntmn.
    Ég tel ástæðulaust, virðulegi forseti, að orðlengja þetta frekar.