Grunnskóli
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er rólegt í þessari hv. deild á þessu augnabliki en það mál sem hér er verið að fjalla um, þ.e. frv. til laga um grunnskóla, hefur, eins og fram kom í máli formanns menntmn., hv. 3. þm. Vesturl., fengið afar stutta og yfirborðskennda umfjöllun í þessari hv. deild. Hæstv. menntmrh. mælti fyrir þessu frv. í síðustu viku. Við höfum ekki fjallað um frv. efnislega í menntmn. Við komum aðeins til fundar fyrir einhverjum mínútum síðan, kannski hálftíma, og afgreiddum það með þeim hætti sem hv. 3. þm. Vesturl. skýrði frá, þ.e. meiri hl. nefndarinnar leggur til að það verði samþykkt.
    Það hefur komið fram í máli frsm. nefndarinnar að hún stendur öll að þeim brtt. sem fluttar eru við frv. Því er ekki að leyna að við höfum nokkuð spjallað saman um þetta mál, ég og hæstv. menntmrh. Niðurstaðan af því var sú að fyrir helgi lagði hæstv. ráðherra fram brtt. sem hafa nú verið felldar inn í þær brtt. sem hér liggja fyrir og eru til umræðu. Allar eru þessar brtt. komnar frá okkur, mér og hv. 2. þm. Norðurl. e., sem eigum sæti í menntmn. og treystum okkur ekki til þess að vera á nál. meiri hl.
    Mér finnst af þessu tilefni ástæða til að þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa komið til móts við okkar hugmyndir og okkar kröfur um breytingar á frv. sem liggja hér fyrir í þessum brtt. og nefndin stendur nú öll að.
    Það var mikið fjallað um þetta frv. í Nd. og fóru fram efnislegar umræður á þeim vettvangi sem við því miður höfum ekki haft tækifæri til þess að gera hér í hv. Ed. eins og ég nefndi áðan.
    Frv. mun hafa verið lagt fram í nóv. sl. í hv. Nd. Það var ekki tekið til meðferðar í nefndinni þar fyrr en í febrúar og þess vegna var jafnframt í Nd. mjög stuttur tími til umfjöllunar um frv. í nefndinni. Hugsanlega hefði mátt búast við að þar hefði gefist tækifæri til að ná fram þeim brtt. sem nú eru fluttar hér í hv. Ed. ef nefndinni hefði verið gefinn kostur á því. Þetta þýðir auðvitað að nú þarf frv. að fara til baka til Nd. ef það á að afgreiðast út úr þinginu.
    Auðvitað er margt sem hægt er að gagnrýna í þessu frv. Kannski ekki síst þann óvissuþátt sem eru sveitarfélögin og hvernig þau koma að þessu máli og það sem er þýðingarmest, þ.e. kostnaðarþátturinn, hvernig framtíðin verður, hvernig tekst að framkvæma það sem þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Mér þykir það eiginlega slæmt að hafa ekki tækifæri til þess að halda dálítið góða efnislega ræðu um þetta mikilvæga og góða mál, ekki síst af því að það hefur verið eitt af mínum hjartans áhugamálum að bæta um hvernig unnið er með þann ómótaða leir sem okkar æskufólk er þegar það er að ganga út á lífsbrautina og á að gera það að nýtum þjóðfélagsþegnum. Því það er ekki lítil ábyrgð sem hvílir á skólunum í nútímaþjóðfélagi sem verða að aðstoða foreldrana við uppeldið og auðvitað þroska og menntun barnanna.
    Ég hefði haft gaman af því að hafa tíma til þess

að skreppa út á skrifstofuna mína og sækja skýrslur vinnuhópsins sem þáv. hæstv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir skipaði. Þar áttum við, þessi níu manna hópur eða níu kvenna hópur ásamt einum karli, skemmtilegan tíma saman og mjög fræðandi og upplýsandi, þar sem við vorum að fjalla um þessi mál, þ.e. samstarf heimila og skóla, samfelldan skóladag, mötuneyti eða aðstöðu fyrir börn til að matast í skólanum, o.s.frv. Ég tel að það hafi kannski verið einn fyrsti vísirinn að þeim breytingum sem orðið hafa á mjög skömmum tíma til hins betra til þess að efla samstarf heimila og skóla ekki síst og meiri tengsl foreldranna við skólana.
    Það er stundum sagt að aðrir en þeir sem starfa innan veggja skólanna eigi ekkert að vera að skipta sér af því sem þar gerist. Ég er ekki sammála þessu og sem betur fer fjölgar þeim sem eru ekki þeirrar skoðunar. Auðvitað kemur foreldrum við hvað gerist innan veggja skólanna og skólarnir eru óðum að opna dyr sínar fyrir foreldrunum og bjóða þeim til inngöngu og vilja eiga samstarf við þá um hvernig best má standa að því að mennta börnin og gera þau að nýtum þjóðfélagsþegnum. Sem betur fer er þróunin í þessa átt og þetta er að breytast. Ég veit að þessu frv. sem hér liggur fyrir er ætlað að skapa betri skilyrði.
    Ég verð að gera þá játningu að ég hef í raun og veru engan tíma haft til þess að fara eins ítarlega og ég hefði viljað í efnisatriði frv. umfram það sem liggur fyrir í þeim brtt. sem hér eru fluttar. En ég tel að með þeim brtt. getum við sjálfstæðismenn sætt okkur við frv. og munum þess vegna greiða götu þess hér í gegnum þingið.
    Ég veit ekki hvort ég á að fara að skýra einstök efnisatriði varðandi þessar brtt. en ég vil þó nefna nokkur. Fyrsta breytingin er við 3. gr. frv. Þar er lagt til að felld séu út orðin ,,heildstæður skóli``. Með því eigum við við það að það megi ekki koma í veg fyrir að hægt sé að hafa skóla fyrir kannski fáeina árganga. Þá er ég með í huga ekki síst grenndarskóla í þéttbýlinu fyrir yngstu árgangana, svo dæmi séu tekin. Með því að taka út orðið ,,heildstæður`` teljum við að þeim möguleika sé haldið opnum, en okkur fannst það vera þrengt með þessu orði. Hins vegar á að sjálfsögðu að stefna að einsetnum skóla.
    Síðan er það við 9. gr. varðandi fulltrúa í grunnskólaráð. Í frv. er gert ráð fyrir að það sé skipað 11 fulltrúum. Við vildum auka hlut foreldra. Aðeins var gert ráð fyrir einum fulltrúa foreldra en samkvæmt þessum breytingum verða þeir tveir, fulltrúar foreldrafélaga eða samtaka þeirra, og skal annar þeirra vera fulltrúi foreldrafélaga í dreifbýli. Þá er einn fulltrúi Kennaraháskóla Íslands, einn fulltrúi Háskóla Íslands, einn fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og einn fulltrúi Námsgagnastofnunar, auk þriggja fulltrúa menntmrn. Einn þeirra skal vera fræðslustjóri og einn skólastjóri á framhaldsskólastigi. Þá gerum við líka brtt. um að fá í ráðið fulltrúa frá framhaldsskólastiginu sem á að taka við af grunnskólanum. Okkur fannst það vanta þarna inn í. Við höfum jafnframt fallist á breytingu hæstv. ráðherra um að ekki sé

óeðlilegt að menntmrn. eigi þarna fulltrúa sem sé ekki bundinn einhverju ákveðnu embætti. Það er sá þriðji og þannig eru fulltrúarnir orðnir tólf.
    Svo er þarna nafnabreyting sem skiptir ekki máli. Síðan er það 17. gr. Henni er breytt þannig að ekki þarf að vera eitt skólahverfi t.d. hér í Reykjavík.
    Þá er það ný grein sem ég fagna sérstaklega að hæstv. ráðherra hefur fallist á að taka inn í þessar brtt. Það eru skólaráðin sem skulu starfa við hvern grunnskóla. Hæstv. ráðherra tók það orðrétt upp úr frv. sem ég flutti hér á tveimur eða þremur þingum á sínum tíma, en náði aldrei fram að ganga. Það var samkvæmt tillögum vinnuhópsins sem ég minntist á áðan.
Samt sem áður hafði ég breytt því frv. og fækkað í ráðinu samkvæmt tillögum úr skýrslu samstarfsnefndar ráðuneyta um fjölskyldumál sem hæstv. þáv. forsrh. Þorsteinn Pálsson setti á laggirnar og var með margar mjög merkar og góðar tillögur. Þar var gert ráð fyrir að þetta skólaráð skuli skipað þremur mönnum, einn tilnefndur af kennurum og annar af starfsmönnum skólans, einn af foreldrum, foreldrafélagi ef það er til, og einn tilnefndur af nemendum, nemendaráði ef það er til. Fulltrúar í skólaráði skulu valdir við upphaf skólaárs til eins árs í senn. Skólaráð skal koma saman til funda eigi sjaldnar en þrisvar á ári.
    Hæstv. forseti. Ég gleymdi að biðja leyfis að mega lesa svona orðrétt en, með leyfi hæstv. forseta, þá er ég að lesa hérna úr brtt.: ,,Skólastjóri eða staðgengill hans situr fundi skólaráðs. Skylt er fulltrúa skólanefndar, fræðslustjóra, fulltrúa hans eða fulltrúa fræðsluráðs að mæta á fundi skólaráðs ef ráðið óskar þess.
    Menntmrh. setur reglugerð um störf og starfshætti skólaráðs og setur skólaráði erindisbréf.
    Heimilt er skóla að sækja um með rökstuddri greinargerð undanþágu frá ákvæði greinar þessarar til menntmrn. Gildar ástæður þurfa að liggja fyrir undanþágu, svo sem ef skóli er mjög fámennur.``
    Það er rétt að taka fram að gert er ráð fyrir að svona skólaráð komi saman hið minnsta þrisvar á ári, þ.e. í upphafi skólaárs til að fylgjast með hvernig skólinn ætlar að starfa, síðan um miðjan vetur og svo aftur að vori. Auðvitað er það frjálst en þetta er hugmyndin á bak við það að gera foreldrana meðábyrga í hinu innra starfi skólans, þó ekki sé annað sagt. Ætti það að vera til bóta og til styrktar starfsmönnum skólans að eiga aðgang að foreldrum á slíkum vettvangi.
    Í 7. lið á þessum brtt. erum við með brtt. við 45. gr., liðina g -- j.
    Við gerum tillögur um að það sé tryggt að 6. -- 10. bekkur hafi lágmarks kennslustundir sem eru aðeins rýmri en gert var ráð fyrir í frv. Þar förum við eftir tillögum sem komu fram í umsögn Kennarasambands Íslands. Þar bætum við jafnframt inn í nýrri málsgrein sem orðast svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Komið skal á fót skólaathvörfum við hvern grunnskóla, þar sem þörf er á, þar sem nemendur geta dvalist utan kennslustunda. Til að standa straum af viðbótarkostnaði er heimilt að taka gjald fyrir dvöl nemenda í skólaathvörfum og skal upphæð gjaldsins ákveðin af skólastjóra í samráði við fræðslustjóra.``
    Þetta er nýtt ákvæði sem ég tel vera mjög mikilvægt, að það sé hægt að nýta t.d. skólana sjálfa í þessu skyni. Þetta er í raun og veru komið í framkvæmd í mörgum skólum, a.m.k. á þéttbýlli stöðum, og skiptir miklu máli fyrir foreldra að börnin eigi þetta athvarf. Það er ekkert óeðlilegt að gera ráð fyrir að einhver smáupphæð sé greidd fyrir þann aukakostnað sem verður af þessu eins og t.d. vegna ræstingar eða gæslu. En þetta er sem sagt heimildarákvæði og gjaldskrá ákveðin af skólastjóra í samráði við fræðslustjóra.
    Við gerum líka brtt. við 50. gr. í 8. lið. Hún varðar Námsgagnastofnun og er um að orðin ,,hvaða námsgögn eru látin í té og`` falli brott. Setningin hljóðar þá þannig: Námsgagnastjórn ákveður hvort þau eru afhent nemendum til eignar eða afnota. Við viljum sem sagt víkka það hvaðan námsgögnin koma.
    Síðan er 9. liður við 72. gr. um að síðasta málsgreinin falli brott, sem er ,,skólagjöld eru háð samþykki menntmrn.`` Þetta fellur brott samkvæmt þessari brtt.
    Síðan er brtt. við 74. gr. Þar er lagt til að í 1. bekk séu nemendur í einstökum bekkjardeildum ekki fleiri en 18. Það er gert ráð fyrir að fækka þeim. Gert er ráð fyrir að þeir séu 22 í 2. -- 3. bekk en í 1. bekk verði þeir ekki fleiri en 18. Það þarf áreiðanlega ekki að skýra það fyrir kennurum a.m.k. hvað liggur þarna að baki og þýðingu þess að þeir hafi möguleika á að sinna þeim litlu börnum sem eru í 1. bekk, að þau séu ekki fleiri svo það valdi ekki vandræðum.
    11. liðurinn í þessum brtt. er við 85. gr. og er um hvenær lögin öðlast gildi. Þar er brtt. um að þau öðlist gildi 1. ágúst 1991. Þetta var ein af brtt. hæstv. ráðherra sem hann hafði lagt fram og við erum mjög ánægð með að hún er komin þarna inn.
    Að síðustu er 12. liðurinn til samræmis við 45. gr.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi þessi orð mín ekki fleiri en eins og ég gat um í upphafi hefur lítill tími gefist til að fara ítarlega í þetta frv. og trúlega hefði verið hægt að gera enn þá meiri umbætur á því. Ég harma það vissulega að við höfum ekki fengið hér í þessari hv. deild að fjalla ítarlegar um þetta mál og fengið betri tíma. Ég er viss um að ef við hefðum fengið þó ekki væri nema eina viku til viðbótar hefði orðið enn þá betri niðurstaða. En ég vil ítreka að þrátt fyrir þá ágalla sem ég nefndi og sérstaklega óvissuna um kostnaðarhliðina þá erum við sátt við að fá tækifæri til að ná fram þessum breytingum sem hér hafa verið útskýrðar og lagðar fram.