Grunnskóli
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Þeir hv. þm. sem hér hafa talað á undan mér hafa skýrt öll meginatriði þeirra brtt. sem hér liggja fyrir þannig að ég ætla ekki að fara að rekja þær í einstökum atriðum. Þær hafa þróast með nokkuð óvenjulegum hætti. Venjan er sú að meiri hl. og minni hl. takast á í nefndum. Það má segja að menn hafi reynt að leysa þetta utan nefndafundanna og lendingin sem hér liggur fyrir er að mínu mati farsæl. Það er hlutverk þeirra sem gegna því starfi sem ég er í núna að reyna að finna samnefnara og samkomulag um mikilvæga löggjöf eins og þessa og ég tel að þær tilraunir sem hér hafa verið gerðar í þessari virðulegu deild hafi í grófum dráttum tekist allvel og það sé deildinni til sóma hvernig að málinu hefur verið staðið. Ég hygg, satt að segja, að þó að málið hefði verið lengur í nefnd hefði ekki verið unnið miklu nákvæmar að því en þrátt fyrir allt hefur verið gert.
    Varðandi einstök atriði vil ég aðeins nefna nokkra hluti til þess að koma í veg fyrir misskilning og til þess að skýra frá minni afstöðu. Ég segi í fyrsta lagi: Auðvitað sé ég eftir skólahverfisákvæðinu sem á við fjölmenn byggðarlög. Mér er hins vegar ljóst að fyrir því eru ákveðin rök að byggðarlögin sjálf ákveði hvernig þau haga skólahverfaskiptingu. Þar sem það liggur fyrir að viðkomandi byggðarlag, Reykjavík, er andvígt því að á því verði tekið með lögum, þá var út af fyrir sig hægt að fallast á það að taka út hugmyndirnar eins og þær liggja fyrir í frv., enda þótt mér sé vissulega nokkur eftirsjón að þeim.
    Varðandi 7. brtt., við 45. gr., vil ég segja að auðvitað verður það að vera þannig og hlýtur að verða þannig framkvæmt af ráðuneytinu að lenging skólatímans, sem gert er ráð fyrir í greininni, hlýtur fyrst og fremst að koma til yngstu barnanna framan af. Það hlýtur að vera algjört meginatriði. Það er gert ráð fyrir því í 12. brtt. að ákvæði þessarar greinar komi til framkvæmda á tíu árum en í brtt. er síðan gert ráð fyrir því að nemendur í 9. og 10. bekk geti fengið minnst 1480 mínútur og nemendur í 7. og 8. bekk minnst 1440 mínútur, þ.e. tímum fjölgi um einn í 7. og 8. bekk og tvo í 9. og 10. bekk. Ég bendi á í þessu sambandi að eins og frv. lítur út er þetta lágmark, það er ekki verið að tala um þetta sem almenna viðmiðun eins og það er í gildandi grunnskólalögum heldur er þetta lágmarkstími sem hverjum nemanda á að verða ætlaður í skóla að loknum þessum tíma, aðlögunartíma, sem tilgreindur er í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða.
    Varðandi b-lið 7. brtt. þar sem gert er ráð fyrir því að heimilað verði að taka gjald vegna skólaathvarfanna vil ég láta það koma skýrt fram að mín túlkun á þessu er sú að hér sé eingöngu um að ræða framkvæmd á ákvæði 25. gr. sem skapar möguleika í skólum fyrir hvíld utan kennslustunda. Spurningin er þá sú: Af hverju á að taka gjald fyrir þetta? Svarið er: Það hefur verið gert. Það er gert í flestöllum byggðarlögum. Mér er kunnugt um það að ýmsir aðilar eins

og t.d. minn flokkur og kennarasamtökin og fleiri hafa lýst gagnrýnum sjónarmiðum í þessu efni, en það er alveg ljóst að hér eru menn ekki að leggja út á braut skólagjalda, hér eru menn eingöngu að skapa svigrúm til þess að standa undir þessum sérstaka viðbótarkostnaði. Hér er verið að tala um minni háttar gjöld, hér er verið að tala um lágar upphæðir á hvern einasta nemanda, en ekki verulega fjármuni. Ég bendi á að í greininni, eins og hún stendur, er gert ráð fyrir því að fræðslustjóri, þ.e. ráðuneytið, komi til skjalanna þegar gjöldin eru ákveðin. Það er því alveg ljóst að hér er ekki verið að stíga inn á almenna skólagjaldabraut af neinu tagi.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka hv. menntmn. fyrir vinnu hennar að þessum málum, einstökum nefndarmönnum, stjórnarandstöðunnar ekki síst, hv. þm. Guðrúnu J. Halldórsdóttur og ekki síst hv. þm. Salome Þorkelsdóttur og Halldóri Blöndal. Það er satt að segja mjög sérkennilegt hvað það gerist sjaldan að fólk í stjórn og stjórnarandstöðu reynir að krafla sig saman í gegnum málin og komast að sameiginlegri lendingu. Það er hægt miklu oftar en gert er. Mér finnst satt að segja að þó að tíminn hafi verið stuttur sem málið hefur verið til meðferðar þá séu vinnubrögðin til fyrirmyndar að því leyti að menn hafa verið að reyna að finna samnefnara. Það væri afar fávíslegt af ráðherra, hver sem hann væri, að gera ekki allt sem hann gæti til þess að ná samkomulagi um jafnmikilvæga löggjöf og grunnskólalögin eru.
    Að svo mæltu endurtek ég þakkir mínar til þingmanna og hv. deildar fyrir afgreiðslu á málinu til þessa og vænti þess að það nái afgreiðslu nú á þessu þingi.