Grunnskóli
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt athugasemd við orð hæstv. ráðherra um skólaathvörfin og hlutverk þeirra, að þau eigi að vera hvíldarstaður fyrir nemendur. Að sjálfsögðu eiga þau að vera hvíldarstaður, en ég lít svo á að hlutverk skólaathvarfa í framtíðinni hljóti að verða miklu meira en það, þetta verði staður þar sem nemendur geta bæði lært og þroskast og iðkað frístundaathafnir. Ég á þó ekki við neinar stórkostlegar íþróttir eða því um líkt heldur ýmis önnur frístundaviðfangsefni. Þau skólaathvörf sem hér er rætt um koma ekki að gagni og verða æskulýð þessa lands ekki til þess góðs sem ég álít að þau þurfi og verði að vera nema því aðeins að við lítum svo á að þetta sé ekki bara hvíldarstaður heldur einnig þroskastaður.