Grunnskóli
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins vegna orða hæstv. ráðherra og hv. 18. þm. Reykv. um skólaathvörfin. Ég vil staðfesta það sem kom fram í máli hv. 18. þm. Reykv. sem er hugmyndin að baki því að bjóða upp á skólaathvörf við skólana. Það er einmitt ekki síst þetta að nemendur sem þurfa á því að halda eigi þetta athvarf innan skólans utan venjulegs skólatíma. Vegna orða hæstv. ráðherra um heimild til að taka gjald fyrir slíka gæslu eða eftirlit, þá segir það sig sjálft að þarna er einungis verið að tala um að það megi taka eitthvert smágjald til þess að standa undir aukakostnaði sem hlýtur að verða við slíkt skólaathvarf. Það er bæði það sem snýr t.d. að ræstingu og launum starfsmanns sem að öðrum kosti yrði þá kannski að taka af þeim kennslukvóta sem viðkomandi skóli hefur. Þetta er ekki hugsað öðruvísi en aðeins til að koma til móts við þann aukakostnað sem yrði af rekstri slíks athvarfs í skólanum. Maður getur að sjálfsögðu aldrei reiknað með að það yrði greitt að fullu með þessum hætti heldur yrði gjaldið til að sýna viðleitni. Þarna er um aukaþjónustu að ræða sem er utan við þá skyldu sem skólinn hefur. Hann er að ganga lengra og koma til móts við foreldra barna sem þurfa á slíku athvarfi að halda. Mér finnst rétt að láta þetta koma fram og taka þannig undir þau viðhorf sem hv. 18. þm. Reykv. lýsti til skólaathvarfanna.