Skaðsemisábyrgð
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki mælt með frv. sem ég hef tæplega lesið. Samt vildi ég vera með á þessu nál. þar sem ég get ekki tekið efnislega afstöðu til málsins að öðru leyti.
    Hér er um að ræða nokkuð stóran lagabálk þar sem verið er að fjalla um mál er varða ábyrgð framleiðanda á vöru sem síðan reynist gölluð, svo langt komst ég í því að lesa í þessu frv. Þegar málið kemur til afgreiðslu mun ég sitja hjá.
    Mér finnst, eins og mál hafa þróast síðustu daga, þessi vinnubrögð vera fyrir neðan allar hellur. Það er verið að afgreiða mál í gegnum tvær til þrjár umræður á 5 -- 10 mínútum og engin efnisleg afgreiðsla í nefndum. Ég var má segja borinn ofurliði í hv. fjh.- og viðskn. um þetta atriði. Ég taldi lágmark að nefndarmenn fengju að kynna sér málin áður en þeir tækju afstöðu til þeirra og þess vegna geri ég fyrirvara á nál. Ég taldi ekki ástæðu til að skila sérstöku nál. þar sem ég gat ekki farið það vel ofan í málið að ég gæti tjáð mig um það á sérstöku nál.