Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Eins og allir vita þá hefur þetta mál nú komið til okkar frá hv. Nd. Það er ekkert svigrúm til breytinga. Hugmyndin er að ljúka þinginu eftir örskamman tíma og við sættum okkur við þessar aðgerðir. Þetta er að vísu óvanalegt því að lánsfjárlög hafa nú um langa tíð alltaf verið samþykkt fyrir jól, þó með þeim hætti að Ed. hefur raunverulega lokið við sín störf nokkru fyrir jólin og sent málið til hv. Nd. Þar hefur verið gengið frá lánsfjárlögum við hlið fjárlaganna, enda eru lánsfjárlög í eðli sínu ekkert annað en hluti fjárlaga.
    Segja má að þetta snillibragð að hafa lánsfjárlög við hliðina á fjárlögunum hafi verið fundið upp til að dylja halla sem hefur verið á fjárlögum í langa tíð en dulbúið með þessum hætti. Málið hefur svo alltaf komið aftur til Ed. á lokadegi þingsins þegar verið var að afgreiða fjárlögin, sem hefur alltaf verið fyrir jólin. Að þessu sinni er það auðvitað sérstakt að málið kemur svo seint til baka til okkar hér í Ed. Það breytir ekki því að við munum láta afgreiðsluna óátalda og ekki flytja neinar brtt. því að ef upp hefðu hafist hér deilur þá yrði þinginu alls ekki slitið á þessu dægri.