Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Aðeins til að svara hv. 6. þm. Norðurl. e. um tvennt sem hann spurði. Hið fyrra er um afurðalán eða rekstrarlán til loðdýraræktar. Ég kannaði það í framhaldi af okkar samtali og niðurstaðan er sú að upphæð lánanna er óbreytt. Hins vegar var dreifingu þeirra breytt á rekstrartímanum, þ.e. það var endurskoðað í hvaða hlutföllum rekstrarkostnaður félli til. Það leiddi til þess að það varð einhver lækkun á þeirri prósentu sem lánað er út á fyrstu mánuði framleiðslutímans, janúar til og með apríl hygg ég, en síðan kemur hærra hlutfall lánsins á sumartímanum og þeim tíma þegar mest fóðurnotkun er. Þetta mun hafa verið í samkomulagi gert við þá aðila sem verið hafa að skoða hvernig útgjöld féllu til í þessum búskap, a.m.k. eru það þær upplýsingar sem ég hef að þetta hafi verið í samkomulagi milli Framleiðnisjóðs, bankanna og fleiri aðila, að menn hafi talið að lánin dreifðust kannski ekki alveg í fullu samræmi við það hvernig rekstrarkostnaðurinn félli til með vaxandi fóðurþörf þegar liði á sumar- og haustmánuðina.
    En upphæð afurðalánanna eða rekstrarlánanna er óbreytt eins og hún var ákvörðuð í maímánuði í fyrra að afloknum uppboðum sl. vetrar og með sama hætti er þess að vænta að upphæð afurðalána verði endurskoðuð núna í vor í ljósi skinnaverðs eins og það hefur þróast á þessum vetri. Þá er þess að vænta, skulum við vona, að sú hækkun á skinnaverði sem komið hefur fram á uppboðum í desember og janúarmánuði næstliðnum komi inn í afurðalánin og þau ættu þá að geta hækkað um kannski ein 15 -- 20% í mink og eitthvað lítillega í ref.
    Varðandi annað atriði þessa máls sem snýr að loðdýraræktinni þá sér hv. þm. væntanlega að í brtt. fjh.- og viðskn. er tillaga um að aflétta skerðingu á tekjustofnum Bjargráðasjóðs og inni í samkomulagi um þær auknu tekjur er að Bjargráðasjóður hefji á nýjan leik fyrirgreiðslu af því tagi til þess hluta loðdýrabænda sem í mestum erfiðleikum á sem hann stóð fyrir á sl. ári frá og með miðju ári og fram til áramóta. Ég hef lagt á það áherslu að sú aðstoð verði þannig útfærð að hún taki til alls tímans, alveg frá áramótum. Og ég veit ekki annað en að það eigi að geta gerst í beinu framhaldi af því að þessi breyting verður á tekjum Bjargráðasjóðs á yfirstandandi ári. Hæstv. félmrh. hefur tjáð mér að í undirbúningi sé í félmrn. að hefja þá fyrirgreiðslu með svipuðum hætti og var á síðasta ári, þannig að ég veit ekki annað en að það eigi að komast á.