Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Ragnar Arnalds :
    Herra forseti. Á þskj. 1006 flytja þrír þingmenn brtt. við lánsfjárlög er varða álverið. Fyrri brtt. þeirra er á þá leið að Landsvirkjun sé heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar að taka lán á árinu 1991 að fjárhæð allt að 800 millj. kr., eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, til undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar, stækkunar Búrfellsvirkjunar, fimmta áfanga Kvíslaveitu og stofnlínu eins og nauðsynlegt er til þess að unnt verði að sjá nýju álveri fyrir nægjanlegri raforku frá áramótum 1994 -- 1995. Ákvörðun um þennan undirbúning og að nýta heimildir samkvæmt þessari málsgrein skal tekin í ljósi framvindu samninga um álver á Keilisnesi.
    Það er skemmst frá að segja að ég get ekki sætt mig við þessa tillögu. Ég undrast það að í lánsfjáráætlun sé talað um nýtt álver eins og orðna staðreynd þótt allir viti að það mál er gjörsamlega í lausu lofti. Ég tel enn fráleitara að Alþingi sé að heimila 800 millj. kr. eyðslu vegna undirbúningsframkvæmda án þess að nokkuð liggi fyrir um það að álver verði byggt.
    Það er þegar búið að leggja í verulegan undirbúningskostnað vegna byggingar nýs álvers. En horfurnar hvað það mál varðar eru harla óljósar eins og öllum er kunnugt. Á sl. sumri var varið 300 millj. kr. til álversundirbúnings og virkjanaundirbúnings og ég tel það fjarstæðu að nú eigi að fara að verja 800 millj. kr. til frekari virkjanaundirbúnings án þess að nokkuð liggi fyrir um það hvort menn eru þar í raun og veru að undirbúa mál sem kemur til framkvæmda eða þá kannski hitt að menn séu að fleygja 800 millj. kr. út um gluggann án þess að það komi að nokkru gagni. Ég tel það fullkomið ábyrgðarleysi að samþykkja tillögu af þessu tagi og hef því flutt brtt. þar sem segir að við greinina bætist ,,enda liggi fyrir fyrirvaralaus raforkusamningur``.
    Auðvitað segir það sig sjálft að það er algjört skilyrði, það er sjálfsögð forsenda fyrir því að nokkurt vit sé í því að heimila svo gífurlegan fjáraustur til framkvæmda að fyrir liggi að orkan sé til sölu og fáist keypt, þannig að ekki sé verið að verja þessum fjármunum til ónýtis.
    Ég vil minna á að þessi afstaða mín er í fullu samræmi við fyrri samþykktir þingflokks Alþb. Við höfum út af fyrir sig ekki staðið gegn því að mál þetta hljóti hina nákvæmustu athugun. Við höfum ekki staðið gegn því að viðræður eigi sér stað um hugsanlega byggingu álvers. Við höfum ekki staðið gegn því að undirbúningur eigi sér stað. En við höfum allan tímann haft fullan fyrirvara hvað varðar þetta mál og lagt á það áherslu að til þess að það geti orðið að veruleika með okkar samþykki þurfi að uppfylla allnokkur skilyrði. Og meðal þeirra skilyrða sem við höfum lagt hvað þyngsta áherslu á eru strangar kröfur um umhverfisvernd og viðunandi orkuverð.
    Þegar umræður fóru fram um mál þetta á sl. hausti í kjölfar þess að hæstv. iðnrh. ritaði undir eitthvað sem kallað var áfangasamkomulag til undirbúnings

byggingu álvers, þá kom það fram hvert væri það orkuverð sem þá var fyrirhugað í sambandi við byggingu þessa álvers. Meðalorkuverðið sem þá var verið að tala um var í kringum 18 mill á kwst. og það var aftur miðað við hagstæða spá um verð á áli á næstu áratugum. Hins vegar var öllum þá þegar ljóst að raunverulegt stofnverð nýrra virkjana væri langtum hærra og það stendur enn. Í því sambandi má nefna margar tölur, en vegna þess að ég er í hópi þeirra sem vilja greiða fyrir framgangi lánsfjáráætlunar af fjöldamörgum ástæðum, því að þar eru mjög mörg þjóðþrifamál sem þurfa að ná fram að ganga, þá treysti ég mér ekki til að verja mjög miklum tíma til umræðna um þennan þátt málsins sem mætti þó rökstyðja í mjög löngu máli.
    En ég minni á að þessi þáttur málsins er í algeru uppnámi áframhaldandi. Það liggur ekkert fyrir um það að viðunandi verð fáist fyrir orkuna í samningum við hugsanlega álbræðslu. Auk þessa er verið að tala um að orkuverðið skuli breytast í réttu hlutfalli við heimsmarkaðsverð á áli og að ekkert lágmarksverð verði á seldri orku. Með þessu er að sjálfsögðu tekin gífurleg áhætta ef engin takmörk eru fyrir því hvað orkuverðið getur fallið niður á við við breyttar aðstæður, ef ske kynni að álverð yrði lágt sem margt raunar bendir til og reynslan sýnir að getur vel gerst. Ef svo færi yrði um gífurlegan hallarekstur að ræða á þessu orkuöflunarfyrirtæki sem Landsvirkjun hefði staðið fyrir og hætt er við því að sá taprekstur mundi lenda með fullum þunga á innlendum orkuneytendum, fyrirtækjum og heimilum.
    Í þessu samhengi minni ég á að í þeim áætlunum sem fyrir liggja um orkuöflun í þágu nýs álvers er almennt reiknað með allt of lágum vaxtaprósentum miðað við þá reynslu sem verið hefur á liðnum áratug annars vegar og svo hins vegar miðað við allt of hátt verð á áli miðað við þá reynslu sem fengin er á liðnum áratug. Og það er tiltölulega einfalt skólabókardæmi að ef tekið væri meðaltal af þeim vöxtum sem verið hafa á alþjóðlegum mörkuðum á dollar á liðnum áratug og ef tekið væri meðaltal af því verði sem fengist hefur fyrir ál á alþjóðlegum mörkuðum á liðnum áratug, þá er hér verið að leggja út í gífurlega áhættu, gífurlegan taprekstur, a.m.k. fyrst um sinn meðan orkuverðið hækkar ekki meira en ástæða er til að ætla að það geri.
    Eins og ég hef þegar sagt, herra forseti, þá taldi ég mér skylt þegar ég sté hér í pontu að tala stutt í þessu máli vegna þess að það bráðliggur á að koma lánsfjáráætluninni fram og uppi hafa verið áform um að þingi ljúki í dag. Lánsfjáráætlun á eftir að fara til 3. umr., það á enn eftir að fjalla um hana í efri deild og mörg önnur mál, svo sem nauðsynleg skattamál, bíða hér afgreiðslu. Ég harma því að geta ekki gefið mér miklu betri tíma til þess að ræða þetta stórmál en ítreka það sem ég hef hér þegar sagt, að það er auðvitað fráleitt með öllu að samþykkja þessa brtt. á þskj. 1006 um að verja 800 millj. kr. til undirbúnings virkjana vegna álvers án þess að nokkuð liggi fyrir um það að þessi orka verði seld. Þá fyrst þegar fyrirvaralaus raforkusamningur liggur fyrir er vit í því að hefjast handa um þessar framkvæmdir.