Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. beindi í ræðu sinni fyrr í þessari umræðu til mín tveimur fyrirspurnum sem mér er ljúft að svara. Hann óskaði í fyrsta lagi skýringa á afstöðu Alþfl. til þeirrar stefnumörkunar í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt sem landbrh. hefur nýlega náð samkomulagi um við Stéttarsamband bænda og einnig á því hverju það sætti að Alþfl. skuli nú standa að tillögu um lánsfjárheimild í 11. tölul. á þskj. 1005 til þess að auðvelda aðlögun sauðfjárframleiðslunnar að innanlandsmarkaði.
    Ég vildi vegna þessarar fyrirspurnar taka það fram að Alþfl. telur nauðsynlegt að breyta landbúnaðarstefnunni til þess að lækka matvælaverð, draga úr ríkisútgjöldum, hlífa gróðri landsins og efla sjálfstæði og framtakssemi með bændum.
    Þau drög að búvörusamningi, sem nú liggja fyrir og bíða reyndar staðfestingar Alþingis með nauðsynlegum lagabreytingum eins og skýrt er fram tekið við undirskrift þessarar samningsgerðar, eru vissulega skref í rétta átt en ekki nema hálfnað verk. Við viljum ljúka því verki. Uppkaup á framleiðslurétti, greiðslumarki eins og það heitir samkvæmt þessu samkomulagi, eru nauðsynlegt fyrsta skref. Til þess að skýra þetta nánar, þá mun ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp hluta af samþykkt þingflokks Alþfl. í þessu máli sem gerð var 10. þ.m. og skýrir það hvers vegna við styðjum þessa lánsfjárheimild. Tilvitnunin er svona:
    ,,Þingflokkur Alþfl. leggur til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991 svo fært verði að framkvæma aðlögun fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði á grundvelli viðauka I í fyrirliggjandi samningsdrögum. Fullgilt samkomulag liggi fyrir í sumar þannig að unnt verði að gera nauðsynlegar lagabreytingar á næsta þingi hvort heldur verður á sumarþingi eða haustþingi. Til þess að unnt sé að samþykkja og staðfesta gerð samnings sem gilda á í sex ár þarf að nást samkomulag um eftirfarandi atriði til að tryggja verulega verðlækkun til neytenda svo snúa megi við þeirri öfugþróun að markaðshlutdeild hefðbundinna búvara minnki ár frá ári:
    1. Að fullbúinn verði samningur um framleiðslu mjólkurafurða er tryggi aukna framleiðni, bæði í frumframleiðslu og vinnslu.
    2. Að hlutur afurðastöðva, sláturhúsa og mjólkurbúa í verðlækkun til neytenda verði tryggður, m.a. með endurskoðun úreltra laga og samþykkta þannig að tryggð verði samkeppni milli afurðastöðvanna. En í þeim er meginhluti verðmyndunar búvöru búinn til.
    3. Að skýr ákvæði komi inn í samninginn um endurskoðun verðlagsgrundvallar og verðkerfisins í heild sem tryggi að stefnt verði til verulegra verðlækkana allrar búvöru til neytenda.
    4. Að landinu verði hlíft við ofbeit og þáttur umhvrn. verði skýrt afmarkaður.
    5. Að ullarniðurgreiðslur og vaxta - og geymslugjöld breytist í annars konar stuðning.
    6. Að hlutur bænda sem fyrirsjáanlega munu þurfa

að hverfa frá búum sínum verði betur varinn.
    7. Að réttur stjórnvalda til að gera fyrirhugaða samninga um Evrópska efnahagssvæðið og innan GATT, almenna samkomulagsins um tolla og viðskipti, verði í engu skertur og kalli ekki á endurskoðun væntanlegs búvörusamnings.
    8. Að endurskoðunar - og uppsagnarákvæði samningsins verði skýr. Fari útgjöld ríkissjóðs fram úr því sem gert er ráð fyrir eða verð til neytenda lækki ekki eins og ráð er fyrir gert verði unnt að krefjast endurskoðunar samningsins til þess að ná þeim markmiðum fram eða segja þeim einfaldlega upp.
    Þingflokkurinn er þess fullviss að með góðum vilja samningsaðila er unnt að ljúka samningsgerð sem innifeli framangreind atriði innan þeirra tímamarka að ekki valdi bændum vandræðum.``
    Hér lýkur minni tilvitnun, virðulegi forseti. Þetta skýrir að mínu áliti til fulls þá afstöðu okkar að standa að lánsfjárheimild til þess að hefja uppkaupin á framleiðsluréttindum meðan verið er að ganga frá fullkomnum samningi, fullkomlega frágengnum, sem fái svo staðfestingu þingsins með nauðsynlegum lagabreytingum. ( FrS: Eru hinir stjórnarflokkarnir samþykkir þessu?) Ég mun að sjálfsögðu ekki tala hér fyrir þá. Ég er hér eingöngu að lýsa samþykkt þingflokks Alþfl., enda var það það sem um var spurt og ég vona að hv. þm. taki þetta gilt sem svar.
    Í öðru lagi spurði hv. 1. þm. Reykv. hverju það sætti að tillögur um lánsfjárheimildir til Landsvirkjunar og til jarðakaupa á Keilisnesi væru með nokkuð öðrum hætti í þessum tillögum frá meiri hl. hv. fjh. - og viðskn. og meiri hl. þess meiri hl. hvað annað atriðið varðar en var í grg. till. til þál. um samninga um álver á Keilisnesi sem er nú til meðferðar í Sþ. eins og kunnugt er.
    Fyrst nokkur orð um Landsvirkjunarheimildirnar. Þar er eingöngu um það að ræða tæknilega að þar eru sameinaðar í einni tölu 800 millj. kr., tvær fyrri tillögur, önnur um 580 millj. kr., hin um 220. Þá hefur verið bætt við, einkum til skýringar, málslið við þessa málsgrein, þ.e. orðin ,,ákvörðun um framkvæmd þess arna verði tekin í ljósi framvindu samninganna um álverið``. Þetta er eingöngu skýring á því sem liggur í fyrirvaranum um samþykki ríkisstjórnarinnar og efnislega er þessi tillaga því algjörlega samhljóða þeirri sem fylgdi þáltill.
    Þá kem ég að lánsfjárheimildunum vegna útvegunar jarðnæðis fyrir álverið og höfn handa því. Um það mál er það að segja að þar hafa orðið tvær breytingar frá þeirri tillögu sem fylgdi þáltill., þ.e. að í tillögu hv. fjh. - og viðskn. eða meiri hl. hennar er ekki tilgreind ákveðin fjárhæð og bætt er við eignarnámsheimild ef þörf krefur. Satt að segja var þetta sú tillaga sem ég hafði upphaflega gert til fjmrn. Á því stigi máls taldi fjmrn. ekki kost á því að afla lánsfjárheimildar án fjárhæðar eða að hafa eignarnámsheimild í lánsfjárlögum. Við nánari athugun hefur hv. fjh. - og viðskn. komist að þeirri sömu niðurstöðu og ég áður, þ.e. að leggja til lánsfjárheimild án fjárhæðar en styðja hana með eignarnámsheimild. Ég fagna

að sjálfsögðu þessari niðurstöðu hjá hv. fjh. - og viðskn. og styð tillöguna heils hugar. ( FrS: Það er meiri hl. nefndarinnar.) Já, það er rétt hjá hv. þm., ég leiðrétti það sem ég sagði hér áður. (Gripið fram í.) Nei, mér er það ljóst, virðulegi þingmaður. En ég segi það engu að síður að ég fagna þessari tillögu svo sem hún er fram komin, enda er hún sú sem ég gerði í upphafi máls og tel reyndar að málinu sé betur fyrir komið eins og það liggur núna fyrir þinginu.
    Ég kem þá að því sem fram kom í máli hv. 2. þm. Austurl. Hann nefndi það að Landsvirkjun hefði að hans áliti farið fram úr fjárheimildum sem veittar voru með raforkuveralögunum sl. vor og þar var nefnd fjárhæðin 367 millj. kr. til undirbúnings virkjana sem tengdar voru fyrirhuguðu álveri á Keilisnesi. Hv. 2. þm. Austurl. bar þetta saman við lánsfjárheimild sem veitt var með bráðabirgðaákvæði við raforkuveralögin í fyrravor upp á 300 millj. kr.
    Í fyrsta lagi er rétt að nefna það að fært til sama verðlags má ætla að fjárhæðin væri ekki 300 heldur 320 -- 330. Í öðru lagi það sem þá ber á milli lít ég svo á að Landsvirkjun hafi í reynd ráðstafað af öðru fé sínu á eigin ábyrgð en ekki á grundvelli þessarar lánsfjárheimildar. Ég endurtek að þetta er mín skýring á þessu máli og ég endurtek það reyndar enn á ný sem hv. 2. þm. Austurl. virtist vefengja að sumarið er okkur Íslendingum dýmætt. Mér fannst hann draga þessi sannindi í efa og leyfi mér hér að varpa því fram til þingheims að sú skoðun þingmannsins fái naumast staðist. Ég endurtek það enn á ný, sumarið er okkur Íslendingum dýrmætt. ( HG: Um það er væntanlega hv. þm. Páll Pétursson sammála.) Ég vona það en mér heyrðist á hv. 2. þm. Austurl. að hann væri ekki alveg viss um þessi gömlu sannindi.
    Síðan kem ég að því sem hann sagði um þetta mál auk þess sem hér er þegar nefnt. Hann hélt því fram að Landsvirkjun hefði ekki óskað eftir þessari heimild og að lánsfjárheimildarbeiðni þeirra væri skilyrt við það að fyrir lægju fyrirvaralausir raforkusamningar. Þetta er ekki rétt. Landsvirkjun hefur óskað eftir þessari heimild einmitt til þess að geta búið sig undir framkvæmdir þegar slíkir fyrirvaralausir orkusamningar liggja fyrir. Vilji menn bæta þeim viðauka við sem hv. 4. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds hefur óskað eftir að gert yrði, þá er það marklaus tillaga, þá er hún ekki til neins. Þetta kemur mjög glöggt fram í erindum Landsvirkjunar sem ég ætla að hafi verið lögð fram skýrt og skilmerkilega í hv. fjh. - og viðskn. og bið hv. 2. þm. Austurl. að kynna sér málið betur. ( HG: Ég hef gert það.)
    Þá kem ég að því sem sagt var um jarðardýrleik í þessu máli. Að sjálfsögðu var það skemmtileg tilbreytni hér í deildinni að fá að heyra lesið úr Jarðabók Árna Magnússonar og víst er það svo að jarðardýrleiki margra jarða er óviss, eins og hv. 2. þm. Austurl. las hér upp að verið hefði á tíð þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalín. En mér finnst það satt að segja dæmigert fyrir þennan málflutning að vilja nú fara eftir jarðargæðum og landskostum eins og þeir voru metnir á þeirri tíð, á þeirri öld að Ísland var fátækt og einangrað land. Það er einmitt það sem hefur fært okkur betri lífskjör. Ef við værum enn í lokuðu landi, ofurseldir einokun, þá væri Keilisnesið, Flekkuvíkin, Minni - og Stærri - Vatnsleysa vissulega ekki verðmætar jarðir. En sem betur fer erum við hér í opnu landi, í opnu samfélagi, í viðskiptasamböndum við umheiminn og höfum notið góðs af tækniþróuninni. Þannig hafa landkostir á þessum slóðum margfaldast og svo er komið að það sem Árni Magnússon og Páll Vídalín töldu örreytiskot eru nú kannski verðmætustu staðir landsins til eflingar atvinnu þar um slóðir og fyrir landið allt. Þetta er kjarni málsins.