Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Áður en ég hef ræðu mína tel ég óhjákvæmilegt að gera nokkrar athugasemdir við gang mála hér í dag.
    Ég vil fyrst taka það fram að með ágætu samkomulagi við hæstv. forseta þessarar deildar hliðraði ég til og fór á nefndarfund svo sem ég var beðin um hér núna kl. hálftvö. Sá fundur dróst á langinn og ég var orðin nokkuð ókyrr að komast af honum þar sem ég vissi að ég yrði fljótlega á mælendaskrá þó að ég hefði fyrirheit um það að verða sótt þegar að mér kæmi, sem og reyndist vera. En það mætti mikilli andstöðu innan nefndarinnar að ég fengi yfir höfuð að komast af þessum fundi. Þar að auki virðist vera nokkuð mikið umstang í kringum það að nálgast nefndarmenn sem þurftu að vera að sinna skyldustörfum á minnst tveimur stöðum. Þar að auki hef ég verið boðuð á fund með þingmönnum Reykn. kl. 4, enn á fundartíma. Ég bað um það þegar ég var boðuð á þann fund að ekki yrði áframhald á því að menn væru boðaðir á fundi meðan á þingfundatíma stendur. Þetta segi ég að fenginni reynslu af fyrri fundi. Við þingmenn höfum verið mjög tilhliðrunarsamir hér undanfarna daga og setið ótalmarga fundi meðan á þingfundatíma stendur, en ég tel að það sé varla hægt að ætlast til þess að þetta haldi áfram svona. Þar að auki virðist allt vera óljóst um framhald þingstarfa þrátt fyrir ýmsar athugasemdir um ýmiss konar sættir. Sá fundur sem hefði átt að ganga frá því hvert framhald þingstarfa verður virðist ekki hafa orðið enn. A.m.k. ber mönnum ekki saman um það. En ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri. Ég hef ekkert upp á hæstv. forseta þessarar deildar að klaga nema síður sé, en ég tel þetta engu að síður ótækt eins og málum er nú komið og vona að það fari að skýrast og það hið fyrsta. En ég tek þá til við þá ræðu sem ég hér ætla að halda.
    Virðulegi forseti. Eins og hv. 12. þm. Reykv. boðaði geri ég grein fyrir brtt. Kvennalistans sem birtar eru á þskj. 1016 við þessa umræðu lánsfjárlaga. Við leggjum til að 25. gr. frv. falli brott en í henni segir, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur á árinu 1991 vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.``
    Þetta merkir einfaldlega það að tekjustofnar Ríkisútvarpsins til framkvæmda eru skertir. Við kvennalistakonur höfum á undanförnum árum æ ofan í æ ítrekað að við teljum óviðunandi að skerða tekjustofna Ríkisútvarpsins og að full þörf sé á öllu því framkvæmdafé sem Ríkisútvarpið á að fá vegna þeirra framkvæmda sem nauðsynlegar eru.
    Ég vil minna á utandagskrárumræður sem urðu í kjölfar óveðursins sem gekk yfir landið þann 3. febr. sl. Þá var m.a. nokkur umræða um öryggishlutverk Ríkisútvarpsins. Nú er ljóst að ýmsir telja að önnur uppbygging sé heppilegri en að endurnýja það mastur sem féll í óveðrinu og hafði staðið undarlega lengi

að margra mati miðað við ástand þess. En ódýrari og betri lausn þarf einnig að fjármagna og langar mig að vísa til orða hæstv. menntmrh. þann 4. febr. sl., en hann segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Ógæfuspor í þessu efni`` --- þ.e. í sambandi við fjármál Ríkisútvarpsins --- ,,var stigið með því að svipta Ríkisútvarpið föstum tekjustofnum af aðflutningsgjöldum sem áttu að renna til endurbóta á þessu kerfi. Það gerðist fyrst árið 1987 en þá runnu í ríkissjóð frá Ríkisútvarpinu með þessum hætti 357,8 millj. kr., 1988 120,6 millj. kr., 1989 147,1 millj. kr., sem með þessum hætti rann í ríkissjóð frá Ríkisútvarpinu. Það liggja ekki fyrir tölur um það hversu háar upphæðir eru á árinu 1990, en samtals er hér um að ræða að frá Ríkisútvarpinu hafa runnið til ríkissjóðs á þremur árum, 1987 -- 1989, 625,5 millj. kr.
    Í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991 sem enn liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir því að halda áfram skerðingu á þessum tekjustofni Ríkisútvarpsins. Ég hygg að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að sú ákvörðun sem við höfum staðið að verði nú endurskoðuð í ljósi þeirra viðburða sem áttu sér stað um helgina. Viðbrögðin sem við munum hafa uppi í þessu efni eru sem hér segir, virðulegur forseti:
    1. Ég mun ræða þau mál við Póst og síma og samgrn., hvort unnt er að þessir aðilar taki beinan þátt í þeim endurbótum sem verður að taka ákvörðun um núna.
    2. Með hvaða hætti verður staðið að endurskoðun lánsfjárlaganna þannig að þeir fjármunir sem samkvæmt þeim eiga að renna til ríkissjóðs renni til Ríkisútvarpsins.
    3. Ég mun leggja sérstakar tillögur um þetta mál fyrir ríkisstjórnarfund í fyrramálið þar sem hæstv. forsrh. mun leggja fyrir skýrslu um tjónið af óveðrinu í heild.``
    Svo mörg voru þau orð hæstv. menntmrh.
    Til þess að fyrirbyggja allan misskilning tek ég það fram að ég býst við að í framtíðinni muni aðrar tæknilegar lausnir henta betur en uppbygging mastra, eins og ég gat um áðan, og eru þar allmargar hugmyndir á kreiki. Ég tel hins vegar alveg ljóst að skerðing á framkvæmdafé Ríkisútvarpsins er ekki rétt að svo stöddu og að því miðar tillaga okkar kvennalistakvenna að til hennar komi ekki.
    Ég vil leggja inn í þessa umræðu örlitla athugasemd sem birtist í grein sem Gunnlaugur H. Jónsson, eðlisfræðingur og rekstrarhagfræðingur, skrifaði í Morgunblaðið þann 20. febr. sl. þar sem hann segir í nokkuð ítarlegu máli frá því hverra kosta sé helst völ í þessum efnum. Ég hafði raunar hugsað mér að hér þyrfti að koma ítarleg tilvitnun en að þessu sinni held ég að ég láti mér nægja að taka lokaorðin af því sem ég ætlaði að láta hér fram koma og staldra við þetta:
    ,,Áður en íslenska þjóðin leggur fram 1000 milljónir, eða sem samsvarar milljón á hvert skip í flotanum, ættu Íslendingar að staldra við og íhuga hvernig öryggi í fjarskiptum verður best tryggt næstu 60 árin.
    Á næstunni verður lokið við að hringtengja ljósleiðara um landið. Þróun á sjálfvirku tilkynningakerfi

fyrir skip er að ljúka. Næsta skref er að koma því upp hringinn í kringum landið ef það er tæknilega og fjárhagslega hagkvæmt. Mörg skip hafa aðstöðu til að taka á móti upplýsingum, þar á meðal veðurkortum og GPS - staðsetningum frá gervihnöttum. Fyrir 1000 milljónir má gera mikið í öryggismálum þjóðarinnar bæði til sjós og lands og til að styrkja ljósleiðara - og FM - og sjónvarpsdreifikerfið. Hægt væri að koma upp stuttbylgju - eða miðbylgjusendi á hverju landshorni (kannski í tengslum við radarstöðvarnar).``
    Það er ljóst af þessu að það er nóg við það fé að gera sem þyrfti að koma til framkvæmda hjá Ríkisútvarpinu þótt aðeins sé litið á þetta. Mér sýnist að ekki muni af veita að Ríkisútvarpið fái tekjustofna sína óskerta og þá einnig til þeirrar uppbyggingar sem hér er vísað til.
    Til gamans langar mig að lokum að benda á hvað hæstv. núv. samgrh. sagði fyrir þremur árum, er hann var í stjórnarandstöðu, um það hvað Ríkisútvarpið þyrfti að hafa ef staðið væri við þá uppbyggingu sem þá var fyrirhuguð og ég sé ekki að nokkur lausn hafi fengist á nú. Hann segir í umræðu um lánsfjárlög, þann 12. jan. 1988, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Herra forseti. Ég var að ljúka við að gera grein fyrir því að við leggjum til að 22. gr. frv. falli brott og Ríkisútvarpið haldi sínum tekjum. Ég tel mig hafa rökstutt að fyrir því séu ærnar ástæður. Ríkisútvarpið stendur, eins og við vitum, í uppbyggingu. Þar er verið að halda áfram framkvæmdum við nýtt útvarpshús. Enn fremur stendur til að sjónvarpið flytji inn í þá bygginu á næstunni og það mun auðvitað kalla á talsverð fjárútlát. Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins hefur lögum samkvæmt 10% af tekjum stofnunarinnar og sem betur fer hafa menn ekki getað kyrkt með öllu framkvæmdir og tæknilega uppbyggingu og endurnýjun útvarpsins vegna þeirra ákvæða. Vegna þeirra ákvæða hefur útvarpið sjálfkrafa haft nokkurt framkvæmdafé burt séð frá því hvernig búið er að högum þess að öðru leyti. Mér hrýs hugur við því að hugleiða hvernig staða Ríkisútvarpsins væri ef þó ekki væri þetta ákvæði í lögum um Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Mér sýnist næsta ljóst að a.m.k. núverandi hæstv. ríkisstjórn á sér þá ósk heitasta að kyrkja Ríkisútvarpið og mætti út af fyrir sig velta því fyrir sér hvort einhverjar sérstakar pólitískar hvatir séu þar að baki, hvort það sé sérstök stefna hæstv. ríkisstjórnar að lama starfsemi Ríkisútvarpsins eins og mögulega kostur er og hvað eigi þá að taka við.``
    Mig langar að tengja þessi orð þeim orðum hæstv. menntmrh. í utandagskrárumræðunni um óveðrið mikla í febrúarbyrjun, sem ég vísaði áður til, og varpa því fram til íhugunar hver sé stefna núverandi stjórnar sem þessir hæstv. ráðherrar eiga aðild að. Ég held að samkvæmt þessu sé óhjákvæmilegt að þeir muni styðja brtt. Kvennalistans og raunar allir þeir sem vilja Ríkisútvarpinu vel. Ég mun ekki fjalla frekar um brtt. okkar að þessu sinni.
    Að lokum vil ég ítreka áskorun á þá þingmenn sem enn eru þeirrar trúar að veita eigi stórfé af lánsfjárlögum til framkvæmda vegna álversuppbyggingar.

Sú áskorun er þessi: Samþykkið brtt. hv. þm. Ragnars Arnalds um að ekki verði veitt fé til framkvæmda nema fyrir liggi fyrirvaralaus raforkusamningur. Og látið þar með þessa tillögu hv. þm., sem einhverjir hafa bent á að væri hugsanlega aðeins sýndartillaga, verða að eðlilegri lágmarkskröfu.
    Fleiri orð ætla ég ekki að hafa nú í þessari umræðu, en vilji einhver eiga orðastað við mig um uppbyggingu Ríkisútvarpsins er ég að sjálfsögðu fús til þess að taka aftur til máls.