Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Friðrik Sophusson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að misskilningurinn liggi í því að hv. þm. sé með upprunalega þingskjalið en þingskjalið breyttist í Ed. Greinum fækkaði vegna þess að skerðingarákvæðin hurfu úr frv. Þar á meðal voru sóknargjöld ekki skert lengur en kirkjugarðsgjöld skert þess meira. Þetta gerði það að verkum að breyting varð á frv. þannig að sú grein sem fjallar um málefni fatlaðra er nú 31. gr. í vinnuskjali sem við er miðað og 30. gr. er um málefni aldraðra. Það sem við höfum greitt atkvæði um hér í dag er ekki annað en það að hverfa frá skerðingu hvað varðar þessa tvo sjóði. Hvernig fjármunum verður varið held ég að sé betra að aðrir skýri. Um það mætti lengi deila eins og ég hygg að hv. þm. og fyrrv. ráðherra þessara mála viti best.