Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) (um þingsköp) :
    Eins og venja er hefur verið samið í allmarga daga um þau mál sem eiga að fara í gegnum þingið. Eins og stendur núna lít ég svo á að samkomulag sé á milli allra flokka um eftirgreind mál: Lánsfjárlög, tekjuskatt og eignarskatt, Húsnæðisstofnun ríkisins, þ.e. lokun 1986-kerfisins, eins og kallað er hér. Að vísu er þar fyrirvari frá a.m.k. einum eða tveimur þingmönnum, en ég er að tala um samkomulag á milli formanna stjórnarflokkanna. Sömuleiðis efnahagsaðgerðir og ég geri mér vonir um að samkomulag sé orðið, þó ég hafi ekki fengið það staðfest, um grunnskóla. Síðan hafa einstakir ráðherrar lagt mikla áherslu á önnur mál, eins og opinbera réttaraðstoð, en um hana hefur ekki náðst samkomulag. Ég hef talið upp þau mál sem ég lít svo á að fullt samkomulag sé um. Þetta eru ekki mörg mál og geta farið í gegn á mjög skömmum tíma.
    Ég tek hins vegar undir það með hv. 1. þm. Reykv. að það er ekki skemmtilegt að rjúfa þing um miðja nótt og hafði þess vegna gert mér vonir um að það gæti orðið um tíuleytið. Ég lít ekki svo á að ég geti verið með þennan þingrofsrétt í marga daga, eins og kom fram áðan. Í raun segir að þing skuli þá þegar rofið þegar breyting er gerð á stjórnarskrá. Hins vegar hafa fræðimenn túlkað það svo að ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu að afgreiða mál sem eru á afgreiðslustigi. Það er t.d. sérstaklega nefnt hjá Ólafi Jóhannessyni að afgreiðsla fjárlaga sé sjálfsagt mál, svo þetta virðist vera talsvert matsatriði. En ég lít alls ekki svo á að við getum haldið þingi áfram í fleiri daga og legg á það mikla áherslu að það megi rjúfa þing í kvöld.