Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Frsm. 2. minni hl. félmn. (Geir H. Haarde) :
    Herra forseti. Eins og kom fram við 1. umr. er hér um að ræða mikið og stórt þingmál sem lýtur að því að leggja niður húsnæðislánakerfið sem var komið á fót vorið 1986. Þannig hagar til að í þeirri ríkisstjórn sem þá sat var það hæstv. núv. forsrh. sem þá stýrði verkum, var einnig forsrh. í þeirri ríkisstjórn, og hefur því bæði átt aðild að því að koma þessu kerfi á laggirnar og, að því er virðist núna, að leggja það niður.
    Þannig hagar jafnframt til, virðulegi forseti, að Framsfl. ályktaði um þetta mál á flokksþingi sínu í nóvember sl. og tók af skarið með það að eigi skyldi leggja niður húsnæðislánakerfið frá 1986, þvert á það sem í þessu frv. stendur. Nú er þess að sjálfsögðu að gæta að nú er kominn marsmánuður og það eru liðnir fjórir mánuðir frá þessari samþykkt Framsfl. og ekki seinna vænna að fara að hverfa frá henni. (Gripið fram í.) Og eins og hæstv. fjmrh. grípur hér fram í réttilega þá mun það vera óvenjulega langur tími frá því að samþykkt er gerð í Framsfl. þangað til frá henni er horfið með formlegum hætti.
    En að öllu gamni slepptu, virðulegi forseti, þá liggur það fyrir að meiri hl. ríkisstjórnarinnar á Alþingi ætlar að knýja þetta mál hér í gegn, hefur að vísu ekki betri aðstöðu til þess í félmn. en þá að ekki hefur myndast hreinn meiri hluti um málið í nefndinni. Þannig hagar til að það eru reyndar fjórir minni hlutar í nefndinni og enginn meiri hluti. Fjórði minni hluti hefur að vísu ekki skilað nál., en hér liggja fyrir þrjú minnihlutaálit.
    Ég vil lesa, herra forseti, minnihlutaálit okkar hv. þm. Eggerts Haukdals sem er svohljóðandi:
    ,,Annar minni hl. flytur brtt. við frv. á þskj. 1087 en mun að öðru leyti ekki hafa afskipti af afgreiðslu þess. Eðlilegt er að ráðandi meiri hluti á Alþingi beri einn ábyrgð á framgangi þessa máls.
    Brtt. 2. minni hl. lýtur að því að fella brott úr frv. heimild til að hækka vexti á lánum Byggingarsjóðs ríkisins þegar eigendaskipti verða að íbúð. Á nefndarfundi í félmn. kom fram að framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar telur mikla meinbugi á framkvæmd slíkrar heimildar. Annar minni hl. telur eðlilegast að allir lántakendur sitji við sama borð komi til vaxtabreytinga. Má í því sambandi minna á þá hugmynd ráðherranefndar ríkisstjórnarinnar að vextir breytist eftir að ákveðinn fjöldi ára, t.d. 10 ár, er liðinn frá því lán var veitt.``
    Ég vil þá í leiðinni, virðulegi forseti, gera frekari grein fyrir brtt. á þskj. 1087, sem ég hygg að sé ekki mjög rík andstaða við í deildinni. Nú vildi ég beina þeim sömu tilmælum til forseta og hann beinir gjarnan til deildarmanna að friður verði og ró í salnum svo ræðumaður heyri mál sitt. Þannig háttar til með þessa brtt. að lagt er til að 4. efnismálsgr. í 14. gr. frv. falli brott. Í þessari 4. efnismálsgr. segir að ríkisstjórninni skuli heimilt að breyta vöxtum á lánum þegar eigendaskipti verða á íbúð. Ég tel að hér sé verið að bjóða heim hættu á mikilli mismunun gagnvart því

hvort íbúð hefur gengið kaupum og sölum eða ekki og miklu skynsamlegra sé, ef menn vilja ráðast í vaxtahækkanir á lánum Byggingarsjóðs ríkisins sem er sennilega óhjákvæmilegt og búið að vera lengi, þá eigi eitt yfir alla að ganga í þeim efnum, menn verði að sitja við sama borð. Það er mjög auðvelt að stilla upp þeim möguleika að íbúð, sem hefur verið í eigu sama manns eða sömu fjölskyldu í nokkuð mörg ár, skipti um eigendur og við taka ungir kaupendur, fólk sem er að byrja sinn búskap, en verður jafnframt, vegna þess að það er að kaupa íbúð, að sætta sig við það að vextir á láni á henni hækka bara við það að hún er seld og þau kaupa hana.
    Ég tel að ekki sé hægt að færa eðlileg rök fyrir þessu og hef þess vegna leyft mér að leggja til þá breytingu sem gerð er á þskj. 1087 um að þessi grein falli niður. Ríkisstjórnin hefur allar þær heimildir sem hún þarf til þess að beita sér fyrir batnandi afkomu hjá Byggingarsjóði ríkisins með því að hækka vexti, ef það er hennar vilji. Annaðhvort með því að gera það jafnt yfir öll lán sem tekin hafa verið frá 1984 eða með því að gera það t.d. með þeirri reglu, sem hér er bent á, að ákveðnum tíma liðnum frá því að lánið var upphaflega tekið, hvort sem það eru fimm ár, sjö ár eða tíu ár eða hvað svo sem verða kynni ofan á í þeim efnum. Þess vegna er þessi heimildargrein, 4. efnisgr. 14. gr. frv., óþörf og ég leyfi mér að leggja til að hún verði felld brott.
    Eins og ég sagði, virðulegi forseti, þá mun 2. minni hl. nefndarinnar, við hv. þm. Eggert Haukdal, og þar af leiðandi þingmenn Sjálfstfl. almennt hér í deildinni ekki hafa frekari afskipti af þessu frv. Við munum sitja hjá við afgreiðslu þess. Við lýsum allri ábyrgð á þessari afgreiðslu á hendur ríkisstjórninni. Þess má m.a. geta að til nefndarinnar kom í dag fulltrúi Alþýðusambands Íslands og lýsti mikilli andstöðu við þetta mál. Við lýsum sem sagt allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni um leið og við notum tækifærið og lýsum vantrausti á alla meðferð stjórnarflokkanna á húsnæðismálum undanfarin missiri.