Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir það mjög í takt við þessi þinglok hér að hv. formaður fjvn. skuli koma hér í ræðustól við 3. umr. um lánsfjárlög og snupra hæstv. fjmrh. með þeim orðum sem hann flutti hér.
    Það er vissulega hægt að taka undir margt af því sem hv. þm. sagði um afgreiðslu lánsfjárlaga, og þarf þá auðvitað ekki að sakast við hæstv. fjmrh. einan heldur auðvitað stjórnarliðið allt saman. Ég hygg að það láti nærri að milli 3 og 4 milljarðar sem nú eru á lánsfjárlögum, kannski nær fjórum, ættu heima á fjárlögum en ekki lánsfjárlögum. Samt sem áður vantar enn til þess að menn fái heillega mynd af útgjöldum ríkisins og tekjum talsvert sem menn vita um nú þegar. Nefni ég í því sambandi að ekki verður hægt að lækka kostnað hjá almannatryggingum vegna lyfja upp á 500 -- 600 millj. þar sem það frv. liggur óafgreitt hér í þinginu. Hvergi sér þess merki að hæstv. ríkisstjórn ætli að afhenda ríkisspítulum fjármuni upp á 100 -- 130 millj. kr.
    Tekjuskattsfrv., sem verður sjálfsagt að lögum núna í kvöld, rýrir tekjur ríkissjóðs verulega. Samt sem áður og þrátt fyrir þetta allt saman má gera ráð fyrir því að lánsfjárþörf ríkissjóðs og opinberra aðila verði 24 -- 25 milljarðar kr. Þetta þýðir, svo ég reyni að segja einfalt frá því hvað hér er að gerast í kvöld, að ríkissjóður og aðilar sem að honum standa, opinberir aðilar, þurfa að taka að láni á innlendum markaði á milli 65 og 70% af þeim nýja sparnaði sem verður til á yfirstandandi ári. Til samanburðar má geta þess að ríkissjóður og sömu aðilar tóku 40% af nýjum sparnaði síðasta árs. Þetta getur ekki endað nema annaðhvort með því að vextir hækka, ekki síst ef atvinnulífið þarf á nýju fjármagni að halda, eða, sem er mun líklegra og stofnanir ríkisins hafa bent á, að leita verður lána erlendis í mun meira mæli heldur en gert hefur verið að undanförnu. Þetta er það sem við blasir og að auki virðist mörgum vandanum vera ýtt til framtíðar, til næstu ríkisstjórna, eins og t.d. því máli sem við ræddum fyrr á þessu þingi um lækkun húshitunarkostnaðar þar sem menn komu sér saman um það að næsta ríkisstjórn láti peninga af hendi rakna til þess að lækka húshitunarkostnað hér á landi.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Vissulega hefur gefist tilefni til þess eftir ræðu hv. formanns fjvn. Ég hef þegar í framsöguræðu minni við 2. umr. farið mjög ítarlega ofan í þetta mál. Þá ræðu ætla ég ekki að endurtaka.
    Ég veit að það lifir stutt eftir af þessu þingi, en taldi rétt að þessi almennu sjónarmið kæmu skýrlega fram við 3. umr. málsins.