Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð um þetta frv. sem hér er til umræðu um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er náttúrlega komið í ljós og þarf ekki að lýsa því að hér er verið að knýja í gegn eitt af meiri háttar ágreiningsefnum á því þingi sem nú er að ljúka, þ.e. kröfuna um að reyna að breyta því kerfi sem aðilar vinnumarkaðarins og Alþingi ásamt þeirri ríkisstjórn sem þá sat náðu algjöru samkomulagi um að setja í lög. Þarf ég ekki að lýsa þeirri forsögu í sjálfu sér að öðru leyti en því að það var út af fyrir sig merkilegt mál að nást skyldi slík þjóðarsamstaða, ef svo má að orði komast, um byltingu í húsnæðismálum á þessu ári, 1985 -- 1986, og semja lög sem allir voru sammála um bæði hér á hv. Alþingi og annars staðar.
    Þessu þarf ekki að lýsa. Það urðu þarna straumhvörf og verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins beittu sínu afli, sínu fjármagni til að gera verulegar umbætur í húsnæðismálum. Ég hygg að það megi leita lengi að svo víðtæku samstarfi og þeirri aðferð til þess að fá meira fjármagn inn í kerfi sem var búið að vera í svelti um margra ára skeið þar sem fólk hafði ekki möguleika á að fá nema á milli 15 og 20% lán í hæsta lagi á kostnaðarverði úr húsnæðiskerfinu.
    Það kom fljótlega í ljós að vissir aðilar höfðu ekki samúð með þessu kerfi og gerðu það sem þeir gátu strax við stjórnarskiptin 1987 til að koma þessu kerfi fyrir kattarnef. Það var varla búið að starfa heilt ár þegar sú árás var gerð sem hafði að sjálfsögðu víðtæk áhrif.
    Ég þarf ekki að lýsa þessu, virðulegur forseti, enda ætlaði ég ekki að halda hér langa ræðu þó það hafi e.t.v. farið hrollur um hæstv. forseta áðan, hann hafi haldið að ég ætlaði að hafa hér málþóf sem alls ekki stendur til. Ég vil aðeins fara örfáum orðum um þetta mál og ég ætla að spara allar tilvitnanir í liðinn tíma eins og hægt er. Ég ætla ekki að lýsa því hvernig þetta mál hefur gengið fram, það þekkja allir þá sögu, svo mikið hafa húsnæðismálin verið í sviðsljósinu. En eitt er víst og það vil ég leggja áherslu á hér að allt það kjörtímabil sem nú er að líða hefur núv. félmrh. hæstv. og ríkisstjórnin verið önnum kafin við að breyta húsnæðiskerfinu, koma sífellt með nýjar og nýjar breytingar þó það taki steininn úr nú á yfirstandandi þingi þar sem hafa verið lögð fram fimm lagafrv. til að breyta húsnæðiskerfinu. Og það merkilega er að eftir því sem fleiri ný lög hafa verið samin og komið í framkvæmd þá hefur kerfið alltaf farið niður á við eftir því sem lengra líður. Nú er svo komið að hvorki Húsnæðisstofnunin sjálf, stjórnendur hennar eða almenningur í landinu veit hvaðan á sig stendur veðrið því að óvissan er svo mikil í þessum málum og ruglingurinn að því er vart hægt að lýsa.
    Framsfl. hélt flokksþing á sl. ári þar sem hann markaði stefnu í sínum aðalmálum og þjóðarinnar, þar á meðal í húsnæðismálum. Meginlínan þar var sú að húsnæðiskerfinu frá 1986 skyldi við haldið og því

mikla samstarfi sem náðist við aðila vinnumarkaðarins og þá sem réðu yfir mestu fjármagninu, þ.e. lífeyrissjóðina, og allt skyldi gert sem hægt væri til að styrkja það kerfi í sessi sem því miður núv. ríkisstjórn gerði ekki. Það lá fyrir 1987 að gera þyrfti uppskurð á þessu kerfi að því er varðar stefnuna í vaxtamálum og mörgu fleiru. Það var ekki gert, hvorki 1987 né 1988 og allar breytingar í þá veru að styrkja þetta kerfi í samræmi við kröfu aðila vinnumarkaðarins voru hunsaðar.
    Síðan ætla ég að lýsa aðeins viðhorfum til þessa frv. sem hér liggur fyrir. Eins og ég hef greint frá áður hafði Framsfl. fyrirvara um þetta mál. Þingflokkurinn tilkynnti strax að það væri ekki samstaða um að breyta þessu og sá sem hér stendur hefur haft sérstöðu sem ekki hefur farið fram hjá aðilum ríkisstjórnarinnar þannig að það sem ég segi á hverjum tíma hefur ekki þurft að koma neinum á óvart, enda var opinber yfirlýsing þar um.
    Þegar þetta mál var svo knúið í gegn núna á síðustu mánuðum var það gert með ágreiningi sem liggur fyrir enn þann dag í dag. Ég sá í afgreiðslu efri deildar að þingmenn flokksins í félmn. hefðu skrifað undir með fyrirvara.
    Það er dálítið merkilegt eftir öll þau ár sem ég hef setið hér á Alþingi og fjallað um mörg stór mál að þá skuli eitt af stærri málum vera í þeirri aðstöðu að þegar það komst til nefndar á síðasta degi þingsins í morgun og félagsmálanefndarfundur var kallaður saman í matartímanum, þá var boðskapurinn sá að það skyldi ekki leyfð nein athugun á þessu máli heldur skyldi málið knúið í gegn með meiri eða minni hluta. Síðan náðist samkomulag og ég get viðurkennt að formaður nefndarinnar reyndi eftir bestu getu að verða við óskum þó hún hefði fyrirmæli um annað. Hv. 9. þm. Reykn. sýndi þarna tillitssemi sem er í sjálfu sér sjálfsagður hlutur en markaði þó vissa stöðu í þessu máli sem gerir það að verkum að það er þó alla vega komið hér til afgreiðslu í hv. deild á síðustu mínútum þessa þings.
    Niðurstaðan varð sú að samkvæmt kröfum frá undirrituðum voru fengnir til viðræðu við nefndina nokkrir þeir meginaðilar sem fjalla um þessi mál, bæði frá Húsnæðisstofnun, frá hinni þingkjörnu stjórn og eins frá aðilum vinnumarkaðarins. Og mér finnst eiginlega nauðsynlegt, þó ég ætli ekki að tala hér langt mál, að láta það koma fram að andstaðan við þessar breytingar er sterk í verkalýðshreyfingunni og hjá aðilum vinnumarkaðarins. Lýsingarnar sem fulltrúar þeirra gáfu nefndinni í morgun voru heldur ófagrar. (Gripið fram í.) Fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands lýstu því yfir að það hefði ekkert mark verið tekið á þeirra tillögum að því er varðar 1986-kerfið. Þrátt fyrir það að þeir hefðu lagt fram ítarlegar greinargerðir og tillögur um það mál þá hefði ekki verið hlustað á það. Sama sögðu raunar fulltrúar húsnæðismálastjórnar, og það kom fram að ekki er meiri hluti í stjórn Húsnæðisstofnunar, sem er þingkjörin, fyrir þeim breytingum sem hér eru lagðar til.
    Það verður að segjast eins og er að þegar maður

lítur á alvöru þessa máls í rólegheitum þá sætir furðu að það skuli koma í ljós nú á 75 ára afmæli Alþfl. að við skuli blasa sú staðreynd að flokkurinn, og þar á ég við ráðherra flokksins, hafi ekki minnstu tiltrú á aðilum vinnumarkaðarins. Það er ekkert samband við þá haft og ekkert tillit tekið til þeirra þrátt fyrir þá einföldu staðreynd að ef hætt væri að láta það fjármagn sem húsnæðiskerfið lifir á streyma í þessum farvegi, þ.e. að aðilar vinnumarkaðarins hættu að láta þetta fjármagn af hendi inn í húsnæðiskerfið, þá væri húsnæðiskerfið dautt. Svo einfalt er málið. Það kom fram hjá þessum aðilum að það er engin trygging fyrir því, núna þegar húsnæðiskerfið frá 1986 verður lagt niður, að lífeyrissjóðirnir í landinu láti sjálfkrafa fjármagn inn í þetta kerfi. Þetta fannst mér alvarleg staðreynd og gerir það að verkum að mér þótti eðlilegt að minnast á þetta hér til þess að vekja athygli hv. alþm. á því að þetta kerfi er í stórri hættu, húsnæðiskerfið í heild, miðað við þessa stöðu sem nú er til athugunar hjá aðilum vinnumarkaðarins þar sem gengið er gegn því kerfi sem þeir sömdu um við ríkisstjórn 1986 um að yrði samkomulagsatriði sem Alþingi hefur ekki tekið hreina afstöðu til fyrr en nú. Ég vara við þessu og veit að þetta getur haft alvarlegar afleiðingar þegar fram líða stundir.
    Virðulegi forseti. Það mætti halda langa ræðu um þetta atriði eitt og sér og þá furðulegu staðreynd að núv. ríkisstjórn og núv. hæstv. félmrh. neita að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins og gera ítrekaðar tillögur hér inni á hv. Alþingi til að þurrka út bein áhrif aðila vinnumarkaðarins á stjórn húsnæðismála í landinu. Sem betur fer hefur efri deild stöðvað frv. um stjórnkerfisbreytingu á Húsnæðisstofnun sem átti að knýja fram hér sem forgangsmál og bar það með sér að aðilar vinnumarkaðarins áttu ekki að fá aðild að húsnæðismálastjórn. Ég verð að segja að það er furðulegt að standa frammi fyrir því nú, eins og saga húsnæðismála hér á landi er, að það skuli vera beinlínis lagt til orustu við aðila vinnumarkaðarins sem ráða yfir öllu því fjármagni sem þetta kerfi, hvort sem það er byggt á gömlu eða nýju, byggir alla afkomu sína á. Ég skil satt að segja ekki að þeir aðilar, sem kenna sig við alþýðu þessa lands og hafa tekið þátt í því í áratugi að skapa grundvöll fyrir verkamannabústaðakerfið og félagslega íbúðakerfið, skuli ekki átta sig á því að þarna er grunnurinn sem þetta kerfi verður að byggja á. Ég hef sagt það oftar en einu sinni að lagabreyting í húsnæðiskerfinu, hvort sem hún er eins og hér er lagt til eða öðruvísi, nær ekki árangri hér á landi nema því aðeins að það sé gert í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Svo einfalt er fjárhagskerfi okkar að við höfum ekki annað að sækja nema því aðeins að menn vilji taka upp nýja siði og láta húsnæðismálin og þar með almenning í landinu fara yfir á almennan fjármagnsmarkað svo burðugur sem hann er hér á landi. Og það er alveg ljóst að það kerfi sem á að leysa kerfið frá 1986 af hólmi getur ekki komið að notum nema því aðeins að fara inn á þennan fjármagnsmarkað og þola þau afföll sem af slíkum bréfum eru. Ég þarf ekki að lýsa því hér fyrir þingheimi, það hefur komið oft fram hjá okkur áður í umræðunum, að þetta húsbréfakerfi er byggt upp allt öðruvísi en í öðrum löndum og þar af leiðandi algjörlega kastað í fangið á verðbréfamarkaði og peningamarkaðnum eins og hann getur verið í versta gervi. Við þetta á almenningur í landinu að búa nú á næstu tímum ef ekki verður gripið í taumana von bráðar.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður öllu lengur enda er það tilgangslaust. Það er búið að búa svo um hnútana að sjálfsagt verður engu hægt hér um að þoka. Ég hef leyft mér á þskj. 1085 að bera fram brtt. við frv. þar sem lagt er til að ákvæði til bráðabirgða I orðist þannig að þrátt fyrir ákvæði 1. -- 3. gr. og 5. -- 13. gr. laga þessara skuli ákvæði eldri laga um Byggingarsjóð ríkisins halda gildi sínu fram til 1. mars 1994.
    Tilgangurinn með þessari tillögu er fyrst og fremst sá að það gefist ráðrúm, viðtakandi ríkisstjórn skulum við segja, til að vinna upp húsnæðiskerfið í heild, auðvitað í samráði við aðila vinnumarkaðarins og finna möguleika til þess að almenningur í landinu verði ekki ofurseldur braski í sambandi við þessi mál, þ.e. að húsnæðismálin séu leyst með sérstökum tegundum af húsbréfum sem eiga enga forsögu annars staðar í heiminum og eru algjörlega háð afföllum og stöðu markaðarins hér á landi eins og hann er nú sterkur eða hitt þó heldur. Ég vil ekki horfa upp á það að almenningur í landinu eigi ekki annarra kosta völ en að fara inn í slíkt kerfi. Ég treysti því að hv. alþm. átti sig á hvað hér er um að ræða. Það hefur komið í ljós í viðtölum við aðila vinnumarkaðarins og nærri því undantekningarlítið alla þá aðila sem hafa sent inn umsagnir í hv. efri deild og komið hafa á fund félmn. efri deildar og nú neðri deildar í dag, að það eru allir uggandi um þessa niðurstöðu sem hér er að verða, að leggja þetta kerfi niður og búa við það öryggisleysi sem liggur fyrir eftir a.m.k. 10 -- 15 breytingar á húsnæðislöggjöfinni sem hafa verið hér í gangi á undanförnum tveimur til þremur árum sem öll hafa ruglað kerfið sitt á hvað þannig að starfsfólk og stjórnendur stofnunarinnar vita ekki sitt rjúkandi ráð í dag, hvernig raunveruleikinn er í þessum málum.
    Þetta er alvarlegt mál, herra forseti, og ég vænti þess að við atkvæðagreiðslu hér á eftir átti menn sig á alvöru þess. Og hvernig sem hún fer þá er alveg ljóst að það verður ekki liðinn nema stuttur tími frá því að ný ríkisstjórn tekur við, hver sem hún verður, hún verður að byrja á því enn á ný að stokka þessi mál öll upp að nýju ef ekki á illa að fara fyrir almenningi í þessu landi.