Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Það hefur nú eitthvað verið hert í skrúfunum á handjárnunum á stjórnarliðinu eftir því sem liðið hefur á kvöldið og daginn. Maður er nú vanur því að fá samþykktar góðar brtt. hér upp á síðkastið en eitthvað virðist það ætla að ganga illa í þetta sinn, heyrist mér, miðað við undirtektir það sem af er.
    Rétt til skýringar þá er tillagan um það að brott falli sú hugmynd að veita ríkisstjórninni heimild til þess að ákveða það að þegar íbúð gengur kaupum og sölum skuli vextirnir af láni því sem Byggingarsjóður ríkisins hefur veitt til viðkomandi íbúðar breytast eða hækka. Þetta er auðvitað alveg fráleit tillaga og margfalt betri leiðir til í þessu efni heldur en þessi, að mismuna fólki eftir því hvort það hafi nýkeypt íbúðina sína eða ekki. Ég segi já.