Grunnskóli
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Frsm. menntmn. (Ragnar Arnalds) :
    Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um breytingar þær sem hv. efri deild gerði á frv. til laga um grunnskóla. Það voru allmargar breytingar gerðar, í 12 liðum, og fór nefndin yfir þessar breytingar.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. með einni breytingu en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að fylgja eða flytja brtt.
    Þrjú atriði komu til umræðu í nefndinni. Í fyrsta lagi var það brtt. frá Geir H. Haarde um að 27. gr. 4. málsgr. orðist eins og segir í tillögunni: ,,Skólanefnd ákveður nafn skóla að höfðu samráði við menntmrn.`` Nefndin fellst á þessa tillögu og gerir hana að sinni og afhendi ég forseta hana til meðferðar.
    Það var nokkuð mikið rætt um það sem breyttist í efri deild og varðar 7. lið, sem er breyting við 45. gr. Sá liður hljóðar svo: ,,Komið skal á fót skólaathvörfum við hvern grunnskóla, þar sem þörf er á, þar sem nemendur geta dvalist utan kennslustunda. Til að standa straum af viðbótarkostnaði er heimilt að taka gjald fyrir dvöl nemenda í skólaathvörfum og skal upphæð gjaldsins ákveðin af skólastjóra í samráði við fræðslustjóra.`` Einn nefndarmanna, Ólafur Þ. Þórðarson, taldi að með þessu ákvæði væri verið að leggja gjöld á nemendur sem ekki stæðust stjórnarskrá og alþjóðlega sáttmála. Meiri hl. nefndarinnar féllst ekki á þetta sjónarmið og taldi rétt að láta þetta ákvæði standa óbreytt. Ólafur Þ. Þórðarson flytur tillögu um að þetta atriði falli niður.
    Ég vil taka það fram hvað mig sjálfan varðar að ég lít svo á að þarna sé ekki um að ræða skólagjald á einn eða annan hátt vegna þess að þegar nemandi er í því skólaathvarfi sem hér er nefnt þá er hann ekki lengur í skólanum, skólatíma er lokið og þarna er fyrst og fremst verið að greiða fyrir því að um einhverja gæslu geti verið að ræða þar sem þess er sérstaklega þörf. Með það í huga tel ég að þetta ákvæði brjóti í sjálfu sér ekki í bága við það sjónarmið að ekki skuli leggja gjöld á nemendur.
    Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég sagði hér áðan að nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt með einni breytingu, þ.e. með tillögu Geirs H. Haarde.