Grunnskóli
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki hug á að tefja þetta mál neitt en vil aðeins segja nokkur orð um þær brtt. sem liggja fyrir.
    Við fyrri umræðu um þetta frv. í deildinni vorum við kvennalistakonur tilbúnar að styðja frv. sem skref í rétta átt þó of skammt væri gengið að okkar mati. Nokkrar þær breytingar sem nú hafa verið gerðar á frv. eru til bóta að mínu áliti. T.d. sú breyting að fækka í bekk hjá sex ára börnum og að hafa skólaathvörf utan skólatíma. Einnig að skólanefndir geti sjálfar ákveðið heiti á skóla. Þó er ein breyting sem ég furða mig verulega á en það er brtt. við 17. gr. frv. Samkvæmt þeirri brtt. er ekki einu sinni heimilt að skipta stórum sveitarfélögum upp í skólahverfi eins og t.d. tillaga Geirs H. Haarde, sem lá fyrir þessari hv. deild við fyrri umræðu, gerir ráð fyrir. Þetta tel ég verulega slæmt frá lýðræðissjónarmiði og alls ekki í þeim anda að gera stjórn skólanna aðgengilega fyrir foreldra og þá sem þekkja einstaka skóla vel. Þar sem mér skilst að Sjálfstfl. geri þetta að úrslitaatriði hef ég ekki hug á að gera brtt. og mun styðja frv. eins og það liggur nú fyrir og þær brtt. sem menntmn. gerir.