Kosning í stjórnir og ráð
Miðvikudaginn 20. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sú kosning sem hér átti að fara fram á þessum fundi var fyrst á dagskrá fundar þann 4. mars sl. Höfum við kvennalistakonur ítrekað óskað eftir því að kosið yrði í þessar nefndir og ráð enda rennur umboð stjórnar Landsvirkjunar og orkuráðs út 1. júlí, Viðlagatryggingar 27. maí og Kísiliðjunnar hinn 20. apríl.
    Nú virðast þeir sem hér ráða ferðinni ganga út frá því að þing verði kallað saman fljótlega og segja reyndar að það liggi fyrir. Þetta þykja mér ný tíðindi. Þeir gera greinilega ráð fyrir því að það sé í þeirra valdi að ákveða það og reikna með að ekki verði aðrir en þeir sjálfir við stjórnvölinn eftir kosningar.
    Aðalástæðan virtist fyrst til að byrja með vera sú að ekki næðist samstaða innan ríkisstjórnarinnar um kosningu í þessi ráð og nefndir. En getur verið að sú samstaða, sem nú virðist hafa myndast milli flokkanna fjögurra sem hér eru, gegn því að það verði kosið tengist því að Kvennalistinn átti e.t.v. möguleika á að fá fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar? Er það það karlavígi sem ekki mátti hleypa okkur inn í?
    Mér þykir ekki stórmannlega að þessu máli staðið af hálfu þeirra sem ráða ferðinni. Gömlu flokkarnir fjórir standa saman um það að halda gömlu samtryggingunni áfram.