Kosning í stjórnir og ráð
Miðvikudaginn 20. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það væri verið að innleiða alveg nýja siði í starfsháttum Alþingis ef ekki yrði kosið eins og gert hefur verið ráð fyrir með auglýstri dagskrá dag eftir dag. Það liggur ekkert fyrir um það hvenær Alþingi verður kvatt saman til funda á ný. Ég minni á ummæli hæstv. forsrh. í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi, endurtekið í morgun, þar sem hann vísaði ýmist til hugsanlegs vorþings eða haustþings. Þeir hafa ekki verið kjörnir sem taka ákvarðanir um það hvenær þing verður kvatt saman. Það geta ekki verið nein vandræði að ganga til kosninga þó að einhverjir þingflokkar vilji ekki tilnefna menn til kjörs. Þá hljóta þeir að verða kjörnir sem tillögur koma fram um.
    Það sem er hér að gerast í raun er það að það er að myndast nýtt bandalag á Alþingi milli tveggja stjórnmálaflokka sem hafa verið í tilhugalífi hér undanfarnar vikur, Alþfl. og Sjálfstfl. Og Sjálfstfl. leggur svo mikið undir að hann rýfur samkomulag við hinn stjórnarandstöðuflokkinn til þess að krækja hér saman. Það er það sem er að gerast. Það eru þau pólitísku skilaboð sem ganga hér fram á þessum morgni.