Kosning í stjórnir og ráð
Miðvikudaginn 20. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Málin fara að verða flóknari og flóknari. Ég sat áðan niðri með öðrum formönnum þingflokka og þar var engin athugasemd gerð við það í herbergi forseta að út frá því væri gengið að þing yrði kallað saman að loknum þessum kosningum. Þær viðræður sem hafa farið fram um að fresta þeim kosningum sem við erum hér að tala um hafa verið á þeim grundvelli að þing yrði kallað saman á þessum vordögum. Það var í krafti þess sem formaður Alþb. stóð upp hér áðan og tók undir beiðni um frestun, en hefur greinilega talað fyrir daufum eyrum hæstv. landbrh., kannski ekki í fyrsta skipti.
    Það er nú svo að þessi mál skiptast í tvennt. Annars vegar erum við að tala um tvær þriggja manna stjórnir. Við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir til að láta kjósa í þær og teljum raunar sjálfsagt að kosið verði í stjórn Kísiliðjunnar. Hitt finnst okkur jafnsjálfsagt að það þing sem situr þegar stjórnarmenn taka umboð í Viðlagatryggingu og Landsvirkjun, sem situr næst þeim stjórnarskiptum, taki ákvörðun um hverjir sitji í stjórninni. Ég flutti málefnaleg rök fyrir því hér áðan og á þeim grundvelli, sem ég hygg að sé alveg ljós, að þingmenn ganga út frá því og vilji stjórnmálaflokka stendur til þess að þing verði kallað saman að loknum þessum kosningum.
    Hitt er svo bara það sem við sjálfstæðismenn höfum verið að horfa upp á þessa síðustu daga að það er komið svolítið fjaðrafok í stjórnarherbúðunum. Maður veit ekki alveg hvernig sá talar sem næstur tekur til máls. Eitt er samþykkt í dag og annað á morgun. Nú hittist þingflokkur Alþb. rétt áðan til að taka aðra ákvörðun en þingflokkur Alþb. hafði tekið þegar formaður hans talaði hér fyrr í dag. Þetta er það sem við höfum verið að sjá gerast. Ég hef í sjálfu sér engar athugasemdir við það að gera.