Þinglausnir
Miðvikudaginn 20. mars 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Handhafar valds forseta Íslands hafa ritað svofellt bréf:
    ,,Handhafar valds forseta Íslands samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar, forsætisráðherra, forseti sameinaðs Alþingis og forseti Hæstaréttar, gjöra kunnugt:
    Þar eð Alþingi er nú situr, 113. löggjafarþing, hefur samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944, ber samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar að rjúfa Alþingi nú þegar og stofna til almennra kosninga að nýju.
    Samkvæmt þessu er Alþingi hér með rofið frá og með 20. apríl 1991. Jafnframt er ákveðið að almennar kosningar til Alþingis skuli fara fram nefndan dag, laugardaginn 20. apríl 1991.
    Veitum vér hér með forsætisráðherra, Steingrími Hermannssyni, umboð til þess í voru nafni að slíta Alþingi, 113. löggjafarþingi, er það hefur lokið störfum.
Gjört í Reykjavík, 19. mars 1991.


Steingrímur Hermannsson, Guðrún Helgadóttir,

Guðrún Erlendsdóttir.


______________________
Steingrímur Hermannsson.

Bréf handhafa valds forseta Íslands um þingrof, almennar kosningar til Alþingis og þinglausnir.``

    Samkvæmt þessu bréfi sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir því að þessu þingi, sem nú hefur lokið störfum, er slitið.
    Forseti Íslands sem dvelur erlendis í opinberum erindum hefur beðið mig að flytja þingmönnum sérstaka kveðju sína.
    Ég óska jafnframt þingmönnum velfarnaðar, þjóðinni allra heilla og bið alþingismenn að minnast forseta Íslands og fósturjarðar vorrar, Íslands, með því að rísa úr sætum.