Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Við höfum orðið vitni að því, hv. þm., að hér séu lesin upp bréf sem fara á milli þingmanna og virðulegs forseta. Ég held að þetta sé nú allt að því einsdæmi í þingsögunni. Tilefnið var þingskapaumræða hér fyrir nokkrum dögum síðan, þingskapaumræða sem varð til af því að við nokkrir þingmenn óskuðum eftir því að við fengjum í hendur ákveðin gögn sem sjútvrn. hafði kynnt okkur. Ekki það að við færum að nota þau til þess að upplýsa hvern sem væri um það sem í þeim stæði, heldur til þess að við vinnu okkar í þinginu gætum við haft þessi gögn og gefið nauðsynlegar upplýsingar eða leitað nauðsynlegra upplýsinga í þeim gögnum.
    Á síðustu dögum hefur komið mjög greinilega í ljós þörf okkar til að hafa þessi gögn í höndum, ekki eingöngu vegna þess sem við höfum lýst hér áður til þess að geta upplýst ýmsa sem við okkur tala um þeirra eigin stöðu, heldur til þess að geta tekið þátt í þeirri umræðu sem hæstv. sjútvrh. hefur haldið uppi um þessi mál í fjölmiðlum og vítt um landið. Ég kem hér upp til þess að endurtaka þá ósk mína að við þingmenn í sjávarútvegsnefndum fáum þessi gögn í hendur til þess að við séum jafngildir hæstv. sjútvrh. þegar verið er að fjalla um þessi mál á fundum og í beinum viðtölum við þá aðila sem þessi mál snerta. Það er alveg fráleitt að þingmenn séu settir á lægri skör en hæstv. ráðherra sem hefur möguleika til að svara hverjum og einum um þessi mál þegar um þau er verið að fjalla og deila.