Dagpeningar ráðherra
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins segja tvennt. Í fyrsta lagi það að söguskoðun þessa máls er mér sko langt frá því að vera viðkvæm. Ég held að ég sé þó orðinn það þroskaður --- ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. er það --- að ég get litið á málin eins og þau standa í dag. Ég þarf ekkert að vera að veltast upp úr fortíðinni með það. Það er ákveðið vandamál hér til staðar sem þarf að taka á. Það breytir engu hvernig það varð til eða hverjir komu að því. Þetta hélt ég að forsætisráðherra þjóðarinnar hlyti að skilja svona einfaldan hlut. Ef hann þarf alltaf að leita aftur í Öldina okkar eða eitthvað slíkt til að taka ákvarðanir, þá gengur þetta nú ekki mjög hratt fyrir sig hér eins og við höfum reyndar orðið vör við.
    Ég vil hins vegar segja það að dagpeninga svona yfir höfuð á að leggja af. Hins vegar á að greiða allan útlagðan kostnað og menn geta lagt á móti sínum kostnaði nótur og eftir þeim á að greiða útlagðan kostnað.