Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 356 er till. til þál. um björgunarþyrlu. Tillögutextinn hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að á árinu 1991 verði gerður samningur um kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.``
    Þetta mál er flutt í annað sinn, var flutt á 110. löggjafarþingi og náði þá ekki fram að ganga óbreytt en var samþykkt með eftirfarandi texta, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera athugun á kostnaði við kaup og rekstur á björgunarþyrlu af bestu fáanlegri gerð fyrir Landhelgisgæsluna.``
    Síðan sá tillögutexti var samþykktur hefur ósköp lítið gerst annað en það að ég fylgdi þessari samþykkt Alþingis eftir á síðasta þingi og lagði þá fsp. til hæstv. dómsmrh. um málið. Kom þar fram að ósköp lítið hafði verið gert í málinu. Nú ber svo við að hæstv. dómsmrh. hefur lagt fram frv. um einhvers konar happadrætti. Ég man nú ekki hvaða titil það frv. ber, en út úr því happadrætti á ákveðinn hluti að renna til kaupa á björgunarþyrlu. Það er hins vegar alls óvíst hvort það frv. kemst í gegnum þingið, enda á það ekki að hafa nein áhrif á þá ákvörðunartöku sem hér er farið fram á að þingið taki. Í greinargerð segir m.a.:
    ,,Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu nauðsynleg öryggistæki þyrlur eru fyrir sjómenn. Má segja að þær séu nokkurs konar sjúkrabifreiðar sjómannsins.
    Stærri þyrla Landhelgisgæslunnar getur flogið um 150 sjómílur frá eldsneytisstað á haf út og bjargað sex mönnum. Hún hefur ekki afísingarbúnað frekar en aðrar sambærilegar þyrlur og ekki er hægt að setja slíkan búnað í hana. Þetta þýðir að þyrla, sem ekki er búin afísingarbúnaði, yrði að fljúga með ströndum fram um það bil 300 sjómílur á slysstað ef slys yrði á Hornströndum eða Húnaflóa að vetri til. Þyrla með afísingarbúnaði mundi hins vegar fara stystu leið frá Reykjavík sem er um það bil 90 sjómílur. Þyrlan, sem Landhelgisgæslan hefur núna, þyrfti að koma við á Ísafirði til eldsneytistöku og það tekur sinn tíma. Flugtími yrði því tvær klukkustundir og 40 mínútur. Væri vélin hins vegar búin afísingarbúnaði tæki flugið 42 mínútur.
    Ef slys yrði á svæðinu við Langanes gæti þyrla, sem ekki er með afísingarbúnaði, þurft að fljúga 410 sjómílur á slysstað. Það tæki þrjár klukkustundir og 35 mínútur, en þyrla með slíkum útbúnaði gæti flogið beint en það eru um það bil 230 sjómílur og tæki flugið um eina klukkustund og 50 mínútur.``
    Síðan er upptalning á íslenska skipaflotanum þar sem farið er yfir stærð skipanna og fjölda manna í áhöfn. Síðan segir:
    ,,Af þessari upptalningu sést að stærri þyrla Landhelgisgæslunnar ræður ekki við að bjarga heilum áhöfnum nema ef til vill af kaupskipi. Hún nýtist takmarkað til björgunaraðgerða vegna lítils flugþols og takmarkaðrar burðargetu.
    Það er því brýnt að þjóðin eignist sem fyrst björgunarþyrlu er sinnt geti sem allra best öryggismálum sjómanna. Það er jafnframt grundvallaratriði að þyrlan sé með afísingarbúnaði. Hún þarf að geta flogið um eða yfir 300 sjómílur frá eldsneytisstað á haf út. Enn fremur þarf hún að geta flutt allt að 20 manns miðað við þá fjarlægð.
    Það má ekkert spara þegar mannslíf eru í húfi. Í DV 19. okt. sl. er viðtal við tvo úr áhöfn björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar. Viðtalið hefst á eftirfarandi hátt:
    ,,Við erum búnir að vera á uppleið frá 1984 eftir að reksturinn var endurskipulagður og TF - Sif komst í gagnið. En þyrlan er nú farin að stoppa lengur vegna bilana og viðhalds. Útköllin eru orðin nærri 500 og að áliti lækna höfum við bjargað 74 mannslífum --- þar sem ekki var fræðilegur möguleiki á að önnur tæki hefðu getað komið til bjargar. Vegna aldurs þyrlunnar er kúrfan því farin að falla og nú þegar er brýnt að við fáum aðra þyrlu til viðbótar. Við óbreytt ástand getum við ekki haldið uppi sömu þjónustu og verið hefur. Við förum að standa á brauðfótum. Þyrlan hefur snúist um öryggi annarra --- nú er komið að öryggi okkar.``
    Afgreiðslutími fullnægjandi björgunarþyrlu er trúlega ekki skemmri en 18 mánuðir. Samþykkt þessarar tillögu ætti því ekki að raska fjárlögum ársins 1991 að neinu verulegu leyti.``
    Þegar þetta mál var flutt á 110. löggjafarþinginu fór það að sjálfsögðu til nefndar eins og önnur mál. Það var sent út til umsagnar og bárust nokkrar athyglisverðar umsagnir við þetta mál sem ég hyggst fá að kíkja aðeins á. Ég vil hins vegar taka það fram að allt síðan þá hafa verið áhugasamir hópar að störfum um þetta málefni og reynt að ná athygli ráðamanna fyrir nauðsyn þess og gildi fyrir þjóðfélagið að eiga fullkomna björgunarþyrlu. Því miður hafa raddir þeirra ekki náð eyrum ráðamanna nema e.t.v. mætti segja með því happadrættisfrv. sem hér hefur verið lagt fram og er vægast sagt mjög umdeilt frv.
    Áhugi almennings hefur verið mikill. Allmargir aðilar hafa farið út í fjársafnanir og undirskriftalistar hafa verið látnir ganga og sendir hingað í Alþingi, m.a. til mín og hv. þm. Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur sem var með mér á þessari þáltill. á 110. löggjafarþinginu.
    Það er einnig athyglisvert að þegar þetta mál var flutt árið 1987 tók m.a. til máls við 1. umr. hæstv. núv. samgrh. og landbrh. og sagði, með leyfi forseta: ,,Það er mér sönn ánægja að taka undir efni þessarar tillögu. Ég hafði sjálfur hugleitt það og við höfum rætt það í þingflokki Alþb. að taka með einhverjum hætti upp málefni Landhelgisgæslunnar, þá jafnvel í víðara samhengi en eingöngu hvað varðar flugvélakost hennar en þar er auðvitað brýnasta verkefnið sem oft hefur verið rætt um á undanförnum missirum að kaupa stærri og öflugri björgunarþyrlu. Ég held að enginn vilji hugsa þá hugsun til enda, sem atvik bjóða

upp á að gætu orðið, að vegna þess hversu núverandi þyrla Landhelgisgæslunnar er lítil gæti þurft að skilja eftir hluta áhafnar í bráðum lífsháska einfaldlega vegna þess að vélin bæri ekki alla áhöfnina. Það er engu að síður staðreynd sem menn verða þá að horfast í augu við að svoleiðis gæti komið upp á.
    Það er einnig mjög nauðsynlegt að fá hingað flugvél sem er tæknilega betur búin en sú sem við eigum nú. Þar er bæði um afísingarbúnað og reyndar ýmis fleiri tæki að ræða.``
    Síðan þetta var sagt hefur hv. þm. breyst í hæstv. og er orðinn ráðherra en ekkert hefur skeð. Hann er allt í einu kominn í valdaaðstöðu með málefni sem hann hefur stutt af heilum hug, þá alla vega, en ekki orð um það inni í ríkisstjórninni. Það er vissulega þörf ábending sem kemur fram frá hv. þm. um þann háska sem um er að ræða þegar flugmenn geta lent í því að þurfa að skilja eftir heilu eða hálfu áhafnirnar og ég trúi því ekki að óreyndu að stjórnvöld séu að bíða eftir stóra slysinu, bíða eftir að barnið detti ofan í brunninn áður en eitthvað verði gert. En því miður er ég hræddur um að það sé reyndin, það verði ekki fyrr en óhappið dynji yfir að stjórnvöld vakni af Þyrnirósarsvefni sínum. Það er hins vegar mín skoðun að verðmiða megi ekki setja á mannslíf, en það er svo sannarlega gert í þessu tilefni.
    Það hafa verið uppi hugmyndir undanfarið innan Landhelgisgæslunnar og þær hafa verið kynntar, þar sem fram kemur að Landhelgisgæslan, eða alla vega einstaka aðilar innan hennar, hafa skipt um skoðun, hafa snúið sér frá því að eignast stóra þyrlu með lengra flugþoli, meiri burðargetu og afísingarbúnaði út í það að vilja kaupa tvær nýjar þyrlur eins og stærri þyrla Landhelgisgæslunnar er núna. Þessu sjónarmiði er ég alfarið mótfallinn einfaldlega vegna þess að þá erum við enn með sama vandamálið uppi á borðinu. Ef við fáum ekki þyrlu með meiri burðargetu, lengra flugþoli og afísingarbúnaði erum við ekki að leysa þau vandamál sem við blasa. Hins vegar er það að sjálfsögðu alveg rétt hjá flugmönnum Landhelgisgæslunnar að þær þyrlur sem nú eru í eigu gæslunnar eru orðnar slitnar og þreyttar og þeim ber að skipta út. En það má ekki vera á kostnað framþróunar í öryggismálum sjómanna.
    Flugmálastjórn sendi frá sér ítarlega umsögn um málið á sínum tíma undirritaða af Pétri Einarssyni flugmálastjóra. Þar segir m.a., ef ég má grípa inn í miðja umsögn, með leyfi forseta:
    ,,Algert frumskilyrði við ákvarðanatöku er að átta sig á og ákveða hvaða verkefni á að vinna með þyrlu. Sú ákvörðun er ekki flugtæknilegs eðlis heldur pólitísk spurning um gildi mannslífs. Þyrlur hafa sannað gildi sitt sem áhrifarík björgunartæki við margvíslegar aðstæður og hafa smáþyrlur Landhelgisgæslunnar iðulega bjargað mannslífum. Ég tel að þyrlukost landsmanna eigi að miða við björgun af stærri fiskiskipum, þ.e. um 20 menn í einum flutningi, og flugi við ísingaraðstæður. Þá duga ekkert nema stærstu þyrlur sem kosta gífurlegt fé. Þyrluþjónustan þyrfti að vera rekin allan sólarhringinn og ná yfir Ísland allt og nærliggjandi mið. Þessum markmiðum verður ekki náð með færri en þremur stórum þyrlum sem hefðu bækistöðvar á suðvesturhorni landsins og Norður - eða Austurlandi. Þyrlurnar yrðu að vera þrjár svo að líkur væru á að alltaf væri ein tiltæk í hverri bækistöð.``
    Ég ætla ekki að fara dýpra í þessa umsögn þó að hún sé vissulega þess virði en tíminn er naumur í þingsköpum þegar umræður um þáltill. eru þannig að ég tími ekki að eyða meiri tíma í það. Hins vegar er það vissulega rétt sem fram kemur hjá flugmálastjóra að það þyrftu að vera fleiri en ein slík þyrla á landinu en ég held að við gerum okkur öll grein fyrir að það er of stór biti, alla vega fyrst um sinn, að ráðast út í.
    Landhelgisgæslan tekur einnig í sama streng og segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Í greinargerð með þáltill. er getið um tvö atriði sem björgunarþyrlan þarf að uppfylla:
    1. Þyrlan þarf að geta flogið um eða yfir 300 sjómílur frá eldsneytisstað á haf út og geta flutt allt að 20 manns miðað við þá fjarlægð.
    2. Grundvallaratriði er að þyrlan sé búin afísingarbúnaði.
    Þessi atriði einskorða val á þyrlu við gerðina Aero Spatial AS 332 L, Super Puma, sem þykir hafa frábæra flugeiginleika. Á undanförnum árum hafa flest ef ekki öll þyrlufyrirtæki við Norðursjó endurnýjað eða bætt við flugflota sinn þyrlum af þessari gerð.``
    Síðar í þeirra umsögn þar sem þeir hafa verið að fara yfir sjúkraflug og björgun mannslífa segir m.a., með leyfi forseta: ,,Eftirtektarverðast er þó að árið 1987 voru óafgreiddar beiðnir 16 og þar af 10 vegna fjarlægðar frá Reykjavík. Í flestum þessara tilfella var um að ræða beiðnir frá erlendum fiskiskipum langt suðvestur í hafi sem þyrlur frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli gátu sinnt en trúlega hefði einnig verið hægt að sinna þessum útköllum með þyrlu af gerðinni Super Puma ef hún hefði verið fyrir hendi.
    Vegna stærðarmunar og afkastagetu þyrlu af gerðinni Super Puma og TF - Sif er mjög erfitt að gera nokkurn samanburð á þeim því að þar er svo ólíku saman að jafna um burðargetu, öryggi áhafnar og sjúklings eða skipbrotsmanna. Vegna fjölgunar beiðna um björgunar- og sjúkraflug og vel heppnaðs reksturs TF - Sif hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar verulegar áhyggjur af því að áhöfn þyrlunnar freistist til að leggja í meiri áhættu en skynsamlegt má telja vegna takmörkunar á getu hennar þegar um lífshættu er að ræða. Landhelgisgæslan er því hlynnt kaupum á stærri og burðarmeiri þyrlu.``
    Einnig barst stuðningur frá Félagi ísl. atvinnuflugmanna sem ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að lesa. Ég ætla aðeins að fá að grípa hér ofan í umsögn Rannsóknanefndar sjóslysa, en þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Nefndin telur að æskilegt væri að Íslendingar ættu stóra og fullkomna björgunarþyrlu með afísingarbúnaði og öðrum fullkomnum tækjum sem nútímatækniþekking hefur upp á að bjóða. Væri jafnvel æskilegt að Íslendingar ættu fleiri en eina slíka flugvél ef sinna

á því hafsvæði sem Íslendingum er ætlað að sjá um til leitar og björgunar.`` Og síðan segir: ,,Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni getur stærri þyrla Landhelgisgæslunnar ekki bjargað heilli skipshöfn meðalskips í íslenska skipaflotanum í einni ferð. Slíkt mundi setja þá menn sem stjórna björgunaraðgerðum í mikinn vanda ef aðstaða verður þannig að gera yrði upp á milli manna, hverjum ætti að bjarga og hverjir þyrftu að taka áhættuna að hægt væri að fara aðra ferð með þyrluna til björgunar. Slíkt vandamál yrði ekki leyst með kaupum á einni þyrlu sem tæki 22 menn auk áhafnar eins og svonefndar Super Puma sem eru þær einu sem útbúnar eru afísingarbúnaði. Eftir sem áður yrðu nokkur skip þar sem fyrir fram yrði vitað að ekki yrði hægt að bjarga allri áhöfn þeirra í einni ferð þyrlunnar á neyðarstundu.``
    Hæstv. forseti. Ég tel að raddir þeirra sem þetta mál leggst hvað þyngst á beri að heyrast hér. Auðvitað hafa fjöldamargar umsagnir borist og m.a. ein frá Stýrimannaskólanum og þeim sem koma til með að stýra skipunum í framtíðinni. Er hún þess vissulega virði að gluggað yrði aðeins ofan í hana og ég fæ kannski að gera það í seinni ræðu minni.
    Hæstv. forseti. Ég læt máli mínu lokið en að lokinni umræðu óska ég þess að tillagan verði send hv. allshn.