Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé hreyft ákaflega mikilsverðu máli. Það er hættulegt starf að stunda sjóinn og því er ákaflega mikilvægt að útbúnaður til björgunar þegar sjóslys eiga sér stað sé eins góður og nokkur kostur er. Það er hæpið að spara fjármuni til nokkurs sem getur bjargað mannslífum. Mér finnst að fjölskyldur þeirra sem sjóinn stunda eigi kröfur á hendur samfélaginu um að allt sé gert til þess að hægt sé að bjarga mönnum úr sjávarháska þegar svo ber undir.
    Ég vil enn fremur taka undir það að Landhelgisgæslan er mjög mikilvæg stofnun og við eigum henni mikið að þakka í sambandi við útfærslu landhelgi okkar hér áður fyrr. Starfsmenn hennar lögðu sig í mikla hættu og gegna þýðingarmiklu hlutverki í dag varðandi eftirlit í fiskveiðilögsögunni. Það er ljóst að betur mætti gera við Landhelgisgæsluna þannig að hún gæti sinnt sínu hlutverki betur en nú er.
    Ég fagna þessari þáltill. og auðvitað vonum við að hún verði samþykkt því öryggismál sjómanna þurfa sífellt að vera í endurskoðun til þess að ná sem bestum árangri við að bjarga úr sjávarháska þegar svo ber undir.
    Enn fremur vil ég taka undir þau sjónarmið að okkur beri að athuga hvort ekki er hægt að hafa björgunarþyrlu staðsetta úti á landsbyggðinni. Þegar um björgunarstörf er að ræða tel ég líka sjálfsagt að ræða það í nefnd hvort eitthvert samstarf komi til greina við björgunarsveit varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Mér er kunnugt um að björgunarsveit varnarliðsins er að fá fjórar nýjar þyrlur á þessu ári og mér finnst fyllilega koma til greina að skoða þá hlið málsins, hvort um eitthvert samstarf geti orðið þar að ræða. Í sambandi við björgun mannslífa er það auðvitað alveg fullljóst að leita beri allra leiða til að ná hámarksárangri. Og ég þakka aftur flm. fyrir flutning þessarar till.