Sektir vegna mengunarbrota á hafnarsvæðum
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka fram komna tillögu og tek undir orð hv. flm. og síðasta ræðumanns um mengunarvarnir þá vil ég jafnframt segja að það er mjög mikilvægt að
reyna með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir mengun á sjó sem og á landi. Það er alveg ótækt að ekki skuli vera neytt allra þeirra ráða sem hægt er til að afla fjár til mengunarvarna og í rauninni alveg fullkomlega óskiljanlegt.
    Ég vona að þessi till. sem nú er komin fram verði til að ýta við málinu. Í fsp. sem ég lagði fyrir hæstv. umhvrh. þann 22. nóv. sl., um neyðaráætlun vegna olíuleka á sjó og á landi, vitnaði ég í orð Eyjólfs Magnússonar, fulltrúa í mengunardeild Siglingamálastofnunar, og vil gjarnan að þau komi einnig fram hér í þessari umræðu þar sem þau varða mjög sama mál. Hann hefur m.a. sagt að mikið vanti upp á að á Íslandi sé útbúnaður til að bregðast við olíuslysum af stærri gerðinni. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt. Ástæðuna tilgreinir hann fyrst og fremst fjárskort. Hann segir, með leyfi forseta: ,,Til þess vantar fjárveitingar fyrir tækjakaupum upp á tugi ef ekki hundruð milljóna króna. Fyrir því hefur ekki verið vilji hingað til enda þótt líta megi á nauðsyn þessa búnaðar svipuðum augum og nauðsyn þess að hafa slökkvilið ávallt í viðbragðsstöðu. Fáar þjóðir eru eins viðkvæmar og Íslendingar fyrir mengunarslysum í hafinu.``
    Mér þykir þetta auðvitað mjög alvarlegt og var því miður ekki að heyra á svari hæstv. umhvrh. að hann væri ýkja bjartsýnn á að það mundi takast að afla þess fjár sem þyrfti. Þeim mun furðulegra er þá að ekki skuli vera notaðar þær leiðir sem eru til fjármögnunar. Ef ég aðeins vitna í svar hæstv. umhvrh. þá sagði hann: ,,Við endurskoðun hafnalaga frá árinu 1984 var til að auðvelda höfnum að eignast olíumengunarvarnabúnað tekið inn ákvæði um að ríkissjóður greiði allt að 75% af stofnkostnaði við mengunarvarnir hafna. Þrátt fyrir þetta ákvæði hafnalaga um að ríkisframlagið nemi allt að 75% hefur gengið mjög hægt að fá hafnir landsins til að afla þessa búnaðar. Einkum er borið við að búnaðurinn sé dýr og fjárskortur hrjái hafnirnar.``
    Þetta sýnir betur en margt annað að það ber að reyna að nýta alla þá fjáröflun sem hægt er og maður hlýtur að undrast að það skuli ekki hafa verið gert nú þegar. Ég vona að efni þessarar till. nái fram að ganga og jafnframt að tekið verði fastar á mengun á sjó og landi heldur en gert hefur verið til þessa.