Ferill 36. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 36 . mál.


Nd.

36. Frumvarp til lagaum skaðsemisábyrgð.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)Gildissvið.


1. gr.


     Lög þessi gilda um skaðabótaábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila á tjóni sem hlýst af ágalla á vöru sem þeir hafa framleitt eða dreift (skaðsemistjóni).

Tjón sem lögin taka til.


2. gr.


     Samkvæmt lögum þessum skal greiða bætur vegna líkamstjóns og fyrir missi framfæranda.
     Einnig skal greiða bætur fyrir tjón á hlut ef hann er samkvæmt gerð sinni venjulega ætlaður til einkanota, enda hafi sá er fyrir tjóni varð aðallega haft hlutinn til einkanota. Lögin taka ekki til skemmda á hinni gölluðu vöru sem tjón hlaust af.

Hugtakið vara.


3. gr.


     Orðið vara í lögum þessum merkir hvers kyns lausafjármuni, þar á meðal afurðir náttúrunnar. Til vöru teljast einnig munir sem orðnir eru hluti annars lausafjárhlutar eða fasteignar. Reglur laga þessara gilda einnig um rafmagn.

Framleiðandi og dreifingaraðili.


4. gr.


     Framleiðandi telst vera sá sem býr til fullunna vöru; einnig sá sem býr til hluta vöru eða lætur af hendi hráefni og sá er vinnur eða aflar afurða úr náttúrunni. Enn fremur hver sem lætur líta svo út að hann sé framleiðandi með því að setja nafn sitt á vöru, vörumerki eða annað auðkenni.
     Auk þess skal hver sá teljast framleiðandi sem í atvinnuskyni flytur vöru til landsins í þeim tilgangi að selja hana, leigja eða versla með hana á annan hátt.
     Dreifingaraðili telst hver sá sem í atvinnuskyni dreifir vöru án þess að teljast framleiðandi.
     Geti tjónþoli ekki komist að því hver hefur búið til vöru sem framleidd er hér á landi eða flutt vöru til landsins skal sérhver dreifingaraðili hennar teljast framleiðandi.
     Þetta á þó ekki við ef dreifingaraðili skýrir þeim sem fyrir tjóni varð án óþarfs dráttar frá nafni og heimilisfangi framleiðanda, innflytjanda eða þess sem afhent hefur dreifingaraðila vöruna, enda beri sá bótaábyrgð eftir lögum þessum og eigi varnarþing hér á landi.

Hugtakið ágalli.


5. gr.


     Vara telst haldin ágalla þegar hún er ekki svo örugg sem með réttu mátti vænta eftir öllum aðstæðum, einkum eftirfarandi:
     Hvernig hún var boðin og kynnt.
     Notkun þeirri sem með sanngirni mátti gera ráð fyrir.
     Hvenær vöru var dreift.
     Vara telst eigi haldin ágalla þó að síðar komi betri vara á markað.

Grundvöllur bótaábyrgðar framleiðanda.


6. gr.


     Framleiðandi skal greiða bætur fyrir tjón sem rakið verður til ágalla á vöru sem hann hefur framleitt eða dreift.
     Tjónþola ber að sanna tjón sitt, ágalla vöru og orsakatengsl milli ágalla og tjóns.


Atvik sem leysa framleiðanda undan ábyrgð.


7. gr.


     Framleiðandi ber ekki ábyrgð eftir lögum þessum ef hann sannar:
     að hann hafi ekki dreift vöru þeirri, sem tjón hlaust af,
     að framleiðsla eða dreifing vöru hafi eigi verið í atvinnuskyni,
     að ágalli vöru verður rakinn til ófrávíkjanlegra fyrirmæla hins opinbera um gerð hennar eða
     að ekki var unnt að finna ágallann á grundvelli fræðilegrar eða tæknilegrar þekkingar sem völ var á þegar vöru var dreift.
     Enn fremur ber framleiðandi ekki ábyrgð ef ætla má að ágalli sá, er tjón varð rakið til, hafi eigi verið fyrir hendi þegar hann dreifði vöru.
     Framleiðandi einstaks hlutar, sem notaður er til annarrar framleiðslu, er ekki ábyrgur ef hann leiðir í ljós að ágallinn verður rakinn til gerðar hinnar fullunnu vöru eða fyrirmæla þess sem býr hana til.

Takmörkuð ábyrgð.


8. gr.


     Samanlögð ábyrgð framleiðanda vegna líkamstjóns, þar á meðal dauðaslyss er rakið verður til vöru sem er nákvæmlega eins og haldin sama ágalla, skal takmarkast við fjárhæð sem svarar til 70 milljóna Evrópureikningseininga (ECU).

Eigin sök tjónþola.


9. gr.


     Heimilt er að lækka eða fella niður bætur ef tjónþoli er meðvaldur að tjóni af ásetningi eða gáleysi.

Ábyrgð dreifingaraðila.


10. gr.


     Dreifingaraðili ber ábyrgð á skaðsemistjóni beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum.

Fleiri en einn bótaábyrgir. Framkröfur.


11. gr.


     Nú eru tveir eða fleiri bótaskyldir eftir þessum lögum vegna sama tjóns og bera þeir þá óskipta ábyrgð.
     Séu tveir eða fleiri ábyrgir sem framleiðendur skv. 1. mgr. 4. gr. skal ábyrgð þeirra innbyrðis skiptast eftir því hver orsök ágallans var, hverja aðstöðu hver framleiðandi hafði til að hafa eftirlit með vöru, ábyrgðartryggingum sem aðilar höfðu og atvikum að öðru leyti, enda leiði eigi annað af samningi.
     Hafi dreifingaraðili eða framleiðandi skv. 2. eða 4. mgr. 4. gr. greitt tjónþola eða síðari dreifingaraðila bætur eignast hann kröfu tjónþola á hendur framleiðendum og dreifingaraðilum er áður dreifðu vöru. Framkröfuna má fella niður eða lækka ef sá er endurgreiðslu krefst var meðvaldur að tjóni af ásetningi eða gáleysi.

Bann við að víkja frá lögunum með

samningi.

12. gr.


     Eigi má, áður en tjón verður, víkja með samningi frá ákvæðum laga þessara tjónþola í óhag eða þeim sem öðlast rétt sinn frá honum.

Almennar skaðabótareglur.


13. gr.


     Lög þessi takmarka eigi rétt tjónþola til bóta eftir almennum reglum um skaðabætur innan eða utan samninga eða samkvæmt reglum í öðrum lögum. Ákvæði 14. gr. eiga þó við um kröfur um bætur fyrir skaðsemistjón þótt krafa sé gerð á grundvelli almennra reglna um skaðabætur innan eða utan samninga.Fyrning.


14. gr.


     Kröfur um bætur fyrir skaðsemistjón eftir þessum lögum eða eftir almennum reglum um skaðabætur innan eða utan samninga, sbr. 13. gr., fyrnast þegar þrjú ár eru liðin frá þeim degi er tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt, ágalla vörunnar og nafn og dvalarstað framleiðanda þess sem í hlut á.
     Sé krafa ekki fyrnd eftir reglum 1. mgr. fellur hún niður þegar tíu ár eru liðin frá þeim degi er framleiðandi dreifði vöru þeirri sem tjón hlaust af.
     Um slit fyrningar samkvæmt þessari grein fer eftir almennun réttarreglum um fyrningu.

Gildistaka.


15. gr.


     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992.
     Lögin eiga ekki við um tjón er hlýst af vöru sem framleiðandi dreifir fyrir gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


     Frumvarp þetta er samið að frumkvæði viðskiptaráðuneytisins af Jóni Finnbjörnssyni héraðsdómara og Arnljóti Björnssyni prófessor. Frumvarpið er í samræmi við frumvarp sama efnis sem lagt var fram á 112. löggjafarþingi 1989 1990, en á því hafa verið gerðar nokkrar lagfæringar og breytingar í samræmi við athugasemdir sem komið hafa fram við frumvarpið. Eftirfarandi eru nýjar athugasemdir við frumvarpið og hafa þær verið gerðar fyllri en hinar fyrri.
     Frumvarpinu er ætlað að efla neytendavernd og samræma íslensk lög á þessu sviði löggjöf annarra EFTA-ríkja og ríkja Evrópubandalagsins.
     Frumvarpið fjallar um skaðsemisábyrgð. Skaðsemisábyrgð er tveggja til þriggja ára gamalt nýyrði í íslensku og merkir skaðabótaskyldu framleiðanda eða seljanda vegna skaðlegra (hættulegra) eiginleika söluhlutar. Skaðsemisábyrgð nefnist á norðurlandamálum „produktansvar“, á ensku „product liability“ og á þýsku „Produktenhaftpflicht“ eða „Produkthaftung“. Nánar tiltekið er hér um að ræða skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem hlýst á mönnum eða munum af völdum skaðlegra eiginleika söluvöru við notkun hennar, neyslu eða geymslu, þ.e. yfirleitt eftir að varan er komin úr vörslu framleiðanda (eða seljanda).
     Skaðsemisábyrgð er réttarsvið sem þróast hefur ört á Vesturlöndum á síðustu áratugum. Fylgir þessi þróun í kjölfar aukinnar verslunar og fjöldaframleiðslu iðnaðarvöru.
     Að undanförnu hafa mörg ríki Vestur-Evrópu sett lög um skaðsemisábyrgð. Ríki Evrópubandalagsins eru í þessu efni bundin af tilskipun ráðs bandalagsins frá 25. júlí 1985, en tilskipunin mælir fyrir um samræmda löggjöf aðildarríkjanna á þessu sviði. Hafa allmörg þeirra þegar sett lög um efnið, en í öðrum aðildarríkjum er löggjöf í undirbúningi. Þá hafa öll ríki EFTA, að Íslandi undanskildu, sett slíka löggjöf eða eru í þann mund að gera það. Lög EFTA-ríkjanna hafa mjög tekið mið af löggjöf ríkja Evrópubandalagsins. Í Noregi voru t.d. nýlega sett lög sem eru í verulegu samræmi við lög Evrópubandalagsríkja (lög nr. 104 frá 23. desember 1988).
     Sum ríki hafa sett sérstakar reglur um tjón af völdum lyfja. Eru þær með ýmsu móti. Í frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir neinum sérreglum um lyf.
     Frumvarpið er sniðið eftir lögum Evrópubandalagsríkjanna. Er efni og uppsetning frumvarpsins að mestu í samræmi við dönsku lögin um skaðsemisábyrgð (nr. 371 frá 7. júní 1989), en þess er áður getið að tilgangur frumvarpsins er m.a. að samræma íslenskar réttarreglur um skaðsemisábyrgð lögum annarra Evrópuríkja. Færa má margvísleg rök fyrir nauðsyn þess. Mikill hluti útflutnings Íslendinga fer til landa í Vestur-Evrópu og innflutningur er einnig mikill frá þessum löndum. Það er til þess fallið að greiða fyrir viðskiptum Íslendinga á Evrópumarkaði ef íslensk viðskiptalöggjöf er reist á sömu meginreglum og gilda annars staðar í álfunni. Verulega takmarkaðri ábyrgð íslenskra framleiðenda mundi síst styrkja samkeppnisstöðu íslenskra útflytjenda. Slíkur munur á réttarreglum gæti jafnvel spillt fyrir útflutningsviðskiptum landsmanna.

Almennt um gildissvið frumvarpsins.


    Framleiðandi og aðrir geta bakað sér refsiábyrgð ef slys eða skemmdir hljótast af gölluðum hlut. Í ýmsum öðrum tilvikum getur refsiábyrgð fallið á menn vegna skaðlegra eiginleika hlutar. Frumvarp þetta varðar aðeins skaðabótaábyrgð. Í því er ekkert kveðið á um refsiviðurlög. Um refsingar og önnur viðurlög við afbrotum á þessu sviði fer eftir almennum hegningarlögum eða sérstökum refsiákvæðum í öðrum lögum.
     Gildissvið frumvarpsins er takmarkað við tjón sem annaðhvort verður rakið til slyss á mönnum eða þess að hlutur skemmist eða fer forgörðum. Ekki ná reglur frumvarpsins þó til tjóns á hvaða munum sem er. Reglur þess taka aðeins til muna sem tjónþoli hefur aðallega til einkanota og sem eru venjulega ætlaðir til einkanota, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Hér er um að ræða muni í eigu neytenda. Verði frumvarpið að lögum verður reglum laganna ekki beitt um tjón á neinum öðrum munum en þeim sem um getur í 2. mgr. 2. gr. Þessi takmörkun á gildissviði frumvarpsins hefur það í för með sér að núgildandi bótareglur eiga áfram við um tjón á hlutum sem ætlaðir eru til sölu eða nota í atvinnurekstri. Tjón á slíkum munum eru í reynd fleiri og oft stærri en tjón á munum neytenda.
     Frumvarp þetta tekur ekki til bótaábyrgðar vegna skemmda á söluhlutnum sjálfum sem í frumvarpinu er nefndur vara, sbr. 3. gr. Um hana fer eftir skaðabótareglum kauparéttar, einkum lögum nr. 39/1922, um lausafjárkaup, sem venjulega ganga undir nafninu kaupalögin. Í þeim eru ítarlegar reglur um réttarstöðu aðila kaupsamnings þegar seldum hlut er áfátt, þ.e. vegna þeirrar vanefndar sem oftast er nefnd galli. Er almennt talið að bótareglur kaupalaga um ábyrgð vegna galla eigi ekki við um tjón sem rakið verður til skaðlegra eiginleika vöru. Tjón það, sem frumvarpið fjallar um, er frábrugðið tjóni vegna vanefnda sem reglur kaupalaga taka til, að því leyti að tjónsatburður verður með þeim hætti að menn eða munir komast í snertingu við vöru.
     Til þess að leggja áherslu á að gallahugtak kaupalaga er ekki hið sama og hugtakið galli eftir reglum um skaðsemisábyrgð er heitið ágalli notað í þessu frumvarpi, sbr. 5. gr. og athugasemdir við hana.
     Hugtakið vara tekur samkvæmt frumvarpinu ekki til þjónustu. Verkfræðingur eða arkitekt mundi t.d. ekki bera ábyrgð eftir lögunum vegna slyss sem rakið yrði til rangrar hönnunar mannvirkis ef hönnuðurinn hefur ekki látið annað af hendi en þjónustu.
     Fjölmörg dæmi eru um skaðsemistjón sem frumvarpið tekur til, sbr. 1. gr. Skemmdar matvörur eða gölluð lyf geta valdið heilsutjóni. Sama á við um vélar, tæki og áhöld sem slys hlýst af vegna bilunar eða vanbúnaðar. Ýmiss konar vörur geta valdið spjöllum á öðrum munum, svo sem byggingarvörur, t.d. lím, þéttiefni eða sement sem vegna einhverra annmarka veldur skemmdum þegar það er notað með öðru byggingarefni.
     Þeir sem bótaábyrgð bera eftir reglum frumvarpsins eru framleiðandi, sjá nánari skilgreiningu í 4. gr., og sá sem dreifir vöru, sbr. nánar 4. gr. Sögnin að dreifa er í frumvarpinu notuð um það að láta vöru af hendi í atvinnuskyni, þ.e. koma henni í umferð eða á framfæri við neytanda eða dreifingaraðila, með því að selja hana eða leigja eða með öðrum sambærilegum hætti.
     Frumvarpið tekur hins vegar ekki til þeirra sem láta vörur af hendi ef það er ekki gert í atvinnuskyni. Maður, sem selur notaða bifreið af því að hann hefur keypt sér nýja, ber ekki ábyrgð eftir frumvarpinu þótt kaupandi slasist vegna galla í bifreiðinni. Sama á við í öðrum tilvikum þar sem hlutur er ekki afhentur í atvinnuskyni, t.d. þegar slys hlýst af bilun heimilistækis sem einstaklingur gefur eða lánar þeim sem fyrir tjóni verður.
     Seljandi, sem er dreifingaraðili í merkingu 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins og greitt hefur tjónþola bætur, á yfirleitt framkröfu (endurkröfu) á hendur framleiðanda eða þeim dreifingaraðila sem sá fyrstnefndi keypti vöru af.
     Eftir frumvarpinu er það ekki aðeins kaupandi vöru sem getur átt bótarétt, heldur hver sá er verður fyrir tjóni vegna varnings sem haldinn er ágalla. Hér má t.d. nefna fjölskyldu kaupanda, starfsmenn hans, viðskiptavini hans og aðra er nota vöru þá sem tjón verður rakið til. Af þessu er ljóst að eftir frumvarpinu er það ekki skilyrði bótaábyrgðar að tjónþoli hafi tekið við hinni skaðlegu vöru frá þeim sem hann krefur bóta. Reglur frumvarpsins eiga með öðrum orðum einnig við um bótakröfur tjónþola á hendur aðilum sem hann er ekki í neinum samningstengslum við.

Núgildandi íslenskar réttarreglur.


    Í íslenskum lögum, er nú gilda, eru engin bein ákvæði um skaðsemisábyrgð. Einstök lagaákvæði geta þó í sumum tilvikum tekið til tjóns sem hlýst af skaðlegum eiginleikum vöru, t.d. bótaákvæði umferðarlaga, nr. 50/1987 og laga um loftferðir, nr. 34/1964. Samkvæmt þeim getur t.d. sá sem lendir í bifreiðarslysi eða flugslysi vegna bilunar í farartæki átt skaðabótakröfu á hendur eiganda tækisins eða öðrum sem ber ábyrgð á tækinu.
     Þau lagaákvæði, sem geta í einstökum tilvikum átt við um skaðsemistjón, eru þó svo fá og brotakennd að ekki verður annað sagt en að núgildandi reglur íslensks réttar um skaðsemisábyrgð séu ólögfestar. Reglurnar er fyrst og fremst að finna í fordæmum dómstóla.
     Sá sem verður fyrir tjóni vegna slyss eða skemmda á munum sakir skaðlegra eiginleika vöru getur reist rétt á almennum skaðabótareglum. Hann á bótakröfu ef honum tekst að sanna að tjón hans verður rakið til ásetnings eða gáleysis þess sem hann krefur bóta, eða sakar manns er sá síðarnefndi ber ábyrgð á. Samkvæmt almennum skaðabótareglum er sök (ásetningur eða gáleysi) skilyrði fyrir bótaskyldu.
     Samningur getur leitt til þess að ábyrgð á skaðsemistjóni verði með öðrum hætti en eftir almennum skaðabótareglum. Frávik samkvæmt samningi geta ýmist gert bótaábyrgð framleiðanda eða seljanda víðtækari eða þrengri en almennt gerist. Lagafrumvarp þetta varðar bótareglur utan samninga. Í frumvarpinu felst bann gegn því að víkja með samningi frá reglum þess tjónþola í óhag, sbr. 12. gr. Jafnframt segir í frumvarpinu að lögin takmarki ekki rétt tjónþola til að krefjast skaðabóta eftir samningi, sbr. 13. gr.
     Af íslenskum dómum má ráða að tjónþoli geti átt bótarétt eftir reglum sem ganga lengra en almennar skaðabótareglur, ýmist þannig að dómarar gera ríkari kröfur til aðgæslu framleiðenda og seljenda, slaka á kröfum til sönnunar af hálfu tjónþola eða fella svonefnda hlutlæga ábyrgð á framleiðanda eða seljanda. Hlutlæg ábyrgð er nefnd öðru nafni ábyrgð án sakar, en í henni felst að bótaskylda stofnast án tillits til þess hvort „tjónvaldur“ á sök á tjóni. Víðtæk ábyrgð vegna skaðsemistjóns hefur verið látin ná til tjóns sem almennur neytandi verður fyrir af völdum iðnaðarvarnings eða vöru sem seld er neytanda í venjulegum verslunarrekstri. Slík ábyrgð yrði síður lögð á þegar tjón hlýst af skaðlegum eiginleikum hlutar er gengur kaupum og sölum milli einstaklinga þegar kaup eru ekki gerð í atvinnuskyni.
     Hér er ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir þeim réttarreglum er nú gilda á Íslandi um skaðsemisábyrgð. Rétt er að taka skýrt fram að enda þótt fullyrða megi í meginatriðum hvaða ólögfestar reglur gildi nú um skaðsemisábyrgð hér á landi er langt frá því að dómar hafi fallið um öll atriði sem máli skipta um réttarstöðu þess sem bíður tjón sökum hættulegra eiginleika vöru.

Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu.


     Verði frumvarpið samþykkt verða í fyrsta sinn til skýrar almennar reglur um skaðsemisábyrgð í settum íslenskum lögum.
     Frumvarpið felur ekki í sér stórvægilegar breytingar frá þeim reglum sem ætla má að íslenskir dómstólar beiti án sérstakrar heimildar í settum lögum. Núgildandi reglur eru myndaðar af dómstólum og eru, svo sem fyrr var vikið að, alls ekki tæmandi og að ýmsu leyti óljósar. Samanburður á frumvarpinu og ólögfestum reglum íslensks réttar verður því vitanlega ófullkominn.
     Í frumvarpinu er tæmandi talning á þeim hópum manna og ópersónulegra aðila sem borið geta skaðsemisábyrgð eftir reglum frumvarpsins. Ætla verður að þessi hópur sé nokkurn veginn sá sami og samkvæmt núgildandi reglum.
     Grundvöllur bótaskyldu er samkvæmt frumvarpinu alltaf regla um ábyrgð án sakar (hlutlæg bótaábyrgð). Þó hér sé gengið nokkru lengra en ætla má að nú yrði gert í öllum tilvikum verður ekki talið að það skipti miklu máli vegna þess að samkvæmt ríkjandi viðhorfum bera framleiðendur og seljendur yfirleitt víðtæka ábyrgð á skaðsemistjóni þó að eigi sé alltaf um að ræða hreina hlutlæga ábyrgð.
     Í 7. gr. frumvarpsins eru hlutlægri ábyrgð settar vissar skorður. Eru þær flestar í samræmi við ríkjandi sjónarmið í fræðum um skaðsemisábyrgð.
     Eitt mikilvægasta álitaefni varðandi reglur um skaðsemisábyrgð er hvernig afmarka á hugtakið ágalli . Í 5. gr. frumvarpsins eru reglur sem fara skal eftir þegar metið er hvort vara sé haldin ágalla. Eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að setja tæmandi reglu um þetta. Endanlegt mat á því hvort um ágalla sé að ræða verður því eins og áður í höndum dómstóla.
     Í frumvarpinu er slegið föstu hvaða reglur skuli gilda um framkröfu (endurkröfurétt) og skiptingu ábyrgðar milli aðila sem bera ábyrgð á sama tjóni. Nú ríkir nokkur óvissa um þetta.
     Eitt veigamesta nýmæli frumvarpsins er bann 12. gr. gegn því að víkja með samningi frá skaðabótareglum þess þannig að réttur tjónþola verði minni en þær veita. Frumvarpið tryggir tjónþola því lágmarksrétt sem ekki má skerða með samningum áður en tjón verður. Álíta verður að frumvarpið nái ekki þeim tilgangi sínum að veita neytendum eðlilega vernd ef þetta nýmæli væri ekki í því. Nú hafa menn hins vegar víðtækt frelsi til þess að semja um bótaskyldu og kröfur vegna skaðsemistjóns. Eftir frumvarpinu ríkir samningsfrelsi um kröfur eftir að tjón hefur borið að höndum. Er það talin sanngjörn regla sem heftir ekki rétt neytanda óeðlilega.
     Nýjar fyrningarreglur eru í frumvarpinu. Eigi er þó lagt til að breyting verði á réttarreglum um slit fyrningar. Fyrningarreglur þær, sem hér er gerð tillaga um, eiga við um allar kröfur vegna skaðsemistjóns. Rök fyrir því, að lagt er til að fyrningarreglum verði breytt, er að finna í athugasemdum við 13. og 14. gr.
     Auk þess skal tekið fram að telja verður fyrningarreglur frumvarpsins eðlilegri og skýrari en reglur þær sem nú gilda. Sérstaklega skal vakin athygli á því nýmæli að upphaf þriggja ára fyrningarfrests 1. mgr. 14. gr. miðast við þann tíma sem tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt, ágalla vöru og nafn og dvalarstað framleiðanda. Veitir regla þessi tjónþola mikilvægan rétt sem honum er ekki tryggður nú með skýru ákvæði í settum lögum. Stytting fyrningarfrests í þrjú ár er óveruleg í samanburði við það aukna hagræði sem fylgir því að fyrningarfrestur hefjist ekki fyrr en tjónþoli fékk eða átti að fá vitneskju um tjón sitt.
     Nú ríkir nokkur óvissa um ýmis atriði fyrningarreglna. Reglur fyrningarlaga, nr. 14/1905, taka ekki alltaf af skarið um álitaefni sem upp koma varðandi fyrningu skaðabótakrafna. Hér skal lögð áhersla á að umræður um æskilegar breytingar á reglum fyrningarlaga, nr. 14/1905, mega ekki verða til þess að eigi sé unnt að koma fram mikilvægum nýmælum sem auka rétt neytanda til þess að gera kröfu um bætur fyrir skaðsemistjón.
     Í 13. gr. frumvarpsins er kveðið svo á að lögin takmarki ekki rétt tjónþola til skaðabóta eftir almennum reglum. Grein þessi hefur í för með sér að þótt frumvarpið verði samþykkt getur tjónþoli reist bótakröfu á ólögfestum reglum. Ein undantekning er þó gerð í 2. málsl. 13. gr. Hún er sú að tjónþoli getur ekki byggt á öðrum fyrningarreglum en lagðar eru til í frumvarpinu. Kann það í einhverjum tilvikum að rýra rétt tjónþola frá því sem nú er. Á móti kemur rýmkun á fyrningarreglum tjónþola í hag, svo sem skýrt er annars staðar í athugasemdum þessum.
     Ekki er sennilegt að þeir tjónþolar, sem frumvarpið tekur til, komi til með að nota sér mikið ákvæði 13. gr. um heimild til að byggja á almennum skaðabótareglum. Kemur þar einkum tvennt til. Í fyrsta lagi veitir frumvarpið tjónþola yfirleitt mjög góða réttarstöðu. Í öðru lagi er líklegt að oft muni tjónþola reynast erfitt að að sýna fram á að núgildandi reglur veiti betri bótarétt en ákvæði frumvarpsins. Samt sem áður er 13. gr. tekin upp í frumvarpið að danskri fyrirmynd. Rök fyrir því eru einkum þau að á þann hátt sé tryggt að lögfesting frumvarpsins veiti neytendum ekki lakari vernd en þeir eiga nú eftir ólögfestum skaðabótareglum. Auk þess skal minnt á að skaðabótareglur, sem nú gilda, eiga við um kröfur eigenda muna sem reglur frumvarpsins taka ekki til, sbr. 2. mgr. 2. gr. Eigendur slíkra muna geta að sjálfsögðu ekki notað bótaúrræði frumvarpsins.
     Í frumvarpinu eru hvorki ákvæði um sönnunarmat eða sönnunarbyrði né hvernig ákveða skuli fjárhæð bóta eða meta tjón til fjár. Um það fer því samkvæmt almennum ólögfestum reglum þótt frumvarpið verði að lögum.
     Ekki er nú tekin upp í frumvarpið regla dönsku laganna og tilskipunar Evrópubandalagsins um að sá sem verður fyrir tjóni á munum beri í eigin áhættu fjárhæð sem svarar til 500 ECU (reikningseiningar Evrópubandalagsins). Slíkt ákvæði er andstætt núgildandi bótareglum hér á landi og mundi takmarka rétt þann sem neytendur hafa að núgildandi lögum. Hins vegar skiptir slík eigin áhætta hinn bótaskylda almennt litlu máli.

Helstu rök fyrir bótareglum frumvarpsins.


     Í upphafi athugasemda þessara segir að frumvarpinu sé ætlað að efla neytendavernd og samræma íslensk lög á þessu sviði löggjöf annarra ríkja Evrópu. Er síðan leitast við að rökstyðja í stuttu máli hvað mælir með samræmingu lagareglna á þessu sviði.
     Hér skal áréttað að mikið hagræði felst í því að lögfesta reglur á þessu sviði vegna þess að talsverð óvissa fylgir því að hafa ekki annað en ólögfestar reglur til þess að styðjast við.
     Rök með aukinni neytendavernd eru alkunn og verða þau ekki talin hér. Hins vegar þykir nú rétt að víkja sérstaklega að röksemdum fyrir víðtækri bótaábyrgð á því sviði sem frumvarpið fjallar um.
     Áður er komið fram að tjónþoli getur átt rétt til bóta fyrir skaðsemistjón eftir reglum sem ganga lengra en almennar skaðabótareglur. Bótaréttur getur m.a. stofnast þótt eigi sé sýnt fram á að tjón megi rekja til sakar nokkurs manns (ábyrgð án sakar eða hlutlæg ábyrgð). Þótt svo víðtæk bótaábyrgð sé óneitanlega ströng í garð þess sem saklaus verður að greiða skaðabætur er þó löngu viðurkennt víðast hvar í heiminum að slík ábyrgð geti átt rétt á sér á sérstökum sviðum athafnalífs. Er reglur um ábyrgð án sakar að finna bæði í löggjöf og dómum.
     Hlutlæg ábyrgð og annars konar víðtæk ábyrgð um skaðsemistjón hefur einkum verið rökstudd með því að neytandi eigi erfitt með að verjast tjóni af þessu tagi og verði að treysta á að söluhlutur sé ekki hættulegur. Framleiðandi og einnig í nokkrum mæli seljandi (milliliður) eigi hins vegar auðveldara með að meta hvort hætta sé á ferðum og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir tjón. Víðtæk ábyrgð hvetji þá til slíkra ráðstafana og auðvelt sé að dreifa tjónskostnaðinum með því móti að kaupa ábyrgðartryggingu. Auk þess sé aðstaða þeirra í skaðabótamálum oft sterkari en neytanda, m.a. vegna þess að þeir eigi betri aðgang að sönnunargögnum um orsakir tjóns en tjónþoli. Margir seljendur þekkja að vísu lítið eða ekkert til þess hvernig vara, sem þeir selja, er búin til. Fjölmargar vörur koma til seljanda í lokuðum umbúðum og fara þannig frá honum í hendur neytanda. Aðrar vörur eru þannig að seljandi hefur ekki aðstöðu eða þekkingu til að dæma um hvort þær eru haldnar hættulegum eiginleikum. Þegar svo stendur á hafa því sumir talið óeðlilegt að leggja víðtæka ábyrgð á seljanda, enda þótt framleiðandi beri slíka ábyrgð. Ef framleiðandi er hins vegar ekki í sama landi og varan er seld hefur þrátt fyrir fyrrgreind rök verið rík tilhneiging til að fella víðtæka ábyrgð á innflytjanda eða aðra milliliði sökum þess að neytandi á oft óhægt með að leita réttar síns gagnvart framleiðanda.
     Rök gegn víðtækri ábyrgð vegna tjóns af völdum hættulegra eiginleika eru m.a. þau að hún geti komið í veg fyrir tækniframfarir eða tafið fyrir þeim, hún sé óeðlilega þungbær og stundum í miklu ósamræmi við endurgjald seljanda eða framleiðanda.
     Fyrrgreindar röksemdir með víðtækari ábyrgð um skaðsemistjón hafa yfirleitt þótt vega þyngra eða gagnrök þau er hér var greint frá, enda hefur á síðustu áratugum almennt verið mikil áhersla lögð á neytendavernd við undirbúning löggjafar.

Ábyrgðartrygging vegna skaðsemisábyrgðar.


     Þeir sem eiga á hættu að baka sér bótaábyrgð vegna skaðsemistjóns eiga þess kost að kaupa ábyrgðartryggingu gegn fjárútlátum sem þeir verða fyrir vegna slíkrar ábyrgðar.
     Ábyrgðartrygging þessi greiðir bætur allt að fjárhæð sem nánar greinir í vátryggingarsamningi. Vátryggingarfjárhæð er að vísu mun lægri en hámarksfjárhæð („bótaþak“) skv. 8. gr. frumvarpsins, en telja verður að hún sé fullnægjandi í flestum tilvikum.
     Almennar íslenskar ábyrgðartryggingar vegna atvinnurekstrar taka bæði til tjóns hér á landi og erlendis. Sérstaks iðgjalds er er þó yfirleitt krafist vegna áhættu erlendis, enda eru fjárhæðir skaðabóta fyrir líkamstjón víða erlendis mun hærri en gerist hér á landi sérstaklega þó í Bandaríkjunum og Kanada. Íslensk vátryggingafélög munu reyndar ekki selja fyrir eigin reikning ábyrgðartryggingu, sem tekur til skaðsemisábyrgðar gagnvart tjónþolum í Bandaríkjunum og Kanada. Hins vegar mun vera unnt að kaupa slíka ábyrgðartryggingu erlendis fyrir tilstilli íslenskra vátryggjenda.

Lagaskilareglur.


     Þótt frumvarp þetta verði að lögum verða íslenskar lagareglur á þessu sviði ekki nákvæmlega eins og reglur grannríkjanna í Evrópu. Auk þess eru réttarreglur ýmissa annarra ríkja, sem Íslendingar skipta við, frábrugðnar reglum ríkja Evrópubandalagsins. Í skaðabótamálum vegna skaðsemistjóns getur því skipt máli eftir lögum hvaða ríkis dæma skuli um bótakröfu.
     Meginreglan er sú að um skaðabótakröfur utan samninga skuli dæmt eftir lögum þess ríkis þar sem tjón varð. Til dæmis ætti í máli um bætur fyrir heilsutjón vegna skemmdra matvæla, sem seld eru frá Íslandi til Bandaríkjanna, að dæma eftir bandarískum lögum ef tjónþoli veikist í Bandaríkjunum. Á sama hátt ættu íslenskar réttarreglur við um kröfu íslensks tjónþola sem slasast hér á landi vegna ágalla vélar sem flutt er inn frá Þýskalandi. Meginregla þessi er þó ekki undantekningarlaus. Reglur um þetta efni (lagaskilareglur) eru ekki í frumvarpinu.
     Í fjölþjóðasamningi um lagaskilareglur í málum um skaðsemisábyrgð, sem gerður var í Haag 2. október 1973, er byggt á greindri meginreglu, en í samningnum eru nokkur ákvæði sem víkja frá henni. Ísland er enn ekki aðili að samningi þessum.

Reglur um varnarþing og viðurkenningu erlendra dóma.


     Í frumvarpinu eru engin ákvæði um hvar dómsmál vegna skaðsemisábyrgðar skuli höfða. Eftir íslenskum réttarfarslögum verður mál almennt sótt á hendur tjónvaldi fyrir dómi í þinghá þar sem hann er heimilisfastur eða þar sem tjóni var valdið. Skrásett firma eða félag skal sækja í þinghá þar sem það á heima samkvæmt skráningu. Maður, sem hefur orðið fyrir skaðsemistjóni erlendis vegna íslenskrar útflutningsvöru sem haldin er ágalla, verður því að jafnaði að lögsækja íslenska útflytjandann hér á landi.
     Íslenskum þegnum getur í ýmsum tilvikum reynst mjög erfitt að reka mál gegn tjónvaldi sem heimili á erlendis og fá dómi á hendur honum fullnægt. Samkvæmt samningi frá 16. mars 1932 milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um viðurkenningu dóma og fullnægju þeirra, sbr. lög nr. 30/1932, skulu aðfararhæfir dómar, sem gengið hafa í einhverju þessara ríkja í einkamálum (og sakamálum að því er varðar bætur fyrir afleiðingar verknaðar sem tjóni hefur valdið), einnig vera bindandi og aðfararhæfir í hinum ríkjunum. Norðurlandasamningur þessi veitir þeim sem verða fyrir skaðsemistjóni mikið hagræði.
     Hins vegar er Ísland er ekki aðili að öðrum samningum um dómsvald og fullnustu erlendra dóma. Meðan svo er verður tjónþoli utan Norðurlanda því almennt að lögsækja Íslending hér á landi og íslenskur tjónþoli verður að höfða bótamál gegn erlendum framleiðanda (utan Norðurlanda) þar sem útlendingurinn á varnarþing.
     Ákvæðin um bótaskyldu innflytjenda og dreifingaraðila í 4. gr. frumvarps þessa eiga að tryggja að íslenskur tjónþoli geti almennt lögsótt innlendan aðila vegna skaðsemistjóns.
     Í september 1988 gerðu ríki, sem aðild eiga að Evrópubandalaginu og Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), samning í Lugano í Sviss um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum. Í samningi þessum segir m.a. að mann, sem heimili á í samningsríki, megi í málum um skaðabætur utan samninga lögsækja í öðru samningsríki fyrir dómstóli þess staðar þar sem tjónsatburðurinn varð. Enn fremur leiðir það af samningnum að hafi dómstóll fallist á varnarþing er efnisdómur, sem kann að falla í framhaldi af því, einnig viðurkenndur og aðfararhæfur í hvaða samningsríki sem er. Ísland hefur ekki staðfest Lugano-samninginn. Ef samningurinn verður lögfestur hér á landi mundi það breyta mjög íslenskum lögsögu- og viðurkenningarreglum að því er tekur til skipta við ríki þau sem aðild eiga að samningnum.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Til þess að skaðabótaábyrgð stofnist samkvæmt lögunum þurfa fjögur grundvallarskilyrði að vera fyrir hendi:
     Tjón á mönnum eða munum, sjá nánar 2. gr. frumvarpsins.
     Tjónið þarf að verða rakið til vöru í merkingu 3. gr. frumvarpsins.
     Varan þarf að vera haldin ágalla, sbr. skilgreiningu í 5. gr. frumvarpsins.
     Krafan þarf að beinast gegn framleiðanda vörunnar, innflytjanda hennar eða dreifingaraðila, svo sem nánar segir í 4. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.


     Eftir þessari grein er gildissvið frumvarpsins bundið við tjón á mönnum eða munum (lausafé eða fasteign). Í frumvarpinu eru ekki reglur um hvernig meta skuli tjón eða ákvarða skuli bætur. Um það fer eftir almennum skaðabótareglum sem eru að mestu ólögfestar.
     Reglum lagafrumvarpsins um munatjón er þó aðeins ætlað að gilda um tjón sem neytandi verður fyrir sökum þess að hlutur til einkanota skemmist eða fer forgörðum. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. þarf hluturinn, sem skemmist, að hafa verið aðallega til einkanota fyrir tjónþola. Það er einnig skilyrði að slíkir hlutir almennt séu til einkanota. Með þessu er gildissvið frumvarpsins takmarkað verulega þar sem reglur þess eiga í fyrsta lagi ekki við um bætur vegna tjóns á munum sem tjónþoli notar aðallega í atvinnurekstri, t.d. bifreiðum, vélum eða verkfærum eða hlutum sem ætlaðir eru til sölu. Í öðru lagi leiðir af framangreindu að reglur frumvarpsins eiga ekki við um hlut sem eigi er venjulega ætlaður til einkanota þótt maður noti hann í einkalífi, t.d. stórvirka vinnuvél sem einstaklingur hefur keypt í því skyni að nota við trjárækt í sumarbústað. Meginmarkmið laga um skaðsemisábyrgð er neytendavernd og frumvarpið felur þess vegna ekki í sér ákvæði um skemmdir á munum af þessu tagi. Atvinnurekendur eða aðrir, sem bíða tjón vegna skemmda á hlutum sem reglur frumvarpsins taka ekki til, verða því að reisa bótakröfur á almennum skaðabótareglum eða eftir atvikum öðrum bótareglum.
     Frumvarpið tekur ekki til svonefnds almenns (hreins) fjártjóns, þ.e. tjóns sem hvorki verður rakið til slyss eða heilsutjóns manns né þess að hlutur skemmist eða glatast.
     Í lokaákvæði þessarar greinar er sérstaklega tekið fram að reglur frumvarpsins taki ekki til skemmda á vöru þeirri sem haldin er ágalla og skaðsemistjón hlýst af. Um bótaábyrgð vegna tjóns, sem kaupandi verður fyrir sökum galla á sjálfri söluvörunni, fer eftir kaupalögum, sbr. almennar athugasemdir með frumvarpinu.

Um 3. gr.


     Með orðinu vara í frumvarpinu er aðeins átt við lausafé, þar á meðal skip, flugvélar og dýr. Hugtakið vara í skilningi frumvarpsins tekur því ekki til fasteigna eða þjónustu. Bótaákvæði frumvarpsins eiga því t.d. ekki við um slys er kaupandi fasteignar verður fyrir sökum þess að seljandi hefur vanrækt að halda fasteigninni við. Sama á við um slys er að öllu leyti verður til vegna mistaka þess sem innir af hendi þjónustu, t.d. viðgerðir án þess að selja eða útvega varahluti eða aðra vöru með þjónustunni. Í þessum tilvikum mundi því fara um ábyrgð eftir öðrum skaðabótareglum sem flestar eru myndaðar af dómstólum.
     Hitt er svo annað mál að ákvæði frumvarpsins geta átt við um tjón af völdum fasteignar ef sýnt er að tjónið stafar af ágalla í byggingarefni eða öðru lausafé sem orðið er hluti fasteignar, sbr. 2. málsl. 3. gr. Sem dæmi þessa má nefna heilsutjón er rekja má til hættulegra eiginleika efnis sem hús er einangrað með. Bótareglur frumvarpsins eiga einnig við um tjón sem hlýst af ágalla efnis er maður lætur í té með þjónustu sinni, t.d. gölluðum varahlut sem bifreiðaverkstæði setur í bifreið eða biluðu tæki sem tannlæknir notar við meðferð sjúklings.
     Áréttað skal að samkvæmt frumvarpinu er vara hvers kyns lausafjármunir, m.a. náttúrulegar afurðir. Skiptir ekki máli hvort afurðirnar eru unnar eða óunnar. Vara er því hér notað í mun víðtækari merkingu en venjulegt er í íslensku máli. Ákvæði 2. málsl. 3. gr. um að til vöru teljist einnig munir, sem orðnir eru hluti af fasteign, leiða til þess að bótareglur frumvarpsins ná einnig til muna er ekki teljast lausafé eftir þeim skilningi sem almennt er lagður í það hugtak í íslenskum rétti.

Um 4. gr.


     Í þessari grein er bæði skilgreint hver teljist framleiðandi og dreifingaraðili í skilningi laganna.

    Um 1. mgr.
     Hugtakið framleiðandi í 1. mgr. þessarar greinar frumvarpsins er svo víðtækt að frumvarpið tekur m.a. til tilvika sem ekki verða talin framleiðsla í venjulegri merkingu þess orðs, t.d. söfnun efna í náttúrunni.
     Við mat á því hver teljist framleiðandi eftir 2. málsl. 1. mgr. ber að miða við það hvort neytandi má almennt ætla að sá sem sett hefur nafn sitt, vörumerki eða annað auðkenni á vöru sé framleiðandi hennar.
     Bótareglur frumvarpsins eiga ekki við um starfsmenn, sem búa til hluti eða vinna að framleiðslu, heldur aðeins þá er hafa slíka starfsemi með höndum fyrir eigin reikning.
     Ekki er það skilyrði fyrir bótaábyrgð að framleiðandi hafi sjálfur búið vöru til að nokkru eða öllu leyti. Nægilegt er að hin fullunna vara sé sett saman úr hlutum sem hann kaupir hjá öðrum. Hér geta komið upp vafaatriði varðandi það hvort starfsemi er framleiðsla vöru eða aðeins þjónusta.
     Ábyrgð framleiðenda, þar á meðal framleiðenda hluta í fullunna vöru, takmarkast af ákvæðum 7. gr. Þegar lesin eru ákvæði 4. gr. um hina síðarnefndu verður m.a. að hafa í huga reglur í 2. og 3. mgr. 7. gr.

    Um 2. mgr.
     Tilgangur ákvæða 2. mgr. er sá að veita neytanda sem mesta réttarvernd. Ákvæði þetta á að tryggja að ætíð sé unnt að gera skaðabótakröfu á bótaskyldan aðila sem á varnarþing á Íslandi.
     Sé vara ekki flutt inn í atvinnuskyni í þeim tilgangi að selja hana, leigja eða versla með hana á annan sambærilegan hátt, t.d. þegar eigandi vélar flytur hana inn til nota í eigin atvinnurekstri, telst innflytjandi ekki framleiðandi eftir 2. mgr. Um ábyrgð innflytjanda í slíkum tilvikum fer því ekki eftir frumvarpinu heldur almennum skaðabótareglum.
     Ljóst er af orðum 2. mgr. að hún tekur ekki til farmflytjenda.
     Sá sem flytur vöru til landsins í atvinnuskyni í þeim tilgangi sem greinir í 2. mgr. telst framleiðandi þótt gjald komi ekki fyrir vöruna.

    Um 3. 5. mgr.
     Í þessum málsgreinum er fjallað um dreifingaraðila. Á þeim hvílir sérstök ábyrgð skv. 10. gr. frumvarpsins. Framleiðandi ber hins vegar ábyrgð skv. 6. gr. þess.
     Það er skilyrði ábyrgðar dreifingaraðila eftir lagafrumvarpinu að hann hafi dreift vöru í atvinnuskyni. Skilja verður 4. gr. svo að dreifingaraðili sé einungis sá sem verslar eða rekur viðskipti með vöru. Dreifingaraðili er ekki aðeins ábyrgur vegna vöru sem hann selur heldur einnig vöru sem hann lætur af hendi (dreifir) í atvinnuskyni á annan hátt, t.d. samkvæmt kaupleigusamningi eða leigusamningi. Atvinnurekandi, sem afhendir starfsmanni sínum vél, verkfæri eða efni til notkunar í starfi, telst hins vegar ekki dreifingaraðili í merkingu 4. gr.
     Oftast mun endurgjald koma fyrir vöru sem dreift er í atvinnuskyni. Ekki er það þó skilyrði ábyrgðar eftir 3. mgr. 4. gr. Tekið skal fram að farmflytjandi telst ekki dreifingaraðili í merkingu frumvarpsins.
     Orðin „í atvinnuskyni“ takmarka gildissvið ákvæðanna um dreifingaraðila. Maður, sem selur notaða bifreið sína, heimilistæki eða innanstokksmuni, telst ekki dreifingaraðili, jafnvel þótt hann sé atvinnurekandi, svo framarlega sem hann hefur ekki atvinnu af að selja slíka muni.
     Þegar vara gengur kaupum og sölum er meginreglan sú að allir seljendur hennar, aðrir en framleiðandi skv. 1. eða 2. mgr. 4. gr., teljast dreifingaraðilar og bera ábyrgð eftir 10. gr. Það skal áréttað að innflytjandi vöru telst framleiðandi og ber samkvæmt því ábyrgð eftir 6. gr. Sama gildir um dreifingaraðila ef svo stendur á sem segir í 4. mgr. 4. gr.
     Upplýsingar, sem dreifingaraðili skal skv. 5. mgr. láta tjónþola í té ef hann vill komast hjá því að verða talinn framleiðandi eftir 4. mgr., skulu vera svo skýrar að unnt sé á grundvelli þeirra að lögsækja þann sem hlut á að máli.
     Upplýsingar þær, sem um ræðir í 5. mgr., skipta máli um upphaf fyrningarfrests eftir 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins.Um 5. gr.


     Um 1. mgr.
     Í þessari grein er skilgreining á hugtakinu ágalli. Auk almennrar skilgreiningar felur 1. mgr. í sér nánari leiðbeiningar um hvað hafa skuli til marks þegar metið er hvort vara telst haldin ágalla, sjá 1. 3. tölul. 1. mgr.
     Eftir núgildandi íslenskum réttarreglum verður að telja að vara sé haldin ágalla ef hún getur valdið tjóni á mönnum eða munum þegar hún er notuð á venjulegan hátt með fullri aðgát. Frumvarpið felur ekki í sér breytingu á þessu.
     Þrátt fyrir skilgreiningu frumvarpsins á hugtakinu ágalli er ljóst að í ýmsum tilvikum getur orðið deiluefni hvort tiltekin vara sé haldin ágalla. Um það hljóta dómstólar að hafa síðasta orðið. Þegar meta skal hvað teljist nægilega „örugg“ vara verður að fara eftir almennum hlutlægum mælikvarða, en ekki sérstökum hugmyndum sem sá tjónþoli, er hlut á að máli, gerði sér um það hvernig nota mætti vöru.
     Ef vara fullnægir ekki opinberum reglum um öryggi orkar venjulega ekki tvímælis að hún telst haldin ágalla í skilningi 5. gr. frumvarpsins.
     Þegar ekki er til að dreifa öryggiskröfum í lögum, reglugerðum eða öðrum bindandi fyrirmælum hins opinbera verður að meta hverju sinni hvort hættan á að tjón hljótist af vörunni sé meiri en almennt mátti búast við um vöru af þeirri tegund eða gerð sem um er að ræða. Flestir hlutir geta verið skaðlegir við einhverjar aðstæður. Þar með er ekki sagt að þeir séu haldnir ágalla. Hnífur sem maður sker sig á, ofn sem maður brennir sig á eða bíll sem maður slasast í er ekki haldinn ágalla í merkingu frumvarpsins vegna þess eins að slys hlaust af notkun hlutarins. Hins vegar er hlutur talinn haldinn ágalla þegar ekki er unnt að nota hann á venjulegan hátt svo að öruggt sé ef miðað er við þær kröfur sem eðlilegt er að gera til sams konar hluta. Dæmi: Hnífur með blaði sem losnar við venjulega notkun, olíuofn sem lekur vegna smíðisgalla og bifreið með hemlabúnaði sem bilar vegna efnisgalla.
     Hugtakið ágalli í frumvarpinu er ekki hið sama og galli samkvæmt kaupalögum. Oft er vara bæði gölluð í merkingu kauparéttar og haldin ágalla eftir reglum 5. gr. frumvarpsins, en svo er alls ekki alltaf. Gölluð vara getur verið án ágalla í merkingu frumvarpsins og vara, sem haldin er ágalla, getur verið ógölluð samkvæmt reglum um kaup.

    Um 1. tölul. 1. mgr.
     Hér er átt við hvers konar upplýsingar sem gefnar eru um vöru. Ekki skiptir máli í hvaða formi þær upplýsingar eru. Þær geta t.d. komið fram í auglýsingum, leiðbeiningum eða aðvörunum um notkun o.s.frv.
     Í frumvarpinu eru ekki nein ákvæði um þær kröfur sem gera verður um upplýsingar sem skylt er að gefa um vöru. Verður því að meta eftir aðstæðum hverju sinni hvort upplýsingar eru nægilegar. Ef vara er erlend þarf m.a. að meta hvort nægilegt sé að leiðbeiningar með henni séu á erlendu máli. Þegar vara er seld til almennings hér á landi verður almennt að gera kröfu um að nauðsynlegar aðvaranir og brýnar leiðbeiningar séu á íslensku.

    Um 2. tölul. 1. mgr.
     Við mat á því hvort maður ber skaðsemisábyrgð skal einnig líta til þess með hvaða hætti búast mátti við að vara yrði notuð. Verður þá almennt að miða við hvernig venjulegt er að menn noti vöruna. Yfirleitt eru minni líkur fyrir því að framleiðandi eða seljandi teljist bótaábyrgur ef hann getur sýnt fram á að tjón hlaust af því að vara var notuð með öðrum hætti en við mátti búast eða á afbrigðilegan hátt. Oft verður þó að gera þær kröfur að vara sé gerð þannig úr garði að hún geti ekki valdið slysi eða tjóni á munum þótt með hana sé farið öðruvísi en til var ætlast.
     Ljóst er af því sem nú hefur verið rakið að úrslit máls geta ráðist af vandasömu mati. Í mörgum tilvikum veltur bótaréttur á því hvort talið verður að tjón verði rakið til rangrar notkunar vöru eða þess að vara er ekki svo örugg sem vænta mátti.

    Um 3. tölul. 1. mgr.
     Í þessum tölulið felst fyrst og fremst það að við mat á, hvort vara teljist haldin ágalla, skal miða við hvort svo var þegar henni var dreift. Um fjölmargar vörutegundir er það að segja að með tímanum aukast þær kröfur sem menn gera til þess að vara sé þannig úr garði gerð að sem minnst hætta stafi af henni. Séu öryggiskröfur orðnar meiri þegar tjónsatvik ber að höndum en þær voru þegar vöru var dreift getur tjónþoli ekki byggt málatilbúnað á hinum nýju og víðtækari öryggiskröfum.
     Hér skal einnig vakin athygli á skyldum ákvæðum sem eru í 4. tölul. 7. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram að ábyrgð verður ekki felld á framleiðanda vegna ágalla ef leitt er í ljós að ekki var unnt að uppgötva ágallann á grundvelli þekkingar sem menn bjuggu yfir er vöru var dreift.

    Um 2. mgr.
     Í 2. mgr. 5. gr. felst í raun ekki annað en árétting á því sem leiðir af ákvæðum 3. tölul. 1. mgr. 5. gr., sbr. 4. tölul. 7. gr. Tjónþoli getur ekki reist bótakröfu á því einu að á markað hafa komið betri vörur eftir að vöru, sem tjóni olli, var dreift.

Um 6. gr.


     Í þessari grein frumvarpsins er meginreglan um grundvöll bótaábyrgðar framleiðanda. Samkvæmt frumvarpinu ber framleiðandi ábyrgð án sakar (hlutlæga ábyrgð), þ.e. bótaábyrgð er stofnast án tillits til þess hvort tjón verður rakið til sakar. Víðtækari bótaábyrgð er ekki til eftir íslenskum reglum um bótaskyldu utan samninga. Regla þessi veitir tjónþola mun betri tækifæri til að fá bætur en almennt gerist eftir íslenskum réttarreglum.
     Hins vegar leysir þessi víðtæka regla tjónþola ekki undan hinum almennu skilyrðum um að hann þurfi að sanna að tjón hafi orðið og hvert það sé og enn fremur að tjónið verði rakið til ágalla. Í ýmsum tilvikum getur tjónþola reynst erfitt að fullnægja síðargreindu skilyrði um sönnun varðandi orsakatengsl milli ágalla og tjóns.
     Auk ákvæða 2. mgr. 6. gr. takmarkast regla 1. mgr. um ábyrgð framleiðanda án sakar af reglum 7. gr., en í henni eru talin nokkur sérstök atvik sem leysa framleiðanda undan ábyrgð.


Um 7. gr.


     Hin víðtæka ábyrgð framleiðanda skv. 6. gr. er ekki undantekningarlaus. Í 7. gr. eru talin upp atvik sem leysa hann undan bótaábyrgð. Sönnunarbyrði um að eitthvert slíkra atvika sé eða hafi verið fyrir hendi hvílir á framleiðanda. Tjónþoli á bótarétt skv. 6. gr. ef framleiðanda tekst ekki að sanna atvik það sem hann ber fyrir sig eftir 7. gr.
     Ekki er unnt að gefa almenna leiðbeiningarreglu um hvort vöru teljist hafa verið dreift í merkingu 1. tölul. 7. gr. Yfirleitt verður að miða við að svo sé þegar framleiðandi hefur afhent vöruna neytanda, kaupmanni, öðrum seljanda eða sjálfstæðum farmflytjanda. Framleiðandi ber ekki ábyrgð samkvæmt frumvarpinu ef ágalli vöru veldur tjóni meðan á framleiðslu stendur eða meðan varan er enn í geymslu hjá honum. Sama á við ef tjón hlýst af vöru sem aðrir en framleiðandi eða menn, sem hann ber ábyrgð á, hafa dreift. Hins vegar getur framleiðandi orðið bótaskyldur eftir öðrum bótareglum þótt hann sé ekki ábyrgur samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Til dæmis bæri framleiðandi almennt ábyrgð vegna slyss er starfsmaður hans verður fyrir af ágalla vöru sem starfsmaðurinn hefur með höndum í vinnu sinni hjá framleiðanda.
     Samkvæmt 2. tölul. 7. gr. taka ákvæði frumvarpsins um ábyrgð framleiðanda ekki til tjóns af ágalla vöru sem hvorki var framleidd né dreift í atvinnuskyni. Húsmóðir ber t.d. ekki skaðsemisábyrgð vegna matareitrunar sem hlýst af heimabakaðri köku sem hún býður gestum sínum. Yfirleitt veldur ekki vafa hvað teljist framleiðsla eða dreifing í atvinnuskyni. Álitamál geta þó komið upp, m.a. varðandi sölu á heimatilbúnum munum.
     Ákvæði 3. tölul. 7. gr. leysa framleiðanda því aðeins úr ábyrgð að ófrávíkjanleg fyrirmæli opinbers aðila sé orsök ágallans sem leiddi til tjóns, t.d. þegar efni, sem framleiðandi verður að setja í vöru að kröfu hins opinbera, veldur neytanda vörunnar heilsutjóni.
     Í 4. tölul. felst mikilvæg undantekning frá reglu 6. gr. frumvarpsins um ábyrgð án sakar. Maður ber ekki skaðsemisábyrgð ef honum tekst að sýna fram á að eigi var kleift að staðreyna að vara var haldin ágalla með því að beita þeirri þekkingu sem til var þegar vöru var dreift. Hér ræður ekki úrslitum hvað framleiðandi vissi raunverulega um, heldur það, hvort varan mátti teljast gallalaus á grundvelli þeirrar þekkingar sem til var á þeim tíma sem hér skiptir máli. Framleiðandi getur því orðið bótaskyldur vegna atvika sem honum var ekki kunnugt um ef vara hans verður talin haldin ágalla í ljósi þekkingar sem til var hjá öðrum. Fræðileg þekking og reynsla, sem ekki kom til sögunnar fyrr en eftir að vöru var dreift, skiptir ekki máli um bótaábyrgð eftir frumvarpinu.
     Ákvæði 2. mgr. 7. gr. fela í sér þá sjálfsögðu reglu að framleiðandi er ekki bótaskyldur ef ætla má að ágalli, sem tjóni olli, hafi ekki komið til fyrr en eftir að hann dreifði vöru. Ef ágalli verður til eftir að framleiðandi dreifði vöru, en áður en innflytjandi eða dreifingaraðili skv. 4. gr. selur eða lætur hana af hendi á annan sambærilegan hátt, bera hinir síðarnefndu skaðsemisábyrgð. Reglur frumvarpsins eiga ekki við um dreifingaraðila sem 4. gr. nær ekki til, þ.e. þá sem dreifa vöru, en ekki í atvinnuskyni. Slíkur aðili getur hins vegar orðið bótaskyldur eftir almennum skaðabótareglum ef tjón verður rakið til ágalla sem rakinn verður til vörslu hans á vöru.
     Það felst í orðalaginu „ætla má“ í 2. mgr. að til framleiðanda verða ekki gerðar mjög ríkar kröfur um sönnun. Nægilegt er að hann sýni fram á að sennilegt sé að vara hafi ekki verið haldin ágalla þegar hann dreifði henni eða ágallinn hafi sennilega orðið til síðar.
     Fjölmargar tegundir varnings eru gerðar úr hlutum sem framleiðandi hinnar endanlegu vöru hefur ekki sjálfur búið til. Ákvæði 3. mgr. 7. gr. á einungis við um framleiðendur slíkra einstakra hluta. Samkvæmt því leysir framleiðandi einstaks hlutar sig undan ábyrgð ef honum tekst að sanna að ágallinn stafi af gerð fullunnu vörunnar eða fyrirmælum frá þeim sem bjó hana til. Í ýmsum tilvikum kann að vera erfitt að sanna þetta. Takist sönnun ekki bera framleiðandi einstaks hlutar og framleiðandi fullunnu vörunnar óskipta ábyrgð gagnvart tjónþola.

Um 8. gr.


     Ákvæði þessarar greinar eru tekin upp í frumvarpið að fyrirmynd 1. mgr. 16. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins. Hún er þess efnis að einstökum aðildarríkum er heimilt að setja í lög reglur um sérstaka hámarksfjárhæð sem heildarábyrgð framleiðanda vegna slyss af völdum ágalla samkynja vöru takmarkast við (bótaþak). Tilskipunin kveður svo á að slíkt bótaþak skuli ekki nema lægri fjárhæð en sem svari til 70 milljóna Evrópugjaldmiðilsins ECU, þ.e. rúml. 5 milljarðar króna eftir gengi í ágúst 1990.
     Hér er um svo háa fjárhæð að ræða að bótaábyrgð að því marki mundi verða ofviða að heita má hverjum þeim íslenskum einkaaðila sem slík bótaábyrgð félli á. Afar litlar líkur eru til þess að á þetta ákvæði reyni, en rétt þótti að hafa það í lögunum til þess að tryggja íslenska hagsmuni gagnvart erlendum kröfuhöfum.
     Ekki verður séð að hagsmunir íslenskra neytenda verði fyrir borð bornir þótt ákvæði þetta verði að lögum.

Um 9. gr.


     Regla 9. gr. er í samræmi við almennar reglur um meðábyrgð tjónþola. Orðalag þessarar greinar frumvarpsins tekur aðeins til þess þegar tjónþoli sjálfur er meðvaldur að tjóni af ásetningi eða gáleysi.
     Ekki þykir ástæða til að nefna berum orðum að tjónþoli glatar einnig bótarétti að nokkru eða öllu ef fyrir hendi eru önnur atvik sem samkvæmt almennum réttarreglum má jafna til sakar tjónþola sjálfs. Hér skal aðeins nefnt að verði tjónsatvik rakið til sakar starfsmanns tjónþola verður tjónþoli almennt að þola skerðingu á rétti til bóta fyrir tjón sem hlaust af atvikinu.

Um 10. gr.


     Þessi grein frumvarpsins mælir fyrir um grundvöll bótaábyrgðar dreifingaraðila, en eins og fyrr segir fjallar 6. gr. um ábyrgð framleiðanda. Sumir dreifingaraðilar teljast framleiðendur, sjá 1., 2. og 4. mgr. 4. gr., og bera þeir því ábyrgð eftir 6. gr. frumvarpsins. Regla 10. gr. á aðeins við um þá dreifingaraðila sem ekki teljast framleiðendur skv. 4. gr.
     Það er sameiginlegt með 6. og 10. gr. að samkvæmt þeim stofnast ábyrgð án tillits til þess hvort tjón verður rakið til sakar. Ábyrgðin er hlutlæg eftir báðum greinunum. Hins vegar eru reglur þessara greina frumvarpsins frábrugðnar að því leyti að ábyrgð dreifingaraðila skv. 10. gr. er háð því að framleiðandi eða fyrri dreifingaraðilar beri bótaábyrgð á skaðsemistjóni. Ábyrgð eftir 10. gr. má því líkja við ábyrgð sjálfskuldarábyrgðarmanns. Ekki er það skilyrði ábyrgðar dreifingaraðila eftir 10. gr. að framleiðandi eða fyrri dreifingaraðili hafi verið dæmdur til að greiða kröfuna eða sátt hafi verið gerð um hana. Nægilegt er að telja verði að einhver þessara aðila yrði dæmdur bótaskyldur ef mál væri höfðað gegn þeim.
     Í 10. gr. felst ekki aðeins að dreifingaraðili ábyrgist hlutlæga ábyrgð framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila, heldur einnig bótaskyldu sem þessir aðilar bera eftir almennum skaðabótareglum. Hér skal tekið fram að tjónþola er heimilt skv. 13. gr. frumvarpsins að gera bótakröfu vegna skaðsemistjóns á grundvelli almennra bótareglna.
     Hlutverk 10. gr. er að styrkja réttarstöðu tjónþola (og síðari dreifingaraðila) og auka tækifæri hans til þess að fá greiddar bætur fyrir skaðsemistjón. Tjónþoli getur samkvæmt reglum frumvarpsins valið að hverjum í framleiðslu- og dreifingarröðinni hann beinir bótakröfu sinni. Hann getur einnig beint kröfu sinni að fleiri en einum, t.d. smásala og heildsala eða jafnvel öllum sem ábyrgð bera. Þeir sem tjónþoli á kröfu á eftir reglum frumvarpsins, sbr. 6. og 10. gr., bera óskipta ábyrgð, sjá 1. mgr. 11. gr.
     Dreifingaraðili, er greiðir tjónþola eða síðari dreifingaraðila bætur, öðlast framkröfu samkvæmt því sem segir í 3. mgr. 11. gr.

Um 11. gr.


     Í 1. mgr. 11. gr. er mælt fyrir um óskipta (solidariska) ábyrgð þeirra sem bótaskyldir eru vegna sama tjóns. Ákvæðið er í samræmi við það sem almennt gildir í íslenskum rétti. Reglan um óskipta ábyrgð veitir tjónþola mikið hagræði. Hann getur hagað málatilbúnaði sínum eftir því hvern eða hverja auðveldast er að krefja, svo og eftir því hver hinna bótaskyldu er líklegastur til að eiga fé til að greiða kröfuna.
     Í 2. og 3. mgr. 11. gr. er kveðið á um hvernig ábyrgð hinna bótaskyldu skiptist innbyrðis milli þeirra. Ákvæði 2. mgr. eiga við um framkröfu (endurkröfu) í lögskiptum aðila sem teljast framleiðendur eftir 1. mgr. 4. gr. Áréttað skal að 2. mgr. 11. gr. nær ekki aðeins til réttarstöðu þeirra sem leggja til hráefni, framleiðenda hluta í vöru og framleiðenda fullunninnar vöru, heldur einnig réttarstöðu framleiðanda gagnvart dreifingaraðila sem telst framleiðandi vegna þess að hann hefur sett vörumerki sitt á vöruna eða þess háttar, sbr. 1. mgr. 4. gr. Upptalning 2. mgr. á atvikum, sem líta ber til þegar skipting bóta er ákveðin, er ekki tæmandi. Orsök ágalla er eitt atvikanna. Með orsök er einkum átt við hvort einhver eða einhverjir hinna ábyrgu eiga sök á tjóninu. Reglur 2. mgr. um skiptingu tjóns eiga ekki við ef annað leiðir af samningi. Samningsákvæði um framkröfu eru því bindandi fyrir aðila eftir því sem almennar reglur kröfuréttar segja til um.
     Ákvæði 3. mgr. 11. gr. veita innflytjanda vöru og öðrum dreifingaraðilum, bæði þeim sem teljast framleiðendur eftir 2. eða 4. mgr. 4. gr. og öðrum, fulla framkröfu á hendur þeim sem áður dreifðu vöru. Framkröfuréttur eftir 3. mgr. 11. gr. er ekki takmarkaður af neinni reglu um skiptingu, eins og þeirri sem 2. mgr. 11. gr. felur í sér, sbr. þó niðurlagsákvæði 3. mgr. um niðurfellingu eða lækkun, þegar um ásetning eða gáleysi er að ræða. Eigi er heimilt að víkja frá reglum 3. mgr. með samningi, sbr. 12. gr. frumvarpsins.
     Um fyrningu framkröfu vísast til athugasemda með 14. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.


     Í þessari grein er lagt til að bannað verði, áður en tjón ber að höndum, að semja um lakari rétt en tjónþoli á eftir lögum um skaðsemisábyrgð. Að baki 12. gr. liggja þau rök að lögunum er ætlað að vernda neytendur og þeim tilgangi laganna verður ekki náð ef aðilar hafa fullt frelsi til að semja sig undan ákvæðum þeirra.
     Í 12. gr. frumvarpsins kemur berum orðum fram að þeir menn, sem öðlast bótarétt tjónþola á hendur hinum bótaskylda, njóta einnig góðs af reglunni sem hér er gerð tillaga um. Þetta á einkum við um dreifingaraðila sem greiða tjónþola bætur á grundvelli 10. gr. og eignast því kröfurétt tjónþola skv. 3. mgr. 11. gr.
     Þar sem lögin eiga að vera til hagsbóta neytendum er vitanlega heimilt að semja svo um að tjónþoli eða sá sem eignast kröfu hans fái betri rétt en ákvæði frumvarpsins gera ráð fyrir. Til dæmis er heimilt að semja svo um að tjónþoli fái fullar bætur þótt hann hafi sjálfur átt einhverja sök á tjóni.
     Ákvæði 12. gr. um að lögin séu ófrávíkjanleg eiga aðeins við um samninga sem gerðir eru áður en tjón ber að höndum. Ástæða þess er sú, að hætta er talin á að oft geti tjónþoli ekki gert sér grein fyrir afleiðingum samninga sem gerðir eru fyrir fram, jafnvel löngu áður en tjón verður. Eftir að tjón ber að höndum hefur tjónþoli venjulega glögga yfirsýn yfir allar aðstæður. Honum ætti þess vegna að jafnaði að vera ljóst hver áhrif slík samningsákvæði hafa á fjárhag hans. Aðilar hafa því skv. 12. gr. fullt frelsi til samninga um bótakröfu eftir að tjón er orðið. Tjónþoli getur þá, svo að gilt sé, gefið eftir kröfu sína að öllu eða nokkru leyti.
     Reglur 12. gr. eiga ekki við um viðvaranir, leiðbeiningar og upplýsingar sem fylgja vöru. Þessi atriði koma til álita við mat á hvort vara sé haldin ágalla og geta á þann hátt haft þau áhrif að bótaréttur tjónþola verði minni en ella eða jafnvel enginn.


Um 13. gr.


     Reglum frumvarpsins er ekki að öllu leyti ætlað að leysa núgildandi reglur um skaðsemisábyrgð af hólmi. Síðargreindar reglur munu gilda áfram samhliða nýjum reglum. Í 13. gr. felst m.a. að sýni tjónþoli fram á að núgildandi almennar reglur íslensks réttar um skaðsemisábyrgð veiti honum ríkari rétt en hann á samkvæmt öðrum ákvæðum frumvarps þessa getur hann reist skaðabótakröfu á þeim hvort sem hann beinir henni að framleiðanda eða öðrum. Ákvæði þetta ætti að tryggja ef frumvarpið verður að lögum að réttur tjónþola verði ekki að neinu leyti lakari en nú er, sbr. þó undantekningu í 2. málsl. 13. gr. varðandi fyrningu sem í sumum tilvikum, en alls ekki öllum, getur skert rétt tjónþola frá því sem nú er.
     Regla 1. málsl. 13. gr. er sett neytanda til hagsbóta, en hagræði af henni takmarkast þó af þeirri staðreynd að núgildandi almennar íslenskar reglur um skaðsemisábyrgð eru ekki í settum lögum þannig að í ýmsum tilvikum er óljóst hve víðtækan rétt tjónþoli á.
     Reglur varðandi skaðsemisábyrgð í öðrum settum lögum halda einnig gildi sínu. Til dæmis má nefna að maður, sem krefst bóta fyrir flugslys, er rakið verður til bilunar flugvélar eða ágalla varahlutar eða búnaðar sem notaður er í flugvél, getur, ef frumvarpið verður að lögum, valið um hvort hann reisir skaðabótakröfu á loftferðalögum eða lögum um skaðsemisábyrgð. Þess ber þó að geta að bótaskyldir aðilar eru yfirleitt ekki hinir sömu eftir loftferðalögum og reglum frumvarpsins.
     Það, að bótaréttur samkvæmt sérlögum helst, getur aukið að mun tækifæri tjónþola til að fá bætur. Hann nýtur t.d. góðs af sérreglu um fullan bótarétt tjónþola sem er meðvaldur að líkamstjóni vegna einfalds gáleysis, sjá 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.
     Um kröfur vegna tjóns á hagsmunum er frumvarpið tekur ekki til, t.d. vegna tjóns á munum sem ekki eru til einkanota, sbr. nánar 2. mgr. 2. gr., fer eins og áður eftir almennum reglum skaðabótaréttar eða eftir atvikum öðrum bótareglum. Sama á við um skaðabótakröfur vegna annarra atvika sem frumvarpið tekur ekki til.
     Í 2. málsl. 13. gr. er tekið fram að fyrningarreglur 14. gr. skuli einnig gilda þegar krafist er bóta á grundvelli almennra skaðabótareglna innan eða utan samninga. Telja verður að allt of flókið yrði fyrir framleiðendur, dreifingaraðila og tjónþola ef reglur um fyrningu væru mismunandi eftir því hvort bóta væri krafist samkvæmt almennum bótareglum eða ákvæðum í settum lögum.

Um 14. gr.


     Eins og berum orðum segir í 2. málsl. 13. gr. og í upphafi 14. gr. eiga fyrningarreglur frumvarpsins ekki aðeins við um kröfur samkvæmt bótareglum þess, heldur einnig kröfur fyrir skaðsemistjón á grundvelli almennra skaðabótareglna. Ákvæði 14. gr. víkja verulega frá almennum fyrningarreglum, sbr. lög nr. 14/1905. Hins vegar hrófla reglur 14. gr., ef að lögum verða, ekki við ákvæðum um sérstakar fyrningarreglur sem eru í lögum varðandi skaðabótakröfur, sbr. t.d. 99. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, og 125. gr. laga nr. 34/1964, um loftferðir.
     Rökin fyrir því, að lagt er til að sérstakar fyrningarreglur verði lögfestar um kröfur vegna skaðsemistjóns, eru einkum þau að heppilegt þykir að sem mest samræmi ríki um fyrningarreglur hér á landi og í nálægum ríkjum. Sérstaklega skal tekið fram að telja má óæskilegt að íslenskir framleiðendur og seljendur búi við óhagstæðari fyrningarreglur vegna skaðsemisábyrgðar en erlendir keppinautar þeirra.
     Frumvarpið gerir ráð fyrir tvenns konar fyrningarfresti. Annars vegar þriggja ára fresti sem reiknast frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt, ágalla vörunnar og nafn og dvalarstað framleiðanda. Hins vegar tíu ára fresti sem reiknast frá því að framleiðandi dreifði vöru.
     Fyrningarreglur 14. gr. eiga beint við um bótakröfu tjónþola á hendur framleiðanda. Hins vegar taka þær óbeint til bótakröfu á hendur dreifingaraðila vegna þess að í 10. gr. frumvarpsins felst það að dreifingaraðili ábyrgist kröfu sem tjónþoli á gagnvart framleiðanda. Sé krafa á hendur framleiðanda fyrnd ber dreifingaraðili enga ábyrgð skv. 10. gr. því að skilyrði kröfuréttar eftir þeirri grein er að framleiðandi sé bótaskyldur. Greiði dreifingaraðili kröfu tjónþola í samræmi við 10. gr. frumvarpsins eignast hann skv. 3. mgr. 11. gr. kröfu tjónþola á hendur þeim sem áður dreifðu vöru. Um slíka framkröfu dreifingaraðila fer einnig eftir ákvæðum 14. gr.
     Upphaf fyrningarfrests skv. 1. mgr. 14. gr. miðast eins og fyrr segir við það hvenær tjónþoli fær eða átti að fá vitneskju um atriði sem nánar eru greind í ákvæðinu. Hér skiptir engu máli hvenær atvik það, er skaðabótaskylda reis af, bar að höndum. Þótt fyrningarfrestur sé aðeins þrjú ár eftir 1. mgr. 14. gr. er reglan hagstæð tjónþola að því leyti að fyrningarfrestur byrjar ekki að líða fyrr en tjónþoli á þess kost að gera ráðstafanir til að slíta fyrningu.
     Hins vegar miðast upphaf fyrningarfrests eftir 2. mgr. 14. gr. ekki við vitneskju tjónþola. Samkvæmt 2. mgr. hefst tíu ára fyrningarfrestur þegar framleiðandi dreifði vöru sem tjón hlýst af. Hér verður að skýra sögnina „dreifði“ á sama hátt og í 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Þegar skaðsemistjón hlýst af langvarandi notkun vöru sömu tegundar, t.d. lyfi, verður að telja nægilegt til að slíta fyrningu að vörunni, sem tjónþoli notaði síðast, hafi verið dreift innan tíu ára frestsins.
     Til stuðnings því, að krafa fyrnist í síðasta lagi á tíu árum frá því að framleiðandi dreifði vöru, hefur erlendis m.a. verið bent á að framleiðslu- og söluvörur slitni og skemmist með aldrinum. Þess vegna sé erfiðara fyrir þann sem sóttur er til greiðslu bóta að sanna að ágalli, sem tjón hlaust af, hafi ekki verið fyrir hendi þegar varan fór úr umráðum hans.
     Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. fer um slit fyrningar kröfu um bætur fyrir skaðsemistjón eftir almennum réttarreglum um fyrningu. Fyrningu verður því slitið með málssókn, sátt eða annarri viðurkenningu.
     Málssókn slítur fyrningu þótt tjónþoli sjálfur höfði ekki mál gegn hinum bótaskylda innan 10 ára frá því að framleiðandi dreifði vöru. Nægilegt er að mál sé höfðað af dreifingaraðila sem öðlast hefur kröfurétt tjónþola með því að greiða honum bætur, sbr. 3. mgr. 11. gr.

Um 15. gr.


     Samkvæmt þessari grein taka lögin einungis til tjóns sem hlýst af ágalla vöru er framleiðandi dreifir eftir að lögin taka gildi. Um tjón, sem ber að höndum fyrir þann tíma, fer eftir bótareglum sem nú gilda. Sama á við um tjón sem verður eftir að lögin taka gildi, en rakið verður til vöru sem dreift er fyrir gildistöku laganna.