Ferill 99. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 99 . mál.


Ed.

102. Frumvarp til laga



um samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



I. KAFLI


Markmið og gildissvið.


1. gr.


     Markmið laga þessara er að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra.

2. gr.


     Lög þessi taka til samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Hlutverk stofnunarinnar er að annast:
     rannsóknir á íslensku táknmáli,
     kennslu táknmáls,
     táknmálstúlkun,
     aðra þjónustu.
     Um skipan þjónustunnar skal kveðið á í reglugerð.
     Stofnunin skal hafa samstarf við svæðisstjórnir um málefni fatlaðra, Greiningar - og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnleysingjaskólann, Heyrnar - og talmeinastöð Íslands, Námsgagnastofnun og aðra opinbera aðila varðandi málefni er snerta starfsemi þeirra. Sama gildir um samstarf við félög áhugamanna.

II. KAFLI


Stjórnun.


3. gr.


     Menntamálaráðherra skipar stofnuninni fimm manna stjórn til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara:
     einn fulltrúa tilnefndan af Félagi heyrnarlausra,
     einn fulltrúa tilnefndan af Foreldra - og styrktarfélagi heyrnardaufra,
     einn fulltrúa tilnefndan af félagsmálaráðherra,
     einn fulltrúa tilnefndan af heilbrigðisráðherra og
     skipar menntamálaráðherra einn fulltrúa án tilnefningar. Skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

4. gr.


     Menntamálaráðherra skipar forstöðumann til fimm ára í senn, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar. Hann á sæti á fundum stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétti og sér um framkvæmd á ákvörðunum hennar. Forstöðumaður annast daglegan rekstur stofnunarinnar.

5. gr.


     Stjórn stofnunarinnar ræður annað starfsfólk, að fengnum tillögum forstöðumanns í samræmi við starfsmannaheimildir.

6. gr.


     Samskiptamiðstöð gerir fjárhags - og framkvæmdaáætlun til allt að fimm ára. Stjórn stofnunarinnar staðfestir áætlanir og fylgist með framkvæmd þeirra. Menntamálaráðherra getur, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, sett gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem samskiptamiðstöðin veitir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


    Um það bil 300 Íslendingar eru heyrnarlausir. Táknmál er það mál sem þeim lætur best að nota. Það er sjálfstætt mál með eigin formgerð og lýtur eigin reglum.
    Ekki er enn þá boðið upp á formlega kennslu í táknmáli. Námsefni hefur ekki verið til, hæfa kennara hefur vantað og nauðsynlegar rannsóknir á íslensku táknmáli skortir. Skortur er á táknmálstúlkum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er ætlað að bæta möguleika heyrnarlausra og heyrnarskertra til samskipta við heyrandi.

Um 2. gr.


     Stofnuninni er ætlað að annast táknmálsrannsóknir í samvinnu við málvísindamenn. Rannsóknir táknmálsins eru forsenda þess að hægt verði að kenna táknmál og undirbúa og annast menntun táknmálstúlka í samvinnu við háskólastofnun.
    Stofnuninni er ætlað að halda fræðslunámskeið um heyrnarlausa og heyrnarleysi, semja efni í ritlinga og á myndbönd sem auðveldað geta samskipti heyrnarlausra og heyrandi og annast túlkaþjónustu.
    Gott samstarf er mikilvægt við aðra aðila sem þjóna heyrnarlausum og við félagasamtök heyrnarlausra og heyrnarskertra.
    Nánar skal kveðið á í reglugerð um skipan þjónustunnar og menntun starfsmanna.

Um 3. gr.


     Málefni heyrnarlausra heyra undir þrjú ráðuneyti og því eðlilegt að stjórnarmenn séu tilnefndir af þeim ásamt félögum hagsmunaaðila.

Um 4. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 5. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 6. gr.


     Eðlilegt þykir að taka megi gjald fyrir þjónustu veitta öðrum aðilum en heyrnarlausum og heyrnarskertum.